Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1429  —  23. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um að efla samstarf Íslands og Grænlands.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf S. Ástþórsson frá Hafrannsóknastofnun, Bryndísi G. Róbertsdóttur og Hönnu Björgu Konráðsdóttur frá Orkustofnun, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Margréti Cela og Piu Hansson frá Háskóla Íslands og Rannsóknasetri um norðurslóðir, Bjargeyju Önnu Guðbrandsdóttur frá norðurslóðaátaki Háskóla Íslands, Árna Gunnarsson frá Icelandair Group, Kristján Þórarinsson og Steinar Inga Matthíasson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Unni Orradóttur Ramette, sendiherra, Bergþór Magnússon, Tómas Orra Ragnarsson, sendiráðunaut, og Ragnheiði Harðardóttur frá utanríkisráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson og Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Unu Strand Viðarsdóttur og Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Icelandair Group, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknasetri um norðurslóðir og norðurslóðaátaki Háskóla Íslands, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, utanríkisráðuneyti og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.

Fyrirliggjandi tillaga.
    Með tillögunni er lagt til að stuðningi verði lýst yfir við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og að ríkisstjórninni verði falið að efla tengsl og samvinnu við Grænland á fimmtán sviðum sem nánar er gerð grein fyrir í tillögunni og varða afnám tolla og aukið frelsi í viðskiptum, aukið samstarf og sameiginleg verkefni skóla á öllum skólastigum, eflingu rannsóknasamstarfs, m.a. á sviðum jökla, hafs, veðurfars, fiskistofna og umhverfis, samstarf á sviði sjávarútvegs og jarðfræði, þróun viðskipta og gerð samkomulags milli samtaka atvinnulífs landanna, samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu og gerð rammasamnings um stóreflt samstarf á þeim sviðum, eflingu samstarfs um ferðaþjónustu og möguleika á að gera Grænland að áfangastað ferðamanna sem koma til Íslands, samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi, þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu, sameiginlega framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum, eflingu samvinnu gegn loftlagsvá, aukning vöruflutninga um Norður-Íshafið, eflingu starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl vestnorrænu landanna þriggja, eflingu samstarfs milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins og stefnumótun um málefni frumbyggja á heimskautasvæðum.
    Umsagnaraðilar voru allir jákvæðir gagnvart tillögunni þótt komið hafi fram sjónarmið þess efnis að bæta mætti við hana fleiri atriðum til að efla tengsl og samvinnu við Grænland.

Samstarf á sviði málma og jarðefna.
    Nefndinni var m.a. bent á að mikil þekking um málma og málmleit væri til staðar á Grænlandi og á síðustu árum hafi grænlensk yfirvöld byggt upp metnaðarfulla stjórnsýslu á sviði málma og annarra hagnýtra jarðefna. Þannig gæti verið fengur fyrir íslensk stjórnvöld að komið yrði á samstarfi við grænlensk stjórnvöld á sviði jarðefna, svo sem varðandi löggjöf, skattlagningu, leyfisveitingar og umhverfis- og öryggismál. Tekur nefndin undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á tillögunni því til samræmis.

Rannsóknir á sviði náttúruverndar.
    Ljóst er að breytingar á norðurslóðum í kjölfar hlýnunar munu skapa bæði ógnir og ný tækifæri fyrir þjóðirnar en jafnframt að þjóðirnar eiga margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta því tengdu, bæði varðandi vernd umhverfis og náttúru sem og nýtingu auðlinda. Í tillögunni er náttúruverndar ekki sérstaklega getið og leggur nefndin til breytingu á því. Í fyrsta lagi telur nefndin eðlilegt að við eflingu samvinnu gegn loftslagsvá og samstarfs á sviði umhverfisverndar, sbr. l-lið, verði náttúruverndar sérstaklega getið. Í öðru lagi er lagt til að þegar horft er til þess að efla rannsóknasamstarf milli landanna verði m.a. litið til rannsókna á sviði náttúruverndar. Slíkt getur stutt við rannsóknastarf í báðum löndum. Nefndin telur einnig brýnt að súrnun sjávar verði rannsökuð nánar sem og áhrif hennar og leggur til þá viðbót við upptalningu á þeim sviðum sem rannsóknasamstarf á að taka til.

Skólamál.
Samstarf háskóla.
    Nefndinni var kynnt að samstarf háskólanna á Íslandi og háskólans á Grænlandi hefði aukist mikið undanfarin ár og vonir stæðu til að það styrktist enn frekar. Þannig hefðu íslenskir lektorar og kennarar farið og kennt á Grænlandi auk þess sem nemendur og kennarar frá Grænlandi hefðu möguleika á að sækja nám hingað. Nefndin telur að um jákvæða þróun sé að ræða, fagnar auknu samstarfi milli landanna og telur brýnt að ýta enn frekar undir þessa þróun og tengsl. Þá bendir nefndin á að í ljósi þeirra fræðistarfa sem farið hafa fram innan háskólanna á ýmsum sviðum sem tengjast tillögunni mætti leita til háskóla landanna við vinnu að einstökum liðum hennar. Úttektir, greiningar og rannsóknir sem nýta þarf til útfærslu einstakra liða væri eðlilegt að vinna í samstarfi við Grænland og auka þannig enn frekar samstarf og samvinnu háskóla landanna svo og þekkingu fræðimanna.

Grænlandssjóður.
    Í b-lið tillögunnar er lagt til að sameiginleg verkefni á öllum skólastigum verði studd af Grænlandssjóði og ríkisstjórninni falið að efla hann með viðeigandi hætti. Lög um Grænlandssjóð, nr. 12/1980, kveða á um að Seðlabanki Íslands skuli annast fjárreiður Grænlandssjóðs og ávaxta fé hans og að til styrkveitinga skuli verja allt að 9/ 10 hlutum vaxtatekna sjóðsins. Fyrir nefndinni kom fram að ávöxtun sjóðsins hefði verið mjög lítil og að í þrjú ár hafi ekki reynst unnt að veita styrki úr honum. Nefndinni voru þó jafnframt kynnt drög að frumvarpi til nýrra laga um sjóðinn sem eru í umsagnarferli í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Verði það frumvarp óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að hægt verði að úthluta allt að 1,5 millj. kr. á ári í styrki á sviði menningar, menntunar og vísinda. Þó svo að ekki sé unnt að fá styrk úr sjóðnum eins og er leggur nefndin ekki til breytingu á tillögugreininni enda má leiða líkur að því að ný lög um sjóðinn taki gildi fyrr en síðar og þá er mikilvægt að hans sé getið í tillögunni. Nefndin brýnir einnig fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti að frumvarp til laga um Grænlandssjóð komi til umfjöllunar á Alþingi sem fyrst eftir að umsagnarferli ráðuneytisins er lokið svo að unnt verði að breyta lögum og nýta sjóðinn til þeirra verka sem hann var ætlaður.

Viðskipti og atvinnulíf.
    Nokkrir liðir tillögunnar varða viðskipti og atvinnulíf. Þannig er í a-lið kveðið á um að unnið verði að gerð samkomulags sem tryggi tollfrelsi og unnið að því að ryðja hindrunum úr vegi greiðra viðskipta og þátttöku í atvinnulífi. Í e-lið er kveðið á um að boðið verði til samstarfs á sviði sjávarútvegs og með f-lið er ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir samkomulagi milli samtaka atvinnulífs landanna um tímabundið starfsnám hjá fyrirtækjum sem hafa hlutverki að gegna í þróun viðskipta milli þjóðanna. Þá er í j-lið vísað til þess að samkomulag verði undirbúið um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu.

Tollamál.
    Fyrir nefndinni kom fram að viðræður um fríverslunarsamning við Grænland stæðu yfir en gengju hægt. Nefndinni var þó einnig kynnt að unnið væri að ákveðnum breytingum á reglum um umflutning kjöts þannig að hægt yrði að flytja með sér kjöt frá Grænlandi og áfram til næsta áfangastaðar þó svo að flogið væri til Reykjavíkur og frá Keflavík. Með ályktun Alþingis nr. 20/145, um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, er skorað á ríkisstjórnina að greina sameiginlegan ávinning að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði þar sem m.a. skuli skoða kosti og galla fríverslunarsamnings milli landanna eða tvíhliða samninga milli Grænlands og Íslands annars vegar og Grænlands og Færeyja hins vegar. Telur nefndin að slík greining gæti nýst vel í þá vinnu sem kveðið er á um í a-lið tillögunnar.

Sjávarútvegsmál.
    Ísland og Grænland eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í sjávarútvegsmálum. Mikið er um sameiginlega fiskistofna og rannsóknir eru mun lengra á veg komnar á Íslandi en á Grænlandi. Samlegðaráhrif af rannsóknum eru því mikil og dýrmæt fyrir báðar þjóðir. Fyrir nefndinni kom fram að nú þegar er í gildi samningur Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar Grænlands um aukið samstarf og samvinnu sem þegar hefur leitt til sameiginlegra verkefna, m.a. rannsókn á útbreiðslu makríls.

Norðurslóðamál.
    Þegar hefur verið vísað til þess að tillögunni er ætlað að koma á öflugu rannsóknasamstarfi og á það að taka til ýmissa fræðasviða sem tengjast norðurslóðum. Með k-lið tillögunnar er ríkisstjórninni falið að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum og úttekt á ávinningi Grænlands og Íslands af miðleiðinni um norðurskautið og í l-lið er kveðið á um að efla samvinnu gegn loftslagsvá og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar samhliða auknum umsvifum á hafinu milli Íslands og Grænlands. Líkt og fram kemur í greinargerð tillögunnar munu breytingar á norðurslóðum í kjölfar hlýnunar skapa bæði ógnir og ný tækifæri fyrir báðar þjóðirnar. Mikilvægt er að standa vörð um sameiginlega hagsmuni landanna og auka samvinnu á þessum sviðum. Nefndin bendir einnig á að nýlega samþykkti Alþingi ályktun um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Áríðandi er að fylgja umsókninni eftir og að þjóðkjörnir fulltrúar íbúa norðurslóða fái áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu enda gæfi það þeim tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum íbúanna og gæta réttinda þeirra og hagsmuna.

Samstarf og tengsl Íslands og Grænlands.
Vestnorrænt samstarf.
    Í m-lið er lagt til að efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins. Á yfirstandandi þingi hefur nefndin fjallað um og lagt til að samþykktar verði fjórar tillögur til þingsályktana er varða bætt eða eflt samstarf og stefnumörkun fyrir vestnorrænu löndin þrjú. Þær hefur Alþingi allar samþykkt en nefndin telur þó að enn betur megi gera og fagnar frekari eflingu Vestnorræna ráðsins og vinnu við að styrkja það. Nefndin bendir einnig á að einhver skörun er á efni þeirra ályktana og fyrirliggjandi tillögu, t.d. milli a-liðar tillögunnar og ályktunar Alþingis nr. 20/145, um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, sem vísað er til hér að framan. Að sama skapi má greina sameiginlega þætti milli ályktunar Alþingis nr. 21/145, um langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum, og k- og l-liðar tillögunnar, sem og milli ályktunar Alþingis nr. 22/145, um samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál, og e-liðar tillögunnar. Telur nefndin að samnýta mætti þekkingu og úttektir sem fjallað er um í framangreindum ályktunum við vinnu að verkefnum fyrirliggjandi tillögu.

Nuuk-yfirlýsingin.
    Fyrir nefndinni kom einnig fram að samband Íslands og Grænlands hefur verið styrkt mikið undanfarin ár í kjölfar þess að Ísland opnaði aðalræðisskrifstofu í Nuuk í nóvember 2013. Við opnun skrifstofunnar var gerð viljayfirlýsing um aukið samstarf landanna tveggja, svokölluð Nuuk-yfirlýsing, og komið var á fót sameiginlegum vettvangi til að ræða samstarf landanna á ýmsum sviðum. Í yfirlýsingunni er m.a. kveðið á um aukið samstarf landanna á sviðum viðskipta, sjávarútvegs, dýraheilbrigðismála, heilbrigðismála, sjóflutninga, orkumála og menntamála. Ljóst er því að hin síðustu ár hefur verið unnið að því að styrkja og efla samstarf og samvinnu Íslands og Grænlands og telur nefndin samþykkt fyrirliggjandi tillögu eðlilegt næsta skref í því ferli. Mikilvægt er að stefna og vilji stjórnvalda og Alþingis sé skýr og samræmd hvað þetta varðar. Þá mun samþykkt tillögunnar veita viljayfirlýsingunni frá 2013 aukið vægi, styrkja og styðja við það starf sem þegar hefur verið unnið og bæta við fleiri sviðum og verkefnum til að þróa og styrkja enn frekar tengsl landanna tveggja.
    Mikilvægt er þó að hafa í huga að ekki liggur fyrir að Grænland hafi áhuga á samstarfi á öllum þeim sviðum sem tillagan tekur til. Áherslur Grænlendinga geta verið aðrar og hugsanlegt er að forgangsraða þurfi málum í samráði við Grænlendinga þannig að ekki verði unnt að fara strax í öll þau verkefni sem kveðið er á um. Orðalag tillögugreinarinnar er nokkuð afgerandi og mikilvægt að ríkisstjórninni sé ekki falið að fara í aðgerðir sem ómögulegt getur reynst að framkvæma. Leggur nefndin því til orðalagsbreytingu í þá veru að ríkisstjórninni verði falið að leita leiða til að ráðist verði í þau verkefni sem tillagan kveður á um.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


1.      Í stað orðanna „að efla tengsl og samvinnu við Grænland með því að“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: að leita leiða til að efla tengsl og samvinnu við Grænland með áherslu á eftirfarandi.
2.      Á eftir orðinu „umhverfis“ í d-lið komi: náttúruverndar, súrnunar sjávar.
3.      Á eftir e-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: koma á samstarfi milli grænlensku jarðfræðistofnunarinnar og Orkustofnunar með þátttöku fræðasamfélagsins á sviði málma og annarra hagnýtra jarðefna, með áherslu á stjórnsýslu, rannsóknir og samstarf á alþjóðavettvangi.
4.      Á eftir orðinu „umhverfisverndar“ í l-lið komi: og náttúruverndar.

    Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Óttarr Proppé,
frsm.
Karl Garðarsson.
Vilhjálmur Bjarnason. Frosti Sigurjónsson. Elín Hirst.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Össur Skarphéðinsson.