Ferill 827. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1559  —  827. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.


Flm.: Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
    Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
               Já.
               Nei.“

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á síðasta löggjafarþingi (626. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt með óbreyttri tillögugrein utan uppfærðrar dagsetningar.
    Með þingsályktun nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009, ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Að loknum viðræðum við sambandið yrði síðan haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Umsóknin var harðlega gagnrýnd af andstæðingum aðildar Íslands að ESB, m.a. með þeim rökum að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram áður en umsókn var lögð inn. Viðbrögð samfélagsins voru ekki síður hörð þegar núverandi ríkisstjórn dró aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka snemma árs 2014 og skrifuðu í kjölfarið um 54 þúsund manns undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Ekki hefur verið orðið við þeirri kröfu þrátt fyrir fyrirheit stjórnarflokkanna í aðdraganda síðustu kosninga um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar á kjörtímabilinu.
    Álitaefnið um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur lengi klofið þjóðina í tvær fylkingar. Vegna framangreindra atburða er óvissan um málefnið algjör og stendur framgangi annarra mála í vegi þar sem ómældum tíma og orku er varið í þrætur um aðildarumsókn Íslands. Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er brýn þörf á að fá úr því skorið með þjóðaratkvæðagreiðslu hvort vilji þjóðarinnar standi til að taka upp þráðinn og ljúka þeim aðildarviðræðum sem hafnar voru eða ekki. Gert er ráð fyrir að sá aðildarsamningur sem fengist út úr viðræðunum yrði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Með tillögu þessari er gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar fari fram samhliða kosningum til Alþingis sem boðaðar hafa verið 29. október. Verði af einhverjum sökum breyting á dagsetningu alþingiskosninga liggur í hlutarins eðli að tillögugreininni verði breytt til samræmis við það. Auk hins augljósa fjárhagslega hagræðis af því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða almennum kosningum má færa rök fyrir því að tímasetningin henti að öðru leyti afbragðsvel þar sem nýtt þing kæmi í kjölfarið saman með skýrt umboð frá þjóðinni um hvaða stefna skuli mörkuð í Evrópumálum.
    Sem fyrr greinir var þingsályktunartillaga af sama meiði flutt á síðasta löggjafarþingi. Ekki hefur verið hróflað við orðalagi spurningarinnar frá þeirri framlagningu en gera má ráð fyrir að orðalag spurningarinnar hljóti nánari umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd Alþingis sem m.a. leiti umsagnar landskjörstjórnar, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.
    Samhliða þingsályktunartillögu þessari verður lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem innleitt verður ákvæði um að unnt verði að víkja frá þeirri reglu 1. mgr. 4. gr. laganna að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli í fyrsta lagi fara fram þremur mánuðum eftir samþykkt þingsályktunartillögu þess efnis ef almennar kosningar eru boðaðar innan þeirra þriggja mánaða.