Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1389  —  712. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um áhrif verkefnisins höfuðstólslækkun fasteignalána á starfsemi ríkisskattstjóra.

    
     1.      Hversu margir starfsmenn ríkisskattstjóra störfuðu að verkefninu höfuðstólslækkun fasteignalána á meðan á því stóð og hver var heildarvinnustundafjöldi starfsliðs ríkisskattstjóra við verkefnið?
    Heildarfjöldi starfsmanna sem komu að framkvæmd höfuðstólslækkunar verðtryggðra íbúðalána („leiðréttingunni“) með einum eða öðrum hætti var alls 90. Af þeim voru 19 í fullu starfi þegar mest var, auk aðstoðar frá þjónustuveri og fleiri einingum, en lengst af störfuðu 16–17 við framkvæmdina í fullu starfi. Auk þeirra komu ýmsir aðrir að verkefninu en þó eingöngu sem hluti af aðalstarfi, svo sem nánar er vikið að í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Langflestir starfsmanna ríkisskattstjóra sem störfuðu við leiðréttinguna, en ekki einvörðungu, unnu við afmörkuð eða afleidd verkefni, svo sem breytingar á framtölum sem komu til vegna óska umsækjenda um leiðréttingu.
    Vinnustundir hjá ríkisskattstjóra eru ekki skráðar sundurliðaðar eftir verkefnum með sama hætti og hjá aðilum sem selja sína vinnu, þ.e. við hvað starfsmenn vinna á degi hverjum, en vinnustundir eru skráðar í stimpilklukkum og þar með einnig yfirvinnustundir. Heildarfjöldi yfirvinnustunda vegna leiðréttingarinnar á árinu 2014 voru 5.368 og á árinu 2015 voru þær 3.427.

     2.      Úr hvaða deildum ríkisskattstjóraembættisins komu starfsmennirnir sem unnu að fyrrgreindu verkefni, hversu margir komu úr hverri deild embættisins og hversu margir voru verkefnaráðnir?
    Þegar álag var sem mest var leitað til starfsmanna sem alla jafna unnu við önnur störf en leiðréttinguna. Heildarfjöldi þeirra starfsmanna sem kom að störfum við leiðréttinguna var 90 en flestir þeirra komu að verkefninu í takmarkaðan tíma. Skipting þeirra var sem hér segir:

Ráðið til leiðréttingar 17
Einstaklingssvið 31
Eftirlitssvið 19
Lögfræðisvið 5
Atvinnurekstrarsvið 4
Tæknisvið 4
Fagsvið 3
Aðalskrifstofa 4
Alþjóðamál 1
Fjármálasvið 1
Skipulagssvið 1
90
    Auk tímabundið ráðinna starfsmanna var leitað til annarra starfsmanna RSK um liðsinni þegar miklar annir sköpuðust til að viðskiptavinir ríkisskattstjóra fengju afgreiðslu fyrr en ella. Starfsmenn á tæknisviði, fagsviði og aðalskrifstofu unnu þó meira en aðrar einingar á ákveðnum tímum, tæknimenn í upphafi og aðalskrifstofa við stjórnun og skipulagningu. Fjöldi starfsmanna af hverju sviði fyrir sig er þannig ekki lýsandi um heildarfjölda vinnustunda. Starfsmenn á eftirlitssviði unnu mjög afmarkaðan tíma, einkum haustið 2014 og þá að mestu utan reglulegs vinnutíma að málum tengdum leiðréttingu. Tilgangur þess var að tryggja að almennt skatteftirlit liði ekki fyrir störf við framkvæmd leiðréttingarinnar.

     3.      Hvaða áhrif hafði það á starfsemi ríkisskattstjóra í heild og á einstakar deildir að leggja til mannafla til verkefnisins?
    Þegar í upphafi verkefnsins, í byrjun apríl 2014, blasti við að gera þyrfti tímabundnar breytingar á innra skipulagi embættisins til að takast á við þetta nýja verkefni og að því leyti hafði það umtalsverð áhrif á embættið. Stofnuð var sérstök skipulagseining, höfuðstólsleiðrétting, og ákveðið var að starfsmaður með víðtæka reynslu mundi gegna þar stöðu sviðsstjóra og hafa á hendi verkstjórn og samhæfingu þeirra starfsmanna sem að verkefninu kæmu með einum eða öðrum hætti. Starfsmenn ríkisskattstjóra auk fulltrúa verkefnisstjórnar um framkvæmd leiðréttingarinnar komu að öllum undirbúningnum, lagalegum atriðum, tæknilegum og stjórnsýslulegum og kynningum og síðar rekstri verkefnisins. Einn veigamesti þáttur undirbúningsins var hönnun og framleiðsla vefsvæðis og fyrirkomulag á móttöku umsókna, afgreiðslu þeirra, birtingu niðurstaðna og loks ráðstöfun til fjármálafyrirtækja.
    Ríkisskattstjóri skipaði stýrihóp yfir verkefninu sem í sátu, auk hans, vararíkisskattstjóri, sviðsstjórar tæknisviðs, fagsviðs, þróunarsviðs og höfuðstólsleiðréttingarinnar auk verkefnisstjóra af skrifstofu yfirstjórnar. Þessir sjö einstaklingar áttu alls 102 fundi frá upphafi verkefnisins þar til því lauk á haustmánuðum 2015. Nauðsynlegt reyndist að ráða tímabundið inn hóp nýrra starfsmanna sem sinnt gæti almennri þjónustu og leiðbeiningum við umsækjendur og úrvinnslu umsókna án þess að setja önnur verkefni til hliðar. Daginn eftir að ráðherra lagði fram frumvörp þau sem fólu ríkisskattstjóra umsjón með fyrirhuguðum ráðstöfunum auglýsti embættið laus til umsóknar störf sérfræðinga við svið höfuðstólsleiðréttingar. Umsóknir bárust frá 373 manns og af þeim voru 13 ráðnir tímabundið til verkefnisins en einnig voru sex aðrir starfsmenn RSK fluttir tímabundið í þessi störf og aðrir ráðnir í þeirra stað. Fjórir tæknimenn RSK voru einnig virkjaðir í þetta verkefni, auk nokkurra annarra sem komu að verkefninu sem afleidd störf, svo sem starfsmannastjóri og önnur innri þjónusta. Starfsaðstöðu var komið upp í tveimur fundarsölum.
    Áhrifin á störf ríkisskattstjóra voru einnig af öðrum toga. Allir starfsmenn embættisins hittust sameiginlega til að ræða áformaðar breytingar og fyrirkomulag þeirra. Niðurstaða fundarins var að þetta verkefni sem starfsmönnum embættisins hafði verið trúað fyrir yrði eins vel úr garði gert og tök væru á en að samtímis yrði þess gætt að röskun yrði ekki á almennu starfi. Þannig myndaðist samheldni meðal starfsmanna um að taka þessari áskorun og hafði það í för með sér mikinn hvata til kraftmikils vinnuanda. Tæknimenn og þróunarsvið RSK sáu í þessu verkefni mikið tækifæri með því að hafa alla stjórnsýslu þess rafræna. Umsóknarleiðir, birtingartími og samþykktarferlið var allt hannað og framleitt til að vera rafrænt að fullu. Í reynd var slíkt ákveðið tilraunaverkefni fyrir íslensk stjórnvöld sem stóðst prófið.
    Áhrif leiðréttingarinnar á störf ríkisskattstjóra höfðu meiri jákvæð áhrif en fyrir fram var talið að yrðu. Áskoranirnar voru gríðarlega krefjandi en sú staðreynd að það tókst að koma þessu viðamikla verkefni í höfn hafði mjög góð áhrif á starfsmenn og einnig á framtíðarlausnir rafrænnar stjórnsýslu. Lausnir af þeim toga sem notaðar voru í leiðréttingunni munu verða meira áberandi á komandi árum en með auknum kröfum um að þær lausnir sem notaðar eru spari tíma og fjármuni er jafnframt ætlast til að fyllsta öryggis sé gætt. Leiðréttingin var í heild mikið lærdómsferli fyrir ríkisskattstjóra eins og alla aðra sem komu að verkefninu, verkefnisstjórnina, fjármálafyrirtæki og hlutaðeigandi ráðuneyti.

     4.      Hversu margir starfsmenn ríkisskattstjóra störfuðu að skattaeftirliti áður en verkefni um höfuðstólslækkun fasteignalána hófst hjá embættinu, hve margir störfuðu að skattaeftirliti meðan á verkefninu stóð og hve margir sinna slíkum störfum nú?
    Starfsmenn í skattaeftirliti voru 31 1. janúar 2014. 1. janúar 2015 voru þeir 30. 1. júní 2016 verða ráðnir starfsmenn orðnir 37 (þrír koma til starfa í júní 2016). Starfsmönnum í skattaeftirliti fækkaði ekki milli þeirra punktstaða sem gefnir eru, ef frá eru talin starfslok vegna heilsubrests. Í heildina hefur starfsmönnum fjölgað og gert er ráð fyrir að í október 2016 verði starfsmenn í skattaeftirliti orðnir 38. Ráðningum er lokið en hlutaðeigandi þurfa að ljúka vinnusambandi á fyrri vinnustað. Ríkisskattstjóri telur að framkvæmd höfuðstólslækkunarinnar hafi ekki haft áhrif á framkvæmd skattaeftirlits.

     5.      Hvernig þróaðist fjöldi útsendra erinda frá ríkisskattstjóra vegna skattaeftirlits frá janúar 2013 til janúar 2016, skipt eftir mánuðum?
    Skatterindi sem berast ríkisskattstjóra eru ekki afgreidd af eftirlitssviði nema í sérstökum undantekningartilvikum. Afgreiðsla þeirra fer fram á einstaklingssviði og atvinnurekstrarsviði eftir því hvort hlutaðeigandi framteljandi er talinn til atvinnurekstraraðila eða ekki.
    Eftirlitsmál sem stofnuð voru á árunum 2013–2015 eru eðli máls samkvæmt mjög breytileg. Á stundum eru það lítil mál sem taka skamman tíma og svo á hinn bóginn stór mál sem taka langan tíma. Fjöldi mála er, einn og sér, hvorki mælikvarði á árangur skattaeftirlits né gæði þess. Árangur eftirlitsins er metinn eftir ýmsum forsendum. Ein af þeim er málafjöldi en í því samhengi er mjög vafasamt að greina málafjölda eftir mánuðum, þótt svo sé gert síðar í svari þessu í samræmi við ósk fyrirspyrjanda.
    Vinna starfsmanna eftirlitssviðs við leiðréttinguna fólst í því að leiðrétta skattframtöl þeirra sem sóttu um leiðréttingu og var hún að mestu leyti unnin í yfirvinnu að reglubundnum vinnudegi loknum. Aðallega var vinna eftirlitsins fólgin í því að breyta framtölum þar sem vaxtagjöld höfðu ranglega verið færð í kafla 5.5. í framtali. Vinna starfsmanna á eftirlitssviði var því í framtölum en ekki að afgreiða umsóknir um leiðréttingu höfuðstólslána. Yfirvinna starfsmanna á eftirlitssviði var á árinu 2014 alls 335 klst. eða 6,2% af heildaryfirvinnu vegna leiðréttingar og á árinu 2015 alls 33 klst. eða 0,96% af heildaryfirvinnu vegna leiðréttingarinnar.
2013 Fjöldi nýrra mála
Janúar 122
Febrúar 120
Mars 119
Apríl 98
Maí 139
Júní 148
Júlí 121
Ágúst 151
September 143
Október 131
Nóvember 133
Desember 87
Samtals 1.512

2014 Fjöldi nýrra mála
Janúar 137
Febrúar 94
Mars 109
Apríl 101
Maí 112
Júní 144
Júlí 59
Ágúst 107
September 110
Október 179
Nóvember 119
Desember 189
Samtals 1.460

2015 Fjöldi nýrra mála
Janúar 375
Febrúar 327
Mars 281
Apríl 415
Maí 78
Júní 577
Júlí 170
Ágúst 146
September 114
Október 417
Nóvember 109
Desember 885
Samtals 3.894