Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1581  —  20. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana .

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu og Ástu Sól Kristjánsdóttur og Berglindi Ósk Birgisdóttur frá Tilveru, samtökum um ófrjósemi. Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, Læknafélagi Íslands og Tilveru, samtökum um ófrjósemi.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að fela ráðherra að endurskoða greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða þannig að stuðningur ríkisins verði meiri og geri þannig fólki sem glímir við ófrjósemi auðveldara fyrir að sækja meðferðir vegna sjúkdómsins en nú er. Tillagan var lögð fram snemma á yfirstandandi löggjafarþingi og síðan þá hafa ýmsar breytingar orðið. Í lok síðasta árs keypti IVF Sverige fyrirtækið ART Medica og opnaði nýja tæknifrjóvgunardeild í Reykjavík undir heitinu IVF Klíníkin Reykjavík. Í verðskrá fyrirtækisins á heimasíðu þess kemur fram að glasafrjóvgunarmeðferð kostar 455.000 kr.
    Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögu þessari fer greiðsluþátttaka ríkisins vegna glasafrjóvgunarmeðferða eftir ákvæðum reglugerðar nr. 917/2011, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, með síðari breytingum. Skv. 1. gr. reglugerðarinnar tekur hún til glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar. Með reglugerð nr. 1167/2011 var reglugerðinni breytt á þann veg að nú nær greiðsluþátttaka sjúkratrygginga aðeins til annarrar til fjórðu meðferðar. Eftir breytinguna taka sjúkratryggingar ekki þátt í kostnaði vegna glasafrjóvgunarmeðferða hjá pörum sem fyrir eiga barn saman. Gildistími reglugerðarinnar er tímabundinn, sbr. 8. gr. hennar, og hefur gildistími hennar verið framlengdur um eitt ár í senn á hverju ári síðan hún var sett.
    Ein einkarekin meðferðarstöð, IVF Klíníkin Reykjavík, býður upp á meðferð við frjósemisvandamálum. Nefndin vill ekki taka afstöðu til þess hvort ríkið eigi að bjóða upp á sambærilega þjónustu en þar sem sjúklingar hafa ekkert val um hvert þeir leita komi upp slík vandamál kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki sé forsvaranlegt að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái ekki til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar. Leggur nefndin því til að ráðherra endurskoði núverandi fyrirkomulag með það að markmiði að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar, sbr. 1. tölul. tillögunnar. Þá eru nefndarmenn sammála um að samþykkja 2. tölul. tillögunnar um að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga verði óháð því hvort pör eða einstaklingar eiga barn fyrir. Það að eignast barn á að vera val óháð því hvort viðkomandi eiga barn fyrir. Að takmarka möguleika fullráða einstaklinga til að eignast annað barn þykir nefndinni ekki forsvaranlegt.
    Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að bíða með afgreiðslu 3.–5. tölul. tillögunnar. Varðandi 4. tölul. er ljóst að aðrir sjúklingar af landsbyggðinni njóta ekki niðurgreiðslu á ferðakostnaði og út frá jafnréttissjónarmiðum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella bæri þann lið brott. Varðandi 5. tölul. var nefndin sammála um að fleiri siðferðislegar spurningar vöknuðu en unnt væri að svara við afgreiðslu tillögu þessarar. Nefndin tók því þá ákvörðun að láta þann lið bíða þar til unnt væri að taka hann til nánari skoðunar og taka afstöðu til þeirra flóknu álitaefna sem upp geta komið. Nefndin leggur engu síður áherslu á að ráðherra útiloki ekki að taka 3. og 5. tölul. tillögunnar til skoðunar og jafnvel að endurskoða þá að hluta eða að fullu.
    Að teknu tilliti til alls þess sem að framan hefur komið fram leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Við endurskoðunina verði m.a. gætt að eftirtöldum atriðum:
     1.      að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,
     2.      að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir.

    Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Páll Valur Björnsson og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. ágúst 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm. Unnur Brá Konráðsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.