Ferill 789. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1358  —  789. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.


Frá atvinnuveganefnd.


    Alþingi ályktar, með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, að á fiskveiðiárinu 2016/2017 skuli því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund skv. 3. mgr. 8. gr. laganna varið til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr., til strandveiða skv. 6. gr. a, til veiða sem eru taldar í 6. gr. og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögunum með þeim hætti sem hér segir:
     1.      Allt að 9.000 tonnum til strandveiða.
     2.      Allt að 2.000 tonnum til rækju- og skelbóta.
     3.      Allt að 6.500 tonnum til stuðnings byggðarlögum.
     4.      Allt að 5.700 tonnum til aflamarks Byggðastofnunar.
     5.      Allt að 5.700 tonnum til línuívilnunar.
     6.      Allt að 300 tonnum til frístundaveiða.
     7.      Allt að 125 tonnum til áframeldis á þorski.
     8.      Allt að 1.000 tonnum verði lögð til hliðar til sérstakra tímabundinna ráðstafana.

Greinargerð.

    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal ráðstafa 5,3% af leyfilegum heildarafla til sérstakra atvinnu- og byggðaráðstafana. Í 5. mgr. sömu greinar er kveðið á um að verja skuli aflamagni sem dregið er frá heildarafla til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr. laganna, til strandveiða skv. 6. gr. a laganna, til veiða skv. 6. gr. laganna og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögunum.
    Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 15/144, um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Hún gildir fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Nú er að nýju lagt til að heimildunum verði ráðstafað til eins fiskveiðiárs.
    Samkvæmt ályktun nr. 15/144 voru aflaheimildir úr almenna byggðakvótanum færðar í aflamark Byggðastofnunar. Þetta var gert í ljósi skýrslu Vífils Karlssonar þar sem fram kom að vænta mætti meiri byggðafestuáhrifa með því móti þar sem báðum úrræðum væri beitt. 1 Sá annmarki var á rannsókninni að eingöngu voru skoðaðir þeir staðir sem eru með samning um sértækan byggðakvóta Byggðastofnunar en ekki athuguð áhrif almenna byggðakvótans eða annarra atvinnu- og byggðaráðstafana annars staðar. Vonir eru bundnar við aflamark Byggðastofnunar og meiri jákvæðni er til þess verkefnis og langtímahugsunar þess.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði samning við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) um greiningu á byggðafestuáhrifum þeirra atvinnu- og byggðaráðstafana sem lög um stjórn fiskveiða kveða á um. Vífill Karlsson, hagfræðingur og dósent við HA, og Hjalti Jóhannesson, landfræðingur og sérfræðingur hjá RHA, skiluðu lokaskýrslu 23. febrúar 2016 sem ber heitið Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu. 2 Samkvæmt skýrslu RHA er niðurstaðan af þeirri aðhvarfsgreiningu sem beitt var sú að almenni byggðakvótinn er talinn skila mestum byggðafestuáhrifum af þeim aðgerðum sem lengst hefur verið beitt en línuívilnun og strandveiðar eru til skiptis í öðru og þriðja sæti eftir því hvaða aðferð er beitt en skelbætur voru taldar sístar til að ná fram ætluðum byggðafestuáhrifum.
    Áfram verður unnið með málið á grundvelli þeirra úttekta sem fram hafa farið en eins og áður segir er nú lögð til ráðstöfun fyrir næsta fiskveiðiár. Að þessari niðurstöðu fenginni er talið rétt að gera ekki viðamiklar breytingar milli ára. Kristján L. Möller og Lilja Rafney Magnúsdóttir lýsa ekki efnislega stuðningi við tillöguna en gera ekki athugasemdir við að nefndin flytji hana og að hún komist á dagskrá. Þau áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögu við málið í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar. Eftirfarandi eru nánari skýringar við einstaka liði tillögunnar:

1. Strandveiðar.
    Lagt er til að strandveiðar verði með svipuðu sniði og á yfirstandandi fiskveiðiári. Jafnvægi þykir vera komið á strandveiðarnar, fjöldi báta er stöðugur milli ára og nokkur festa komin í útgerðarmynstrið. Afleidd áhrif strandveiða þykja nokkur í þeim byggðum sem helst er gert út frá, einkum á hafnir og þjónustu við strandveiðimenn en meginhluti strandveiðiafla fer á markað. Arðsemi af veiðunum sjálfum hefur verið neikvæð samkvæmt úttekt Hagstofunnar sem birt er í Hagur veiða og vinnslu og því er sérstaklega mikilvægt að horfa til byggðafestuáhrifa strandveiða í þeirri úttekt sem nú hefur verið gerð. Um strandveiðar segja skýrsluhöfundar RHA-skýrslunnar:
          Almenni byggðakvótinn skilar mestum byggðafestuáhrifum af þeim ráðstöfunum laga um stjórn fiskveiða sem lengst hefur verið beitt en línuívilnun og strandveiðar koma þar á eftir í öðru og þriðja sæti en skelbætur eru taldar sístar.
          Strandveiðarnar og almenni byggðakvótinn höfðu mestu byggðafestuáhrif á stórhöfuðborgarsvæðinu.
          Skipting og dreifing strandveiða og almenna byggðakvótans var mun jafnari á milli staða en vegna línuívilnunar og skelbóta.
    Aflamagn til strandveiða síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum er sem hér segir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
Strandveiðar Strandveiðar Strandveiðar Strandveiðar     
Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
Þorskur 7.500 6.300 Þorskur 7.500 Þorskur 7.900 Þorskur 8.000 6.720
Ufsi 1.100 711 Ufsi 1.100 Ufsi 1.100 Ufsi 1.000 647
8.600 7.011 8.600 31,85% 9.000 31,09% 9.000 7.367 30,69%

2. Skel- og rækjubætur.
    Lagt er til að skel- og rækjubætur verði óbreyttar næsta fiskveiðiár. Bótunum var upphaflega komið á til að minnka það áfall sem skel- og rækjuútgerðir urðu fyrir með falli stofnanna og gefa þeim svigrúm til endurskipulagningar. Ákvæðin komu til á ólíkum tíma og við setningu þeirra var skýrt að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. Með hliðsjón af upphaflegum gildistíma ættu ákvæðin að vera fallin úr gildi en þau hafa árlega verið framlengd. Um skel- og rækjubætur segja skýrsluhöfundar eftirfarandi:
          Almenni byggðakvótinn skilar mestum byggðafestuáhrifum af þeim pottum sjávarútvegsins sem hefur lengst verið beitt en línuívilnun og strandveiðar komu þar á eftir í öðru og þriðja sæti en skelbætur voru sístar.
          Á Norðurlandi og Austurlandi höfðu skelbætur mestu byggðafestuáhrifin.
          98% skelbótanna hafa farið til 27 hafna með mesta úthlutun á árunum 2003–2014.
          Af 68 útgerðarstöðum fóru skelbætur á 41 stað á tímabilinu, mest 7.034 tonn til Stykkishólms en næstmest 5.175 tonn til Hafnarfjarðar og síðan 2.999 tonn til Ísafjarðar. Í Stykkishólmi virðast skelbætur hafa skipt sköpum fyrir byggðafestu þó að greiningarlíkanið nái ekki utan um það.
    Aflamagn til skel- og rækjubóta síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum er sem hér segir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
    Rækju- og skelbætur Rækju- og skelbætur Rækju- og skelbætur Rækju- og skelbætur
Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
Þorskur 1.486 1.302 Þorskur 1.385 Þorskur 1.331 Þorskur 1.412 1.186
Ýsa 226 203 Ýsa 195 Ýsa 165 Ýsa 215 222
Ufsi 493 304 Ufsi 372 Ufsi 398 Ufsi 325 210
Steinbítur 50 40 Steinbítur 48 Steinbítur 54 Steinbítur 48 34
2.255 1.849 2.000 7,41% 1.948 6,73% 2.000 1.653 6,82%

3. Byggðakvóti (almennur).
    Í skýrslu Vífils Karlssonar og Hjalta Jóhannessonar er niðurstaða aðhvarfsgreiningar eftirfarandi:
          Almenni byggðakvótinn skilar mestum byggðafestuáhrifum af þeim pottum sjávarútvegsins sem lengst hefur verið beitt.
    Með hliðsjón af niðurstöðu skýrsluhöfunda þykir einsýnt að almenni byggðakvótinn skili ágætum byggðafestuáhrifum og þykir rétt að leggja til að úthlutun hans haldi áfram í þeirri mynd sem hann hefur verið undanfarin ár.
    Aflamagn til almenna byggðakvótans síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum er sem hér segir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
    Byggðakvóti Byggðakvóti Byggðakvóti     Byggðakvóti
Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
Þorskur 5.574 4.682 Þorskur 5.094 Þorskur 4.836 Þorskur 4.588 3.854
Ýsa 988 1.021 Ýsa 717 Ýsa 737 Ýsa 699 722
Ufsi 1.482 959 Ufsi 1.368 Ufsi 1.113 Ufsi 1.056 683
Steinbítur 195 139 Steinbítur 177 Steinbítur 166 Steinbítur 157 112
8.239 6.800 7.355 27,24% 6.852 23,67% 6.500 5.371 22,17%

4. Sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar.
    Aukið verður við þær aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar til að styðja við sjávarþorp í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Vísbendingar eru um að úrræðið sem nú er á þriðja ári kunni að vera árangursríkara en mörg úrræða fiskveiðistjórnarkerfisins. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun eru nú 11 byggðarlög með samning um úthlutun aflamarks stofnunarinnar og enn gætu nokkur byggðarlög hugsanlega þurft á viðbótaraflamarki að halda til þess að vinnsla og atvinna haldist allt árið. Byggðarlögin og magn á hvern stað er eftirfarandi í þorskígildum talið:
          Tálknafjörður/Patreksfjörður     400 tonn
          Þingeyri          400 tonn
          Flateyri               300 tonn
          Suðureyri          400 tonn
          Drangsnes          150 tonn
          Hrísey               250 tonn
          Grímsey          400 tonn
          Raufarhöfn          400 tonn
          Bakkafjörður     150 tonn
          Breiðdalsvík     300 tonn
          Djúpivogur     800 tonn

    Í skýrslu Vífils og Hjalta segir m.a.: „Í nýlegri skýrslu var lagt mat á aflamark Byggðastofnunar eða sértæka byggðakvótann eins og það er líka kallað (Vífill Karlsson, 2015a). Þar var fjallað um ýmsar mögulegar aðferðir til beitingar við greiningu sem þessa og var þar fyrst greint á milli opinberra verkefna sem hafa verið í gangi um lengri eða skemmri tíma. Pottarnir eða viðfangsefnin sem hér eru til umfjöllunar hafa verið í gangi í a.m.k. sex ár og hafa snert fjölda byggðarlaga. Það er því fyrirliggjandi fullnægjandi gagnasafn til að framkvæma flóknari tölfræðilega aðferð en í tilviki sértæka byggðakvótans sem aðeins hefur verið úthlutað síðan 2013.“
    Aflamagn til sérstaks byggðakvóta Byggðastofnunar síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum kemur fram í töflunni. Lagt er til að þessar heimildir séu hækkaðar um 800 tonn og er það gert til samræmis við þau verkefni sem talin eru liggja fyrir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
Aflamark Byggðastofnunar Aflamark Byggðastofnunar Aflamark Byggðastofnunar Aflamark Byggðastofnunar
Hlutfall teg. Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
0,6766 1.450 1.218 Þorskur 2.404 Þorskur 3.459 Þorskur 4.023 3.380
0,1199 223 216 Ýsa 338 Ýsa 527 Ýsa 613 633
0,1799 470 324 Ufsi 646 Ufsi 796 Ufsi 926 599
0,0237 50 43 Steinbítur 83 Steinbítur 119 Steinbítur 138 98
1,0000 2.193
1.800
3.472 12,86% 4.901 16,93% 5.700 4.710 19,44%

5. Línuívilnun.
    Um aflaheimildir til línuívilnunar segir í skýrslu Vífils og Hjalta nú:
          Línuívilnun hefur mest byggðafestuáhrif á þær sjávarbyggðir sem eru viðkvæmastar og í mikilli einangrun.
          Bolungarvík bar höfuð og herðar yfir þá staði sem nýttu sér línuívilnun með 9.507 tonn á tímabilinu 2003–2014 en Ólafsvík kom þar á eftir með 3.803 tonn. Rif, Siglufjörður og Suðureyri fylgdu svo í kjölfarið með mjög svipaða magn og Ólafsvík.
    Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu mun fljótlega hefjast vinna við endurskoðun ákvæða laga um línuívílnun. Gert er m.a. ráð fyrir að leitað verði leiða til að setja vinnsluskyldu á línuívilnunarafla og tryggja þannig betur byggðafestuáhrif aðgerðarinnar. Auk þess verður sérstök ívílnun handbeittrar línu endurskoðuð. Gert er ráð fyrir að ráðherra flytji frumvarp á næsta þingi um þetta efni.
    Aflamagn til línuívilnunar síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum er sem hér segir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
Línuívilnun Línuívilnun Línuívilnun Línuívilnun
Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
Þorskur 3.375 2.835 Þorskur 3.375 Þorskur 3.500 Þorskur 3.500 2.940
Ýsa 2.100 2.170 Ýsa 1.300 Ýsa 1.425 Ýsa 1.425 1.472
Steinbítur 900 640 Steinbítur 700 Steinbítur 775 Steinbítur 775 551
6.375 5.645 5.375 19,91% 5.700 19,69% 5.700 4.963 19,44%

6. Frístundaveiðar.
    300 tonnum af þorski verður ráðstafað til frístundaveiða. Reglur um þær verða óbreyttar. Aflamagn til frístundaveiða þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017, samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum er sem hér segir:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
Frístundaveiðar Frístundaveiðar Frístundaveiðar Frístundaveiðar
Úr sjó Þíg. Úr sjó % af heild Úr sjó % af heild Úr sjó Þíg. % af heild
Þorskur 300 252 Þorskur 200 0,74% Þorskur 300 1,04% Þorskur 300 252 1,02%

7. Áframeldi í þorski.
    Að jafnaði hefur 500 tonnum af þorski verið ráðstafað til áframeldis í kvíum. Ákvæðið var lögfest til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða, með lögum nr. 85/2002, og var markmið þess að skapa tækifæri til aukinnar þekkingar á þorskeldi og fýsileika þess á meðan kynbætur færu fram þannig að aleldi gæti farið fram á þorski. Ákvæðið hefur verið framlengt nokkrum sinnum. Ljóst er að þróun í fiskeldi er ekki til áframeldis á þorski og kynbætur hafa ekki orðið að veruleika þannig að aleldi sé framundan. Í ljósi þessa var ákveðið að lækka heimildir til áframeldis á þorski um helming fiskveiðiárið 2015/2016 og voru þær lækkaðar úr 500 tonnum í 250 tonn. Nú er enn lagt til að dregið verði úr magninu og það lækkað í 125 tonn. Aflamagn til áframeldis á þorski síðustu þrjú fiskveiðiár og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 er eftirfarandi:

Fiskveiðiárið 2013/2014 Fiskveiðiárið 2014/2015 Fiskveiðiárið 2015/2016 Áætlun fiskveiðiárið 2016/2017
Áframeldi           Áframeldi Áframeldi Áframeldi
Þíg. % af heild % af heild Þíg. % af heild
Þorskur 500 420 Þorskur 0 0,00% Þorskur 250 0,86% Þorskur 125 105 0,43%

8. Aflamagn tekið frá vegna tímabundinna aðgerða.
    Talið er nauðsynlegt að eiga varasjóð sem svarar til um 1.000 þorskígildistonna til að grípa í ef upp koma skyndileg vandamál á viðkvæmum atvinnusvæðum en hingað til hafa stjórnvöld verið bundin af úthlutun aflamarks í upphafi fiskveiðiárs og öllu aflamarki ráðstafað. Reynslan sýnir að upp geta komið aðstæður þar sem nauðsynlegt er að geta brugðist skjótt við til aðstoðar. Gert er ráð fyrir að ráðstöfun þessa aflamarks verði í höndum Byggðastofnunar og falli undir ákvæði um byggðakvóta hennar. Gert er ráð fyrir að úthlutun samkvæmt þessu geti eingöngu verið til eins árs í senn.

9. Makrílheimildir.
    Þrátt fyrir áform á síðasta fiskveiðiári um sölu á hluta makrílheimilda til minni báta gegn ákveðnu gjaldi var heimildunum ekki ráðstafað vegna sölutregðu sem upp kom í kjölfar viðskiptabanns Rússa, sem var helsti markaður okkar fyrir makríl.

10. Aflaheimildir í síld.
    Lagt er til að 800 tonnum af síld verði ráðstafað til smábáta undir 30 brúttótonnum í samræmi við þær úthlutunarreglur sem hafa gilt á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VIII í lögum um stjórn fiskveiða. Mismikið hefur verið sótt í veiðarnar en þekking á þeim hefur byggst upp, sem og mikilvægur iðnaður í kringum þær, á viðkvæmu atvinnusvæði sem æskilegt er að halda við. Heimildir sem ekki hefur verið ráðstafað til báta sem falla undir skilgreiningu ákvæðisins 1. október 2016 skulu boðnar öllum skipum til kaups.

11. Skiptimarkaður með aflaheimildir.
    Reynsla undanfarinna þriggja fiskveiðiára sýnir að ekki næst það aflamagn á skiptimarkaði Fiskistofu sem þarf fyrir hinar ólíku ráðstafanir.
    Á fiskveiðiárinu 2013/14 vantaði um 7 þúsund tonn af þorski í skiptipottinn.
    Á fiskveiðiárinu 2014/2015 vantaði um 200 tonn af þorski, 738 tonn af ýsu, 610 tonn af steinbít og 412 tonn af ufsa.
    Á fiskveiðiárinu 2015/2016 er útlit fyrir að það vanti 6.400 tonn af þorski og 492 tonn af ufsa, svo jöfnuði sé náð. Lögð var áhersla á að fá meiri ýsu en til þurfti fiskveiðiárið 2015/2016 til þess að leiðrétta það sem á vantaði fiskveiðiárið 2014/2015.
    Gera má ráð fyrir að magn fyrir ráðstafanir samkvæmt lögunum lækki samkvæmt framansögðu á fiskveiðiárinu 2016/17.

12. Tekjur sem fást við sölu aflaheimilda.
    Gert er ráð fyrir að tekjur sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli tillögu þessarar renni í ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal/frettir/nr/8577
Neðanmálsgrein: 2
2     www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal/frettir/ny-skyrsla-rha-um-radstofun-afl amarks-og-ahrif-thess-a-byggdafestu