Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1434  —  114. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Persónuvernd, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Samhljóða tillaga var flutt á 144. löggjafarþingi (355. mál) og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni fyrri umræðu. Nefndin sendi málið út til umsagnar og bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Háskólanum í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð tillögunnar.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að aflað verði haldbærra gagna um forsendur þjóðhagsáætlana til langs tíma fyrir íslenskt samfélag og unnið verði að gerð slíkra áætlana og þeim beitt við stefnumótun í samfélagsmálum. Nefndin tekur undir að vandaðar langtímaáætlanir geti haft mikilvæga þýðingu fyrir hagstjórn og aðra ákvarðanatöku. Gerð og beiting langtímaáætlana um þjóðarhag felur í sér viðleitni til að vinna gegn skammtímahugsun, hvatvísi og ábyrgðarleysi í stjórnmálum samtímans.
    Nefndin bendir einnig á að langtímaáætlun á borð við þá sem hér er lagt til að verði gerð nýtist jafnt stjórnmála- og embættismönnum sem stjórnendum fyrirtækja í einkarekstri, fræðimönnum af ýmsu tagi, fjölmiðlafólki og öllum almenningi. Það er því mat nefndarinnar að slík áætlanagerð sé til þess fallin að styrkja og efla lýðræðislega ákvarðanatöku á mörgum mikilvægum sviðum.
    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 2. júní 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Willum Þór Þórsson. Steingrímur J. Sigfússon.
Valgerður Bjarnadóttir. Guðmundur Steingrímsson. Sigríður Á. Andersen,
með fyrirvara.
Brynjar Níelsson,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Bjarnason,
með fyrirvara.