Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1442  —  326. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um áhættumat vegna ferðamennsku.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og borist umsagnir frá Ferðamálastofu, Höfuðborgarstofu, Isavia ohf., Íslandsstofu, Landgræðslu ríkisins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Veðurstofu Íslands.
    Í tillögunni er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að undirbúa áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku. Kveðið er á um að ríkislögreglustjóri geri áhættumatið eftir atvikum í samráði við t.d. Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Umhverfisstofnun. Þá verði metið hvort setja þurfi sérstakar reglur um ferðir á svæðum sem falla í efsta áhættuflokk.
    Tillaga sama efnis var lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Markmið tillögunnar er að fækka slysum og óhöppum ferðamanna í óbyggðum og utan alfaraleiða. Brýnt er að efla öryggi ferðamanna hér á landi ekki síst þar sem þeim hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum.
    Nefndin bendir á að í áhættumatinu verði m.a. skoðuð viðbrögð við hópslysum en vandasamt getur verið að bregðast við slíkum slysum hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, frsm. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.