Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1388  —  739. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni um byggingarkostnað Hörpu.


     1.      Hvaða ákvæði í fjárlögum eða fjáraukalögum var grundvöllur ákvörðunar um byggingu Hörpu og var það bundið við upphæð? Hvernig fer það saman við 41. gr. stjórnarskrárinnar?
    Verkefnissamningurinn var samningur um rekstrarverkefni í skilningi 30. gr. þágildandi laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Slíkir samningar ganga einnig undir heitinu þjónustusamningar eða verkefnissamningar. Greinin mælti fyrir um þau skilyrði sem uppfylla þyrfti til gerðar slíkra samninga. Í stuttu máli var hlutaðeigandi ráðherra heimilt samkvæmt lagagreininni að standa að gerð slíkra skuldbindandi samninga til lengri tíma en fjárlagaársins fengi hann til þess samþykki fjármála- og efnahagsráðherra enda væri áætlað fyrir verkefninu á fjárlögum.
    30. gr. þágildandi fjárreiðulaga veitti ráðherra heimild til slíkrar samningsgerðar um rekstrarverkefni að uppfylltum skilyrðum greinarinnar án annarra heimilda í lögum. Þetta má m.a. gagnálykta af 29. gr. sömu laga sem mælti fyrir um þau tilvik þar sem gert var ráð fyrir skyldu til að afla sérstakrar lagaheimildar til ákveðinna ráðstafana. Stór hluti þeirra skuldbindandi langtímasamninga sem ríkisaðilar gerðu á grundvelli 30. gr. við aðra ríkisaðila, sveitarfélög eða einkaaðila voru gerðir án annarra lagaheimilda en finna mátti í umræddri lagagrein. Ekki var af hálfu ráðuneytisins efast um skuldbindingargildi þessara samninga.
    Verkefnissamningurinn uppfyllti öll skilyrði 30. gr. fjárreiðulaga. Um margra ára skeið hafði jafnframt verið áætlað fyrir undirbúningskostnaði þessa tiltekna verkefnis á fjárlögum. Ávallt hafði verið litið svo á að það skilyrði væri uppfyllt þegar Alþingi hefði á annað borð samþykkt fjárheimildir vegna undirbúnings eða byrjunar tiltekins verkefnis á fjárlögum. Með fjárlagabeiðni vegna tiltekins verkefnis hafa ráðuneytin þar með upplýst Alþingi um fyrirhugaða samningsgerð á grundvelli lagaheimildarinnar og Alþingi því haft tækifæri til að fella slíka heimild niður eða óska frekari skýringa. Þrátt fyrir að áætlað hafi verið fyrir undirbúningskostnaði vegna verkefnisins um margra ára skeið var ekki áætlað fyrir hinu umsamda árlega framlagi til Hörpu á fjárlögum þegar lagaheimildin var samþykkt vegna þess að greiðsla framlagsins átti ekki að hefjast fyrr en að liðnum hönnunar- og byggingartíma hússins mörgum árum síðar.
    Þrátt fyrir að lagaheimild 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins hafi nægt til undirritunar upphaflegs samnings um byggingu og rekstur Hörpunnar taldi fjármálaráðherra á sínum tíma rétt að óska sérstakrar heimildar Alþingis til gerðar samningsins með hliðsjón af stærð og umfangi verkefnisins.
    Óskað var eftir þeirri heimild við gerð fjáraukalaga síðla árs 2005. Mál þetta hafði þá verið mikið til umræðu innan og utan Alþingis, hjá ráðherrum og ríkisstjórn og á opinberum vettvangi enda hafði verið unnið að undirbúningi verkefnisins af hálfu ríkis og borgar í mörg ár. Lagt hafði verið í miklar framkvæmdir við Austurhöfnina vegna verkefnisins, m.a. ákvörðun um kaup og niðurrif fasteigna á byggingarreitnum.
    Auk þeirra skýringa sem finna má í frumvarpinu sjálfu, m.a. varðandi tímalengd samningsins og heildarfjárskuldbindingu veitti ráðuneytið ítarlegar skýringar og svaraði fyrirspurnum á fundi fjárlaganefndar um málið á sínum tíma.
    Segja má að með samþykki hinnar sérstöku lagaheimildar, umfram hina almennu heimild 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, hafi verið gengið skrefinu lengra en lög mæltu fyrir um í því skyni að tryggja lagalega umgjörð fyrirhugaðs samnings.

     2.      Hver var áætlaður byggingarkostnaður sem lagður var til grundvallar samningnum um byggingu hússins sem var undirritaður 9. mars 2006, á verðlagi þess tíma og uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015? Hvaða tekjur voru þá áætlaðar fyrir árin 2012–2014 á verðlagi í mars 2006 og uppreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs í 2015?
    Í samkomulagi milli ríkis og Reykjavíkurborgar sem undirritað var í desember 2004 var miðað við að tónlistar- og ráðstefnuhluti Hörpu yrði um 17.000 m 2 að stærð. Stofnkostnaður var áætlaður 9,6 milljarðar kr. á verðlagi í mars 2006 eða 18,2 milljarðar kr. uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015.
    Strax í upphafi lá fyrir að verkefnið yrði boðið út sem einkaframkvæmd. Í því fólst að ábyrgð á rekstri og byggingu hússins samkvæmt samningskaupalýsingu átti að liggja hjá bjóðanda verksins en ekki hjá ríki eða borg. Ríki og borg mundu hins vegar bjóða tiltekið fast framlag sem byggðist á því að rekstraraðilinn þyrfti sjálfur að skapa sér tekjur með ýmissi starfsemi í húsinu, menningarviðburðum, tónleikum, fundarhöldum, veitingarekstri, verslunarrekstri og leigugreiðslum. Í samkomulagi ríkis og borgar var því slegið föstu að stuðningur ríkis og borgar byggðist á stofnkostnaðaráætlun, mati á fjármagnskostnaði og mati samningsaðila á rekstrarkostnaði umfram aðrar tekjur þess. Ákveðið var að árlegt framlag ríkis og borgar næmi 595 millj. kr. sem skiptist í hlutföllunum ríki 54% og Reykjavíkurborg 46%. Uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs til mars 2015 nemur þessi fjárhæð rétt tæplega einum milljarði kr.
    Þar sem verkefnið grundvallaðist á því að það væri að fullu og öllu í eigu einkaaðila gerðu ríki og borg ekki athugasemdir við þá fyrirætlan einkaframkvæmdaraðilans að stækka húsið umtalsvert til þess að ná fram auknum tekjum með stækkun þjónusturýma, enda yrði framlag ríkis og borgar eftir sem áður það sama. Þáverandi viðsemjandi ríkisins, Portus hf., ákvað að stækka húsið um 10–12.000 m 2 umfram það sem ríki og borg gerðu kröfu um í útboði en honum var það heimilt sem eiganda byggingarinnar.
    Í rekstraráætlun Austurhafnar sem gerð var fyrir útboð verkefnisins var gert ráð fyrir 1.293 millj. kr. tekjum á ári, á verðlagi í mars 2006, að teknu tilliti til framlags ríkis og borgar og föstum greiðslum vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sú fjárhæð jafngildir 2.173 millj. kr. á verðlagi í mars 2015.

     3.      Hver var áætlaður byggingarkostnaður sem lagður var til grundvallar samningi um að halda áfram framkvæmdum sem var undirritaður 19. febrúar 2009? Hve mikið af kröfum var afskrifað á verðlagi í febrúar 2009 og uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015? Hvaða tekjur voru þá áætlaðar fyrir árin 2012–2014, á verðlagi í febrúar 2009 og uppreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs í mars 2015?
    Þegar verið var að undirbúa yfirtöku hússins í mars 2009 var gert ráð fyrir því að kostnaður við að ljúka framkvæmdum yrði um 14,5 milljarðar kr. með vöxtum á byggingartíma eða rétt tæplega 20 milljarðar kr. miðað við verðlag í mars 2015. Það var sá kostnaður sem ríki og borg horfðu til við yfirtöku verkefnisins en ekki það sem þegar hafði verið lagt í verkefnið af hálfu einkaaðilans. Það var afstaða ríkis og borgar að hugsanleg yfirtaka þessara aðila á verkefninu yrði að rúmast innan þess framlags sem þegar hafði verið ákveðið að leggja til þess. Ríki og borg gætu hvorki borið ábyrgð á né tekið á herðar sínar fjárskuldbindingar sem umræddur einkaaðili hefði lagt í verkefnið með því að stækka húsið umfram þau viðmið sem lögð voru til grundvallar útboðinu. Ríki og borg gengu því til viðræðna við kröfuhafa hins ógjaldfæra félags á þeim forsendum að ef til yfirtöku verkefnisins kæmi yrði það mánaðarlega framlag sem þegar hefði verið ákveðið að nægja til að fullklára húsið, gera það rekstrarhæft auk þess að standa undir lántökum og fjármagnskostnaði vegna þess. Áfallnar skuldbindingar umfram það sem framlagið dygði til mundi ríki og borg ekki taka yfir. Þær skuldbindingar voru á ábyrgð þess greiðsluþrota félags sem staðið hafði að verkefninu, eigenda þess og fjármögnunaraðila. Hvorki ríki né borg voru beinir aðilar að því kröfuréttarsambandi sem fyrir hendi var milli einkaaðilans og fjármögnunaraðila hans en gera má ráð fyrir að hinir síðarnefndu hafi afskrifað stærsta hlutann af um 8 milljarða kr. kostnaði félagsins á þeim tíma eða u.þ.b. 10 milljarða kr. miðað við verðlag í mars 2015.
    Í rekstraráætlun Austurhafnar – TR ehf. sem gerð var í tengslum við yfirtöku á verkefninu var gert ráð fyrir um 1.566 millj. kr. tekjum á ári að teknu tilliti til framlags ríkis og borgar og föstum greiðslum vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sú fjárhæð jafngildir 1.962 millj. kr. á verðlagi í mars 2015.

     4.      Hver er endanlegur byggingarkostnaður Hörpu að meðtöldum niðurfelldum kröfum á verðlagi hvers tíma og uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015?
    Eins og fram kemur í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar var við yfirtöku verkefnisins í mars 2009 gert ráð fyrir að kostnaður við að ljúka framkvæmdum yrði um 14,5 milljarðar kr. með vöxtum á byggingartíma eða rétt tæplega 20 milljarðar kr. miðað við verðlag í mars 2015. Heildarkostnaðurinn varð um 875 millj. kr. hærri, uppreiknað með vísitölu byggingarkostnaðar í maí 2015, sem skýrðist að mestu af óhagstæðara gengi en gert var ráð fyrir í áætluninni og endanlegri niðurstöðu í ágreiningsmálum við verktaka.
    Á árinu 2013 og 2014 var ákveðið að innrétta ófrágengin rými á Björtuloftum og Háalofti þannig að hægt væri að auka útleigurými hússins. Kostnaður vegna þessa nam um 134 millj. kr. á verðlagi þess tíma eða um 139 millj. kr. miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í maí 2015.
    Á árinu 2015 var ákveðið að innrétta ófrágengin rými á austurhlið hússins til að auka leigutekjur hússins. Kostnaður vegna þessa nam um 157 millj. kr. á verðlagi þess árs.
    Heildarkostnaður miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015 var því um 20,9 milljarðar kr. Eins og einnig kemur fram í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar má gera ráð fyrir að fjármögnunaraðilar hafi auk þess afskrifað u.þ.b. 8 milljarða kr. af byggingarkostnaði félagsins eða um 10 milljarða kr. á verðlagi í mars 2015.