Ferill 786. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1343  —  786. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða).

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur nýtt ákvæði, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða V, XIII, XIV og XV í lögunum falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum:
     a.      Í stað ártalanna „2014/2015“ í 1. málsl. 1. mgr., sbr. 10. gr. laga nr. 48/2014, kemur: 2016/2017.
     b.      Í stað orðanna „innan mánaðar“ í 2. málsl. 1. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 74/2010, kemur: mánuði.

4. gr.

    Í stað ártalanna „2015/2016“ í 1. mgr. ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum kemur: 2016/2017.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkarar breytingar á ákvæðum sem eru til bráðabirgða í lögunum. Í 1. gr. er lagt til að lögfest verði sem 10. gr. a laganna ákvæði um byggðakvóta Byggðastofnunar vegna brothættra byggða sem nú er í bráðabirgðaákvæði XIII. Jafnframt er lagt til að bráðabirgðaákvæðið falli brott. Reynslan hefur sýnt að þörf er á slíkum stuðningi fyrir þau byggðarlög sem flokkast sem brothætt byggðarlög og hefur þessi sérstaka úthlutun þótt skila góðum árangri.
    Einnig er lagt til að þrjú önnur ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði felld brott þar sem þau eiga ekki lengur við, þ.e. ákvæði til bráðabirgða V, XIV, XV. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að framlengd sé til lok næsta fiskveiðiárs heimild ráðherra í ákvæði til bráðabirgða VII til að hafa afskipti af því þegar aflaheimildir eru framseldar eða þeim ráðstafað með öðrum hætti úr sveitarfélögum ef um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda viðkomandi sveitarfélags. Einnig er lagt til að orðalag í því ákvæði verði lagfært. Að lokum er lagt til að ákvæði VIII til bráðabirgða um heimild ráðherra til að ráðstafa síld, þ.e. sumargotssíld og norsk-íslenskri síld, gegn greiðslu verði framlengt til næsta fiskveiðiárs.