Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1378  —  658. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum (eftirlit með störfum lögreglu).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Kristínu Pálsdóttur, Þórunni J. Hafstein og Diljá Catherine Þiðriksdóttur frá innanríkisráðuneyti, Thelmu Þórðardóttur og Pál Heiðar Halldórsson frá ríkislögreglustjóra, Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara og Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara. Þá átti nefndin símafund við Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá Lögreglustjórafélagi Íslands. Umsagnir bárust frá ríkissaksóknara, Lögreglustjórafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara.
    Tilgangur frumvarpsins er að koma á fót þriggja manna sjálfstæðri stjórnsýslunefnd sem hafi eftirlit með störfum lögreglu. Hlutverk hennar verði m.a. að taka á móti og halda utan um kvartanir og kærur sem berast vegna starfa lögreglu auk þess sem nefndin hafi frumkvæðisrétt að athugunum í ákveðnum tilfellum. Frumvarpið er að meginstefnu sprottið af tillögum nefndar um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu en sú nefnd var skipuð í kjölfar ábendinga frá umboðsmanni Alþingis og ríkissaksóknara um að úrbóta væri þörf.
    1. gr. frumvarpsins felur í sér að skyldu til að starfrækja innra eftirlit með störfum lögreglu verði bætt við upptalningu þeirra verkefna sem ríkislögreglustjóra eru falin í 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Alvarlegum athugasemdum við þessa grein var komið á framfæri við nefndina, einkum frá Lögreglustjórafélagi Íslands og héraðssaksóknara. Héraðssaksóknari benti á að samkvæmt útskýringum í athugasemdum við frumvarpið væri í raun átt við gæðaeftirlit en ekki innra eftirlit með störfum lögreglu. Lögreglustjórafélag Íslands lagðist alfarið gegn breytingunni. Um væri að ræða grundvallarbreytingu án þess að nauðsynleg umræða um hana hefði farið fram. Í þeirri umræðu þyrfti til að mynda að huga að því hvort slíkt eftirlit ætti frekar heima hjá sjálfstæðri nefnd eða stofnun utan lögreglu. Þá greindu fulltrúar ríkislögreglustjóra frá því að embættið hefði upphaflega lagt til við ráðuneytið að sá þáttur sem sneri að eftirliti ríkislögreglustjóra með lögreglu yrði unninn í sérstöku frumvarpi. Lendingin hafi þó orðið að bæta ákvæðinu við frumvarp þetta ásamt ákvæðum um eftirlitsnefndina. Vilji ríkislögreglustjóra hafi staðið til að fá lögfesta heimild til að hafa eftirlit með rafrænum kerfum lögreglunnar.
    Nefndin telur ljóst að huga þurfi að eflingu gæðaeftirlits með lögreglu en telur mikilvægt að staðið sé faglega að verki og að fram fari samráðsferli þar sem m.a. verði metið hvort heppilegra sé að eftirlitið sé staðsett innan eða utan embættis ríkislögreglustjóra. Nefndin leggur til að 1. gr. frumvarpsins falli brott að sinni og beinir því til ráðuneytisins að hefja undirbúning nýrrar tillögu um eflingu gæðaeftirlits lögreglu í samræmi við fyrrgreind sjónarmið. Við þá vinnu verði m.a. horft til ákvæða reglna nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga og reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.
    C-liður 2. gr. frumvarpsins fjallar um meðferð kæru á hendur starfsmönnum lögreglu. Í 1. mgr. er kveðið á um að héraðssaksóknari rannsaki kæru á hendur starfsmanni lögreglu, m.a. þegar maður lætur lífið, verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin í tengslum við nánar tilgreindar aðstæður. Í umsögn héraðssaksóknara er bent á að tæmandi talning tiltekinna dæma um störf lögreglu þrengi um of ramma lagaákvæðisins því að öll störf lögreglu ættu að vera undir. Nefndin fellst á athugasemdina og leggur til breytingu í þá veru. Sömu rök eiga við um c-lið 1. mgr. b-liðar 2. gr. frumvarpsins og leggur nefndin til sams konar breytingu þar.
    Í 3. mgr. c-liðar 2. gr. er héraðssaksóknara gefinn mánaðarfrestur til ákvörðunar um meðferð kæru eftir að hún er móttekin. Héraðssaksóknari bendir á að þessi frestur sé úr lausu lofti gripinn og þessi skammi tímarammi geti valdið því að embættið þurfi að taka slík mál fram fyrir önnur og jafnvel mikilvægari mál. Leggur héraðssaksóknari til að notað verði orðalagið „svo fljótt sem verða má“ í þessu samhengi. Nefndin fellst á sjónarmið héraðssaksóknara en telur þó mikilvægt að jafnframt sé tilgreindur nákvæmur tímafrestur. Leggur hún til að miðað verði við að ákvörðun verði tekin svo fljótt sem verða má hverju sinni en í allra síðasta lagi þremur mánuðum frá móttöku kæru.
    Almennt hafa umsagnaraðilar og þeir sem nefndin hefur fengið á fund til sín vegna málsins verið jákvæðir í garð þess. Það er mat nefndarinnar að um sé að ræða þarfa réttarbót sem auki réttaröryggi borgaranna. Skýrar reglur um rétt almennings til að bera fram kvartanir eða kærur vegna starfa lögreglunnar og skýrir og gagnsæir ferlar um meðferð slíkra mála stuðli einnig að auknu trausti á milli borgaranna og lögreglunnar sem sé öllum til góðs og grundvöllur þess að lögreglan geti sinnt þeim störfum sem henni eru falin.
    Að ofangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. falli brott.
     2.      Í stað orðanna „vegna aðgerða eða aðferða lögreglu, eða á meðan maður var í umsjón lögreglu“ í c-lið 1. mgr. b-liðar 2. gr. komi: í tengslum við störf lögreglu.
     3.      Við c-lið 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „í tengslum við aðgerðir lögreglu, vegna aðferða lögreglu, eða á meðan maður var í umsjón lögreglu“ í síðari málslið 1. mgr. komi: í tengslum við störf lögreglu.
                  b.      Fyrri málsliður 3. mgr. orðist svo: Héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari skulu taka ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða vísa kæru frá svo fljótt sem verða má, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku kæru.

    Vilhjálmur Árnason og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara. Hann telur að ganga megi lengra en gert er í frumvarpinu og vísar til tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu, sem lögð hefur verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi (12. mál).

Alþingi, 27. maí 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Haraldur Einarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.