Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1359  —  618. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum
(framlenging gildistíma, hækkun á hlutfalli endurgreiðslu o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 26. maí.)


1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skal send nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sbr. 2. mgr. Umsókn um endurgreiðslu, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en framleiðsla hefst hér á landi.
    Ráðherra skipar nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og skulu ráðherra sem fer með kvikmyndir og ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál tilnefna sinn fulltrúa hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn.
    Nefnd skv. 2. mgr. fer yfir umsóknir um endurgreiðslur. Ef nefnd um endurgreiðslur telur umsókn uppfylla skilyrði fyrir endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar skal hún veita umsóknaraðila vilyrði fyrir endurgreiðslu, ella skal umsókn hafnað.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: að bókhald og uppgjör hvers verkefnis sé sérstaklega aðgreint frá öðrum verkefnum þannig að ávallt sé unnt að greina þann kostnað sem tilheyrir hverju verkefni fyrir sig.
     b.      Við j-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: leggja skal fram gögn um greidda staðgreiðslu eða um undanþágu frá skattskyldu hér á landi.
     c.      Í stað orðsins „ráðuneytinu“ í 2. mgr. kemur: nefnd um endurgreiðslur.


3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „20%“ í 1. mgr. kemur: 25%.
     b.      Í stað orðsins „ráðuneytinu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: nefnd um endurgreiðslur.
     c.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Nefnd um endurgreiðslur ákvarðar endurgreiðslu skv. 3. gr.
     d.      Í stað orðanna „skal hún leggja til við ráðherra að beiðni um endurgreiðslu verði hafnað“ í lokamálslið 2. mgr. kemur: skal hún hafna beiðni um endurgreiðslu.

4. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr., svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

Kæruleiðir.


    Ákvörðun nefndar um endurgreiðslur skv. 3. og 5. gr. er kæranleg til ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
    Ákvörðun nefndar skv. 5. gr. er varðar mat á því hvað teljist vera framleiðslukostnaður skv. 3. mgr. 2. gr., fjárhæð endurgreiðslu eða hvað teljist vera heildarframleiðslukostnaður er kæranleg til yfirskattanefndar.
    Kærufrestur skv. 1. og 2. mgr. er 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

5. gr.

     Síðari málsliður 7. gr. laganna orðast svo: Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir nefndar um endurgreiðslur til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, aðgreiningu bókhalds skv. c-lið 4. gr., umsóknir, afgreiðslu umsókna og um ákvörðun um endurgreiðslu.

6. gr.

    Við 8. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lögin falla úr gildi 31. desember 2021. Endurgreiðslubeiðnir sem samþykktar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.


8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2016.