Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1516  —  577. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um ferðamannastaði á landsvæðum í eigu ríkisins.


    Svör ráðuneytisins við fyrirspurninni taka mið af þeim verkefnum sem því eru falin og stofnanir þess sinna. Svörin taka því aðeins til þeirra skilta sem standa við þjóðvegi og ferðamannastaða við þjóðvegi og/eða áningarstaða sem eru í umsjón Vegagerðarinnar. Um aðra ferðamannastaði, hverjir hafi umsjón með þeim og sinni þjónustu við þá, er vísað til umhverfisráðuneytis.

     1.      Hversu margir ferðamannastaðir á landsvæðum í eigu ríkisins eru merktir með eftirfarandi umferðarmerkjum:
                  a.      athyglisverður staður (E02.61),
                  b.      gönguleið (E02.62),
                  c.      áningarstaður (E02.63),
                  d.      útsýni (E02.64),
                  e.      útsýni með hringsjá (E02.65),
                  f.      fuglaskoðun (E02.66),
                  g.      selalátur (E02.67),
                  h.      eyðibýli (F17.11)?

    Varðandi fjölda upplýsingaskilta við vegi gefur eftirfarandi listi til kynna hvað er skráð í vettvangsskrá Vegagerðarinnar um skilti við þjóðvegi. Líta verður á skráninguna sem lágmarksfjölda þar sem ekki er haldið sérstaklega utan um þjónustutákn á staðarvísum og eins eru nokkur ár síðan farið var í síðustu yfirferð. Þá er ráðuneytinu ekki kunnugt um fjölda slíkra skilta við vegi í umsjón sveitarfélaga.

Gerð skiltis Skráður fjöldi Athugasemd
1a Athyglisverður staður (E02.61) 108 Á 64 stöðum, oftast úr báðum áttum; tvöföld. Gæti þó verið mun fleiri þar sem ekki er haldið sérstaklega utan um það.
1b Gönguleið (E02.62) 66 Fá tvöföld.
1c Áningarstaður (E02.63) 306 Flest tvöföld.
1d Útsýni (E02.64) 16 Gæti einnig verið hluti af öðrum merkjum. Ekki haldið utan um það.
1e Útsýni með hringsjá (E02.65) 17 Gæti einnig verið hluti af öðrum merkjum. Ekki haldið utan um það.
1f Fuglaskoðun (E02.66) 14 Gæti einnig verið hluti af öðrum merkjum. Ekki haldið utan um það.
1g Selalátur (E02.67) 5 Gæti einnig verið hluti af öðrum merkjum. Ekki haldið utan um það.
1h Eyðibýli (F17.11) 34

     2.      Hverjir hafa umsjón með þessum ferðamannastöðum og sjá um viðhald, eftirlit, salernisaðstöðu, þrif o.fl.?
    Svar ráðuneytisins tekur einvörðungu til ferðamannastaða/áningarstaða við þjóðvegi sem eru í umsjón Vegagerðarinnar og þeirra staða sem samstarf er um við eiganda.
    Í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir fjölda slíkra staða. Um aðra ferðamannastaði er vísað til umhverfisráðuneytis sem og sveitarfélaga um svör.

Eignarhald Fjöldi borða Fjöldi upplýsingataflna Fjöldi sögu-/náttúruskilta
Vegagerðin 224 218 175
Aðrar stofnanir 6 3 26
Skógræktarfélög 28 2
Sveitarfélög 3 2 9
Samtals 261 223 212

    Vegagerðin sér um þjónustu- og upplýsingaskilti, sögu- og náttúruskilti á áningarstöðum við vegi, oft í samvinnu við aðra. Hún sér einnig um aðstöðu eins og t.d. borð á eigin áningarstöðum, grasslátt og sorphirðu. Vegagerðin sér einungis um salerni á Sveinsstöðum/Ólafslundi í Húnafirði og í Jónasarlundi í Öxnadal.

     3.      Hvaða reglur gilda um þjónustu við ferðamannastaði?
    Um áningar- og ferðamannastaði í vörslu og umsjón Vegagerðarinnar gilda eftirfarandi vinnureglur um þjónustu: Áningarstaði skal hreinsa reglulega og sjá til þess að upplýsingatöflur séu réttar með því að láta viðkomandi umsjónaraðila vita þegar breytinga er þörf, að töflurammar séu málaðir og annar búnaður sé ávallt hreinn og í góðu ástandi. Tæma skal sorpílát (þar sem þau eru) nægjanlega oft til að þau yfirfyllist ekki. Á þeim áningarstöðum þar sem hætta er á að lausamunir, svo sem borð og sorpílát, geti orðið fyrir skemmdum að vetrarlagi skal koma þeim fyrir til geymslu og viðhalds fyrir 15. október og skal þá jafnframt miðað við að búnaðurinn sé kominn aftur á sinn stað í lok maí.
    Um aðra ferðamannastaði er vísað til umhverfisráðuneytis og/eða sveitarfélaga um svör.