Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1591  —  680. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Garðar Eiríksson frá Auðhumlu svf., Ólaf Stephensen og Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Arnar Árnason frá Landssambandi kúabænda, Gunnar Þorgeirsson og Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Sambandi garðyrkjubænda, Bjarna R. Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Sindra Sigurgeirsson, Sigurð Eyþórsson og Sigurð Loftsson frá Bændasamtökum Íslands, Ásu Ólafsdóttur, dósent við Háskóla Íslands, Ara Edwald og Pálma Vilhjálmsson frá Mjólkursamsölunni, Ásgeir Einarsson, Birgir Óla Einarsson og Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Almar Guðmundsson og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Gunnar Þór Gíslason frá Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Einar Frey Elínarson og Jóhannes Kristjánsson frá Samtökum ungra bænda, Andrés Magnússon og Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Björn Helga Barkarson og Ingveldi Sæmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Frosta Logason frá Viðskiptaráði Íslands og Ágúst Pétursson, Jóhann Ágústsson, Jóhann Ragnarsson, Gunnar Björnsson og Guðbjart Gunnarsson sem og Hallfríði Ólafsdóttur og Jón Kristófer Sigmarsson. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Auðhumlu svf., Bústólpa ehf., Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Guðbjarti Gunnarssyni, Guðjóni Sigurbjartssyni, Kaupfélagi Skagfirðinga, Kú ehf., Landgræðslu ríkisins, Landssambandi kúabænda, Landssambandi sauðfjárbænda, Matvælastofnun, MS – Mjólkursamsölunni, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Neytendasamtökunum, Ólafi Arnalds, Sambandi garðyrkjubænda, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Samtökum ungra bænda, Sveini Runólfssyni, Svínaræktarfélagi Íslands, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands og VOR – félagi framleiðenda í lífrænum búskap.

Gerð fyrirliggjandi samninga.
    Frumvarp þetta er lagt fram til að lögfesta viðeigandi breytingar á lögum í kjölfar þess að undirritaðir voru nýir búvörusamningar og nýr búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands 19. febrúar 2016. Gildandi samningar renna sitt skeið í árslok 2016 og 2017 og því nauðsynlegt að leggja frumvarpið fram. Af hálfu íslenska ríkisins rituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra undir samningana fjóra með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis. Samningarnir eru samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar, samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar og rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017–2026.
    Gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði, innviðum hans, stuðningsumhverfi og viðskiptum við útlönd á liðnum áratugum. Þeir samningar sem hér eru til umfjöllunar eru framhald á þeirri þróun. Yfirlit um sögulega þróun á sviði landbúnaðar er síðar í áliti þessu. Við gerð samninganna var m.a. byggt á skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri „Markmið og forsendur sauðfjársamningsins “ sem birt var í nóvember 2015 og skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „Mjólkurvöruframleiðsla á Íslandi – Staða og horfur “ sem birt var í maí 2015. Áherslur ríkisins byggðust m.a. á þessum gögnum og voru áherslurnar eftirfarandi:
     að stefna í átt til almennra stuðningsforma, óháð búgrein til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra, t.d. í nautakjötsframleiðslu, geitfjárrækt, útiræktuðu grænmeti og fleiru,
     að stuðla að aukinni og arðbærri framleiðslu landbúnaðarafurða,
     að efla landbúnað sem atvinnugrein í dreifðum byggðum og stuðla að byggðafestu,
     að stuðla sjálfbærri landnýtingu,
     að styrkja fæðu- og matvælaöryggi,
     að auðvelda nýliðun.
    Unnið var út frá því markmiði að efla íslenskan landbúnað til framtíðar til að styrkja fæðuöryggi þjóðarinnar, efla búsetu í dreifðum byggðum landsins og auka sóknarfæri á erlendum mörkuðum og í ferðaþjónustu. Samningarnir voru undirritaðir 19. febrúar 2016 eftir 42 funda samningalotu. Bændur samþykktu samningana fyrir sitt leyti í atkvæðagreiðslu í mars 2016 en frumvarpið var lagt fyrir Alþingi 4. apríl 2016.

Meginatriði búvörusamninga.
    Helstu atriði samninganna eru að áfram er lögð áhersla á nautgriparækt, sauðfjárrækt og garðyrkju. Einnig var undirritaður almennur rammasamningur og var vægi hans aukið og mælt fyrir um fjölbreyttari verkefni en áður sem njóta stuðnings, svo sem jarðrækt, lífræna ræktun, geitfjárrækt, rannsóknir og fleiri smærri verkefni. Einnig eru nýmæli í þeim samningum sem gilda um tilteknar búgreinar þar sem t.d. eru ákvæði um nautakjötsframleiðslu og aukið virði sauðfjárafurða. Stefnt er að breytingum á starfsskilyrðum nautgriparæktar þar sem lagt er til að vægi greiðslna út á innvegna mjólk auk gripagreiðslna aukist en að vægi greiðslna út á greiðslumark verði þrepað niður. Lagt er til að viðskipti með greiðslumark verði einnig takmörkuð með aðlögunartíma og skal taka afstöðu til þess við endurskoðun samningsins árið 2019 hvort framleiðslustýringu verði viðhaldið og þá hvernig eða hvort hún verði afnumin. Hvað starfsskilyrði sauðfjárræktar varðar er lagt til að vægi gæðastýringar verði aukið en greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður. Lagt er til að teknar verði upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt á árinu 2020 og býlisstuðningur á árinu 2018 sem einkum styðji fjölskyldubú. Ekki eru lagðar til viðamiklar breytingar á starfsskilyrðum garðyrkjunnar og áfram gert ráð fyrir beingreiðslum til framleiðenda papriku, gúrku og tómata. Kveðið er á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku sem fram að þessu hefur ekki verið sérstaklega kveðið á um í búvörusamningum.
    Gert er ráð fyrir viðbótarfjármagni að fjárhæð alls 700 millj. kr. á ári að meðaltali ef miðað er við tíu ára tímabil. Fjárhæðin verður hærri fyrstu árin en lækkar seinni hluta tímabilsins enda er gerð almenn hagræðingarkrafa upp á 0,5% fyrstu fimm ár samningstímans og 1% hin fimm síðari. Að teknu tilliti til tímabundinna verkefna er almenn hagræðingarkrafa samninganna í heild 8,1% á gildistíma þeirra. Fjárveitingar ríkisins til bænda vegna samninganna verða svipaðar á föstu verðlagi á lokaári gildistímans eins og þær eru árið 2016.
    Ein helsta breytingin er sú að í samningunum er stefnt að því að kvótakerfi mjólkurframleiðslu verði afnumið á samningstímanum og þar með framseljanlegur stuðningur bæði í nautgripa- og sauðfjárrækt. Í samningunum er kveðið á um endurskoðun 2019 og 2023 í því skyni að bregðast við þróun og meta hvort markmið hafi náðst. Gangi markmið eða forsendur ekki eftir er hægt að bregðast við og stjórnvöld á hverjum tíma leggja sínar áherslur fram. Með því að samþykkja frumvarpið er því ekki ætlunin að læsa starfsskilyrðum landbúnaðarins í tíu ár þó svo að mörkuð sé tiltekin stefna fyrir þann tíma. Jafnframt má geta þess að fyrstu árin eru breytingar hægfara, einkum í samningnum um sauðfjárrækt.

Tillögur meiri hluta atvinnuveganefndar.
    Líkt og framar er getið er gert ráð fyrir því í undirrituðum samningum að fulltrúar bænda og ríkisins setjist að samningaborði að nýju 2019 og bændur greiði síðan atkvæði um niðurstöðu þeirra viðræðna. Einnig er gert ráð fyrir endurnýjun árið 2023. Samningarnir gefa því aðilum frelsi og svigrúm til breytinga og aðlögunar og byggjast þeir á tveimur víddum. Annars vegar er um að ræða framtíðarsýn til tíu ára og hins vegar er gert ráð fyrir endurskoðun tvisvar á því tíu ára tímabili. Meiri hlutinn bendir á að nú er um að ræða samninga sem gerðir eru á sama tíma um þrjár áðurnefndar búgreinar auk rammasamnings.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að við samþykkt frumvarpsins nú eru fyrstu þrjú ár samninganna staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Meiri hlutinn leggur til ákveðna aðferðafræði fyrir endurskoðun samninganna árið 2019 og skal ráðherra þegar hefjast handa við að endurmeta ákveðin atriði og nýtt fyrirkomulag gæti mögulega tekið gildi í ársbyrjun 2020. Meiri hlutinn leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.
    Meiri hlutinn leggur til að kannað verði hvort samningar við bændur geti byggst á áætlunum til lengri tíma um landbúnaðarmál sem yrði reglulega til meðferðar á Alþingi líkt og aðrar stefnumarkandi áætlanir sem Alþingi fjallar um, svo sem samgönguáætlun og fjármálaáætlun. Þá mælist meiri hlutinn til þess að það hvernig málefni landbúnaðarins sæta endurskoðun verði í fastari skorðum og að fleiri aðilar en fulltrúar ríkisins og Bændasamtakanna verði með í ráðum þó svo að endanleg samningagerð verði á milli bænda og ríkisins.
    Meiri hlutinn bendir á að mismunandi er á milli landa hvernig stefna er mörkuð í landbúnaðarmálum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun samninganna verði nýju fyrirkomulagi fylgt sem miði að því að minnka sveiflur og óvissu og færa aðferðafræði og ferla stefnumörkunar í fastara form. Í landbúnaði er nauðsynlegt að búa við stöðugleika og vegna eðlis atvinnugreinarinnar þurfa flestar breytingar langan aðdraganda. Meiri hlutinn telur að breiðari samstöðu sé þörf um starfsskilyrði í landbúnaði en nú virðist raunin og nauðsynlegt er að fleiri aðilar hafi tækifæri til að koma að þróun landbúnaðarstefnunnar. Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi hið fyrsta samráðsvettvang stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna. Ráðherra skal efna til formlegs samráðs við framangreinda aðila um undirbúning endurskoðunar á búvörusamningum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að beita sér fyrir samstillingu af þessu tagi. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið í þessa veru. Þau úrlausnarefni sem skulu liggja til grundvallar við stefnumótunina eru m.a. eftirfarandi:

1. Markmið.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að við endurskoðun búvörusamninga 2019 verði rýnt í markmið samninganna og laganna, metið hvernig til hafi tekist og eftir atvikum lagðar til breytingar með hliðsjón af því mati.

2. Sérstaða.
    Ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið í íslenskum landbúnaði hafa skapað honum sérstöðu sem mun styrkja samkeppnishæfni hans hvað varðar gæði og hreinleika. Sú sérstaða felst ekki síst í heilbrigðum dýrastofnum, grasfóðrun, lítilli notkun tilbúins áburðar, miklu minni lyfjanotkun en víðast annars staðar, banni við notkun vaxtarhormóna, óverulegri nýtingu varnarefna, lífrænum vörnum, hreinu vatni í ræktun og endurnýjanlegri orku. Stuðning við landbúnað má að verulegu leyti réttlæta með nauðsyn þess að tryggja þessa sérstöðu til framtíðar og telur meiri hlutinn brýnt að stefnan verði skýr í þessum efnum. Í þessu ljósi er tímabært að ræða um notkun á erfðabreyttum fóðurhráefnum í íslenskum landbúnaði.

3. Loftslags- og umhverfismál.
    Meiri hlutinn leggur til að við endurskoðun samninga 2019 liggi fyrir heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum sem snerta loftslags- og umhverfismál. Skerpa þarf á þeim atriðum í samningunum sem snúa að umhverfismálum og setja fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að á næstu árum. Meiri hlutinn er sammála um mikilvægi þessara verkefna og telur að þau þurfi að setja sterkan svip á endurskoðunina 2019. Hér er m.a. átt við:
     vegvísi um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði,
     áætlun um endurheimt votlendis, sívirkt rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi með ástandi og þróun gróðurauðlinda til þess m.a. að tryggja sjálfbærni beitilands,
     skógrækt á vegum bænda,
     uppgræðslu í samvinnu við bændur, sbr. verkefnið „Bændur græða landið“,
     umhverfisráðgjöf til bænda, t.d. um bindingu kolefnis og minni losun, svo og orkusjálfbærni í landbúnaði.
    
4. Upplýsingagjöf til neytenda.
    Meiri hlutinn telur brýnt að neytendur fái skýrar og réttar upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem þeim eru boðin til sölu. Einnig þarf að framfylgja af einurð banni við því að villt sé um fyrir neytendum með röngum eða óskýrum merkingum og auglýsingum. Í 18. gr. a laga um matvæli er mælt er fyrir um að leitast skuli við að vernda hagsmuni neytenda og gefa þeim kost á upplýstu vali með tilliti til matvælanna sem þeir neyta. Þannig skal leitast við að fyrirbyggja framleiðslu og markaðssetningu svikinna matvæla, sviksamlegar eða villandi starfsvenjur og aðrar starfsvenjur sem gætu villt um fyrir neytendum. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að óheimilt sé að villa um fyrir neytendum með merkingu, auglýsingu og framsetningu matvæla, þ.m.t. lögun þeirra, útliti eða umbúðum og umbúðaefni, hvernig þeim er fyrir komið og í hvaða umhverfi þau eru sýnd sem og upplýsingum sem eru veittar um þau. Meiri hlutinn áréttar að ákvæðum í þessa veru skyldi ekki beitt líkt og tæknilegum hindrunum heldur er grundvallaratriði að tryggja að neytendur hafi upplýsingar um innihald, framleiðsluhætti og uppruna matvæla og geti með góðu móti borið vörur saman. Í 25. gr. laga um velferð dýra er kveðið á um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé skylt að setja reglugerð um kröfur til merkinga á vörum unnum úr dýrum eða dýraafurðum á grundvelli sjónarmiða um velferð dýra. Samkvæmt sömu lagagrein er ráðherra heimilt að setja ákvæði sem takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við lögin með þeim takmörkunum sem leiðir af alþjóðasamningum. Svo virðist sem ráðherra hafi ekki sett þá reglugerð sem hann er skyldugur til að setja samkvæmt framangreindu ákvæði.

5. Upprunamerkingar.
    Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að hraða innleiðingu á reglugerð um upprunamerkingar nr. 1337/2013 um reglur vegna beitingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 að því er varðar tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað fyrir nýtt, kælt og fryst kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum.

6. Tengsl atvinnuvega.
    Ísland fellur undir hina hreinu ímynd norðurslóða í augum umheimsins og mikilvægt er að hún standist skoðun. Hrein orka, heilnæm og fersk matvæli og tær náttúra eru atriði sem eru ofin inn í markaðsstarf útflutningsgreina og kalla á samræmd vinnubrögð. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu hefur skapað sveitunum ný tækifæri víða um land, en um leið er það ferðaþjónustunni mikilvægt að viðhaldið sé menningarlandslagi og byggðamynstri í landinu sem landbúnaður getur helst tryggt. Við endurskoðun landbúnaðarstefnu þarf sérstaklega að huga að tengslum landbúnaðar við aðra atvinnuvegi.

7. Samkeppnismál og starfsumhverfi.
    Mótað verði með hvaða hætti samkeppnislög gildi um mjólkuriðnað og skilgreint verði hvaða breytingar þurfi að koma til í söfnun og dreifingu mjólkurafurða til þess að svo megi verða án þess að glata þeim jöfnunarmarkmiðum sem felast í núverandi fyrirkomulagi. Einnig verði rýnt í starfsumhverfi afurðastöðva með tilliti til staðsetningar og mikilvægis fyrir þau byggðalög sem þau starfa í. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að við endurskoðunina verði af hálfu ríkisins sérstaklega kannað hvernig landbúnaðarstefnan geti enn frekar ýtt undir framleiðslu afurða beint frá býli og vöruþróun sem byggist á uppruna eða landfræðilegri sérstöðu. Jafnframt telur meiri hlutinn rétt að örva og hvetja til frekari sóknar fjölbreyttari flóru fyrirtækja í frumvinnslu búvara og auk þess að huga að fyrirkomulagi og framtíð menntunar starfsmanna afurðastöðva í mjólkurfræði og kjötiðnaði.

8. Afkoma bænda.
    Meiri hlutinn vekur athygli á að taka verður afkomu, kostnaðarsamsetningu og þróun tekna bænda til skoðunar. Vísbendingar eru um að afkoma bænda hafi ekki fylgt almennri þróun í landinu. Gera verður ítarlegan samanburð á kröfum til innlendrar og innfluttrar framleiðslu og kortleggja áhrif á framleiðslukostnað.

9. Starf samráðsvettvangs.
    Meiri hlutinn telur það nauðsynlega forsendu til að meta framkvæmd samninganna fyrir endurskoðun árið 2019 að betur verið staðið að því að safna hagtölum í landbúnaði. Skipulega þarf að standa að því og þurfa greiningar að vera traustar. Ákveða þarf hver ber ábyrgð á því verkefni og tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til þess.

Samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.
    Samningur milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur tengist óhjákvæmilega umfjöllun um starfsumhverfi landbúnaðarins. Það mál hefur blandast inn í umfjöllun nefndarinnar, m.a. í umsögnum til hennar. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að víkja nokkuð að samningnum þó að utanríkismálanefnd fjalli um hann.
    Hinn 8. apríl sl. tók til starfa starfshópur sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði til að kanna áhrif tollasamnings við ESB á einstakar búgreinar og var þá einkum horft til svína- og alifuglaræktar. Jafnframt var starfshópnum falið að meta kostnað og áhrif nýrra reglugerða á búgreinarnar. Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og búgreinafélaga, Samtaka iðnaðarins og utanríkisráðuneytis auk fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áttu sæti í starfshópnum. Rýnt var í ýmis gögn sem geta varpað ljósi á afleiðingar samningsins fyrir landbúnað og stóð starfshópurinn saman að eftirfarandi tillögum:
     að skorti á tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB-tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem skortur er á,
     að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar,
     að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu, allt að fjórum sinnum á ári í stað einu sinni, til
     að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað,
     að stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, með tilliti til gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða,
     stjórnvöld skipi starfshóp sem verði falið að greina stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og sérstöku fjármagni verði veitt í slíka greiningarvinnu,
     að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestinga hjá svínabændum,
     að leitað verði leiða til að ráðstafa andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða,
     að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðgang að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að farið verði gaumgæfilega yfir tillögur starfshópsins og leitað leiða til að koma til móts við þær athugasemdir sem í þeim felast. Meiri hlutinn gerir nokkrar athugasemdir við tillögur hópsins. Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn að athugasemd starfshópsins um tiltekna skrokkhluta megi ekki bitna á framboði annarri skrokkhluta sem síður er skortur á. Í öðru lagi kom ábending til nefndarinnar um að líkur væru á að það hækkaði verð til neytenda að úthluta tollkvótum oftar á árinu. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að hafa samráð við hagsmunaaðila um útfærslu í þessa veru og tekur undir hugmyndir um að komið verði á jafnara flæði við úthlutun tollkvóta og að fleiri útboð geti skapað meiri skilvirkni og samkeppni. Í þriðja lagi tekur meiri hlutinn undir athugasemdir um gæðakröfur til innfluttra matvæla en gæta þarf að því að ekki verði gengið gegn alþjóðlegum skuldbindingum. Meiri hlutinn telur að gera eigi sambærilegar kröfur til þeirrar vöru sem flutt er inn og gerðar eru til vöru frá innlendum framleiðendum. Komi alþjóðasamningar í veg fyrir slíkt þarf að greina það og bregðast við með viðeigandi hætti. Í fjórða lagi mælist meiri hlutinn til þess að greining á stöðu íslensks landbúnaðar fari fram hjá áðurnefndum samráðshópi sem meiri hlutinn gerir tillögu um í breytingartillögu við frumvarpið. Í fimmta lagi, hvað varðar heimild til að nýta til úreldingar fjármuni sem eru ætlaðir til fjárfestingar hjá svínabændum, telur meiri hlutinn rétt að slík heimild verði til staðar samkvæmt rammasamningi. Í sjötta lagi tekur meiri hlutinn ekki undir tillögu um að andvirði tekna af útboðum tollkvóta verði ráðstafað til svína- og alifuglabænda vegna aðbúnaðarreglugerða enda er ekki heimilt samkvæmt lögum um opinber fjármál að mæla fyrir um að tekjur séu markaðar með þessum hætti. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sem fyrst verði unnt að uppfylla skilyrði aðbúnaðarreglugerða og fagnar því ef unnt er að veita frekari aðstoð í þeim efnum. Í sjöunda lagi, vegna tillögu um lánaflokk hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur, telur meiri hlutinn mikilvægt að almennt láni Byggðastofnun til fjárfestinga í landbúnaði, þá ekki síst til fjárfestinga sem leiðir af reglusetningu, en gæta verði þó jafnræðis milli búgreina. Það er ljóst að fjárfestingarþörf svína- og alifuglabænda og bænda í öðrum búgreinum er veruleg. Slíkar fjárfestingar krefjast mikillar fjárbindingar og verður miserfitt að standa undir þeim eftir búgreinum.

Tollkvótar og tollvernd.
    Meiri hlutinn leggur til að tollkvótar fyrir upprunamerktan ost frá Evrópusambandinu samkvæmt tollasamningnum verði ekki boðnir út með sama hætti og aðrir kvótar. Umræddar tegundir osta, sem njóta verndar innan ESB með vísan til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, eru ekki framleiddar hér á landi og eru því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Þess vegna telur meiri hlutinn eðlilegt að ekki þurfi að greiða fyrir slíkan kvóta og leggur til breytingu á 65. gr. B búvörulaga á þá leið að hlutkesti ráði því hver fær úthlutað tollkvóta en kveðið verði á um að enginn fái meira en 15% af heildarmagni. Markmið meiri hlutans er að veita innflutningsaðilum tækifæri til þess að auka úrval osta hér á landi og með 15% þaki er hugsunin að magnið dreifist milli þeirra.
    Í 62. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á magntollum tiltekinna landbúnaðarvara til að leiðrétta þá með tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs frá 1. júlí 1995. Við þessa leiðréttingu hækka tollarnir og hafa nefndinni borist talsverðar athugasemdir þar að lútandi. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við greinina í því skyni að draga úr hækkuninni og skal hækkunin taka mið af þróun gengis fremur en verðlagsvísitölu og fylgja þróun gengis hér eftir. Þær landbúnaðarafurðir sem hér um ræðir eru í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu, svo sem mjólkur- og undanrennuduft og osta, og er tollverndin því nauðsynleg. Meiri hlutinn ítrekar að viðskiptasamningur Íslands og ESB hefur í för með sér verulegar breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðarins og er því mikilvægt að litið verði á framangreindar tillögur í samhengi við það að fyrirhugað er að staðfesta þann samning á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Önnur áhrif af nýgerðum samningi Íslands og ESB eru talsvert meiri og bitna ekki eingöngu á frumframleiðslu bænda. Þá er einkum átt við breytingu á starfsskilyrðum matvælaiðnaðar í landinu og er því um verulegan hluta af markaði íslensks landbúnaðar að ræða. Nefndinni var bent á breyttar forsendur fyrir notkun á íslensku mjólkurdufti. Það er ljóst að hver sem áhrif af tollasamningnum verða þá skiptir máli að bregðast við þeim breytingum til að tryggja áfram markað búvöru og samkeppnisstöðu matvælavinnslu. Meiri hlutinn bendir á að verðlagsnefnd búvöru hefur nú þegar lækkað verð á mjólkurdufti um 20% til matvælavinnslu. Heimsmarkaðasverð á mjólkurdufti hefur undanfarið lækkað verulega vegna offramleiðslu. Sveiflur á verði geta því verið verulegar. Skammt er síðan heimsmarkaðsverð var hærra en verðið hér innan lands (5.500 USD/tonn 2007). Meiri hlutinn telur að heppilegt sé að verðlagning á mjólkurdufti til iðnaðar hafi einhverja tengingu við heimsmarkaðsverð á dufti og beinir til verðlagsnefndar búvöru að skapa verðlagningunni skýran farveg.

Álitamál tengd einstökum samningum.
    Í c-lið 25. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heildargreiðslumark í mjólk falli niður 1. janúar 2021. Ákvæði þetta er í samræmi við 3. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar þar sem mælt er fyrir um í lið 3.1 að heildargreiðslumark falli niður 2. janúar 2021 nema annað verði ákveðið við endurskoðun samningsins 2019. Meiri hlutinn telur óheppilegt að kveða á um það í lögum að heildargreiðslumark í mjólk falli niður án þess að vitað sé hvernig atkvæði munu falla í atkvæðagreiðslu 2019. Leggur meiri hlutinn því til að c-liður 25. gr. frumvarpsins falli brott. Áfram verði því stuðst við ákvörðun um heildargreiðslumark og uppgjör við bændur með sama hætti og nú er. Nefndin fékk ábendingu um að við upphaf samningagerðar hafi þær aðstæður verið að mjólk gæti vantað fyrir innanlandsmarkað en svo er ekki nú.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði frumvarpsins um nýja verðlagningaraðferð falli brott, og þar með tengd ákvæði, t.d. 43. og 45 gr., og að þau verði til umræðu í þeirri endurskoðun sem fram fer til ársins 2019. Meiri hlutinn telur að meiri tíma þurfi til að undirbúa og útfæra hið nýja verðlagningarkerfi. Þó svo að nýtt fyrirkomulag sé til einföldunar telur meiri hlutinn ekki raunhæft að innleiða nýja aðferð strax næstu áramót.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að þeir aðilar sem hafa tilnefnt fulltrúa í verðlagsnefnd búvöru, ASÍ og BSRB, tilnefni á ný fulltrúa í nefndina. Þá beinir meiri hlutinn því til ráðherra að við skipun í nefndina verði tryggt að sjónarmið smærri vinnsluaðila komist að og að leitast verði við að þau fái framgang. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á 3. gr. frumvarpsins að við 5. mgr. 7. gr. búvörulaga bætist nýr málsliður þess efnis að ráðherra tilnefni í verðlagsnefnd búvara fulltrúa smærri vinnsluaðila sem standa utan samtaka afurðastöðva sem áheyrnarfulltrúa með tillögurétt.
    Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á frumvarpinu þess efnis að afurðastöð skuli selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir sem nemi allt að 20% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur við.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 8. gr. frumvarpsins og að 41. gr. þess falli brott og telur brýnt að farið verði yfir þau álitamál sem lúta að 13. og 71. gr. laganna í þeirri endurskoðun sem er fyrirhuguð til ársins 2019.
    Fyrir liggur að þær breytingar sem felast í sauðfjársamningnum hafa mest áhrif á bændur sem eiga mikið greiðslumark og bændur sem eru staðsettir á svæðum sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þær byggðir sem eru sérstaklega háðar sauðfjárrækt verði studdar sérstaklega. Samningarnir kveða á um að svæðisbundinn stuðningur verði aukinn og vinnur Byggðastofnun að útfærslu slíks stuðnings í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að útfærslan verði með þeim hætti að stuðningur nýtist einkum þeim sem byggja lífsviðurværi sitt aðallega á sauðfjárrækt. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að vandlega verði staðið að útfærslunni og leitað leiða til að taka tillit til sérstakra aðstæðna sem kunna að vera til staðar, til að mynda vegna fjarlægðarmarka.
    Meiri hlutinn bendir á ákvæði sauðfjársamningsins um að hægt verði á því að minnka vægi beingreiðslna í sauðfjárrækt ef markmið um hækkun afurðaverðs samkvæmt ákvæðum samningsins nást ekki fram að endurskoðun 2019. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að við útfærslu reglna um nýliðunarstuðning verði staða nýliða í sauðfjárrækt skoðuð sérstaklega. Leitað verði leiða til að koma til móts við þá nýliða sem verða fyrir verulegum skerðingum vegna ákvæða sauðfjársamningsins um afnám beingreiðslna. Við umfjöllun nefndarinnar hefur verið vakin athygli á því að sauðfjárafurðir sem fluttar eru út njóti sama opinbera stuðnings og önnur framleiðsla. Enginn munur er á stuðningi eftir því hvar afurð er seld og hefur svo verið um árabil enda er ekki framleiðslustýring í greininni. Um þriðjungur framleiðslunnar er núna fluttur út. Það er ekki vilji meiri hlutans að taka að nýju upp slíka stýringu í sauðfjárrækt. Ætti að koma til móts við gagnrýni yrði taka upp kvótakerfi í greininni sem miðaði að því að draga úr framleiðslunni um þriðjung. Byggðaleg áhrif þess hafa ekki verið metin, en búast má við að þau yrðu veruleg á öllum sauðfjárræktarsvæðum í landinu sem og á úrvinnsluiðnaðinn. Við umfjöllun málsins komu einnig fram áhyggjur af því að með breyttum áherslum mundi sauðfé fjölga og sérstakar áhyggjur af beitarálagi á viðkvæmum svæðum. Meiri hlutinn minnir á ákvæði nýs samnings um mat og vöktun á ástandi gróðurauðlinda. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að óttast verulega fjölgun fjár því fyrstu ár samningstímabilsins eru breytingar hægfara og óvíst um afurðaverð. Meiri hlutinn ítrekar að í þeirri endurskoðun sem í hönd fer verði farið vandlega yfir mismunandi sjónarmið.
    Í sauðfjársamningi er jafnframt kveðið á um verkefni um aukið virði sauðfjárafurða. Meiri hlutinn fagnar áformum um traustari og markvissari vinnu við upplýsingagjöf til neytenda. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um að hluta fjármuna sem varið verður til þessa verði ráðstafað þannig að þeir nýtist sem flestum, t.d. með samkeppnissjóði til vöruþróunar og markaðssetningar. Þá ítrekar meiri hlutinn að kröftum og fjármunum sem lagðir verða til sambærilegra verkefna verði ekki dreift heldur verði leitast við að nýta fjármuni með markvissum hætti. Nú þegar renna fjármunir til verkefnisins Matvælalandið Ísland og telur meiri hlutinn að samnýta eigi sem best slíka fjármuni.
    Hvað samnning um starfsskilyrði garðyrkjunnar varðar telur meiri hlutinn æskilegt að auka hlut innlends grænmetis í neyslu landsmanna. Meiri hlutinn hvetur til þess að við fyrstu endurskoðun samningsins verði lögð áhersla á aukna framleiðslu fjölbreyttara úrvals grænmetis og að þessi sjónarmið verði hluti samnings um þessa grein.

Sögulegur bakgrunnur.
    Opinber afskipti af landbúnaði eru veruleg í flestum löndum og Ísland er þar engin undantekning. Upphaf landbúnaðarstefnu vestrænna ríkja má víða rekja til þriðja og fjórða áratugar 20. aldar. Efnahagskreppa þess tíma varð til þess að stjórnvöld gripu til aðgerða til að tryggja fæðuöryggi, m.a. með aukinni tollvernd. Það gerðist einnig hérlendis auk þess sem á sama tíma voru sett lög sem settu mörkuðum með landbúnaðarafurðir ákveðnar skorður.
    Með mjólkursölulögunum 1934 var lokað á óheftan markað og verðjöfnun var komið á milli framleiðslu nýmjólkur og vinnslumjólkur til osta- og smjörgerðar. Þá var dreifingarkostnaður lækkaður með einkaleyfum í mjólkurdreifingu. Aðgerðirnar nutu víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu og urðu til þess að lækka mjólkurverð til almennings og auka mjólkurneyslu þegar til lengri tíma var litið auk þess sem afurðaverð til bænda hækkaði. Sama ár voru sett lög um kjötsölu og verðstýringu á kartöflum. Setning afurðasölulaganna 1934 lagði í raun grunninn að þeirri stefnu sem lengi hefur verið fylgt í landbúnaði á Íslandi en með henni var komið á opinberri verðlagningu mjólkur- og sauðfjárafurða.
    Niðurgreiðslur til búvöruframleiðslu hófust 1943 og voru þær liður í viðleitni stjórnvalda til að draga úr verðbólgu og einnig að tryggja bændum viðlíka laun og sambærilegar stéttir þjóðfélagsins höfðu. Landbúnaðarvörur höfðu hækkað í verði ári fyrr sem olli mikilli óánægju í samfélaginu og leiddi til verkfalla. Á þessum árum voru laun að miklu leyti verðtryggð og full verðlagsuppbót greidd á laun mánaðarlega samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar. Það var því sameiginlegur hagur stjórnvalda og neytenda að niðurgreiða búvörur til að halda vísitölu og verðbólgu niðri. Ávinningur stjórnvalda og annarra vinnuveitenda var raunar meiri af því að halda aftur af launahækkunum með þessu móti en því að verja hærri fjárhæðum til greiðslu hærri launa. Skýrðist það m.a. af þeirri þróun að neysla þeirra matvæla sem best lá við að greiða niður minnkaði hægt og sígandi og varð í reynd minni en hún var í þeim búreikningum sem vísitala framfærslukostnaðar var reiknuð eftir.
    Árið 1947 var svo Framleiðsluráð landbúnaðarins stofnað en með setningu laga um ráðið var landbúnaðurinn endanlega aftengdur markaðslögmálum. Verð afurða skyldi í grundvallaratriðum ráðast af því að bændur fengju fyrir afurðir sínar tekjur sem væru í takt við tekjur viðmiðunarstétta fremur en að verð búvara stjórnaðist af lögmálum um framboð og eftirspurn. Yfirstjórn framleiðslunnar færðist um leið frá landbúnaðarráðherra til Stéttarsambands bænda. Þá var eitt meginverkefni Framleiðsluráðs að tryggja að íslenskur landbúnaður framleiddi vörur sem fullnægðu þörfum þjóðarinnar og að um leið væri stuðlað að umbótum á vinnslu og meðferð.
    Lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins náðu að miklu leyti markmiðum sínum. Stórstígar framfarir urðu í íslenskum landbúnaði á næstu árum og mikil framleiðsluaukning þeim samhliða. Var svo komið að árið 1955 var nauðsynlegt að hefja útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum svo birgðir tækju ekki að hlaðast upp heima fyrir. Ekki var gert ráð fyrir þeim möguleika í lögum um Framleiðsluráð enda framleiðslan fjarri því að duga til innanlandsþarfa þegar lögin voru sett. Þar sem ekki fékkst nægjanlega hátt verð fyrir útfluttar vörur var farið að greiða uppbætur fyrir landbúnaðarafurðir líkt og tíðkaðist í sjávarútvegi en einnig voru teknar upp millifærslur þannig að uppbætur fyrir ull og gærur voru notaðar til stuðnings útflutningi á kjöti og öðrum afurðum. Báðar atvinnugreinar nutu þessara uppbóta sökum þess að gengi krónunnar var rangt skráð og tók mið af hagsmunum annarra en þessara greina.
    Árið 1959 var lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins breytt og við þau bætt ákvæðum um að landbúnaðurinn fengi greiddar útflutningsbætur úr ríkissjóði sem næmu allt að 10% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar. Í staðinn afsöluðu bændur sér að nokkru eigin forræði í verðlagsmálum og þeim var ekki heimilt að rétta halla af útflutningi með því að hækka verð á vörum heima fyrir. Má geta þess að útflutningsbætur voru mun lægri en niðurgreiðslur landbúnaðarvara og voru þannig um þrisvar sinnum lægri árið 1980. Með þessum lagabreytingum var böndum ekki komið á framleiðsluvöxt í íslenskum landbúnaði heldur jókst framleiðslan þvert á móti jafnt og þétt allt til loka áttunda áratugarins. Seint þann sama áratug var hins vegar svo komið að verð fyrir búvörur sem fluttar voru út dugði illa fyrir framleiðslukostnaði. Aðkeyptir kostnaðarliðir höfðu enda hækkað hlutfallslega mikið á sama tíma og laun bænda lækkuðu að hlutfalli.
    Tuttugu árum eftir að lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var breytt og útflutningsbótum komið á var enn gerð lagabreyting og þá í átt til framleiðslustýringar. Var í því skyni komið á svokölluðu búmarki sem grundvallaðist á meðalframleiðslu hvers býlis árin 1976–1978. Út frá því var reiknaður kvóti hvers býlis en hann var hlutfall þeirrar framleiðslu sem það ætti rétt á að fá greitt fyrir. Fyrir framleiðslu umfram það skyldi aðeins fást útflutningsverð. Þessu til viðbótar var einnig komið á kjarnfóðurskatti sem m.a. hafði gefist vel við framleiðslustýringu í Noregi. Reyndist skatturinn sömuleiðis áhrifamikið stjórntæki á Íslandi og dró nokkuð hratt úr mjólkur- og lambakjötsframleiðslu.
    Árið 1985 voru sett ný lög um framleiðslu landbúnaðarafurða. Mörg grundvallarviðmið voru þau sömu og fyrr. Til dæmis var gert ráð fyrir að tekjur þeirra sem stunduðu landbúnað skyldu verða í sem mestu samræmi við tekjur annarra stétta, ákvörðun um afurðaverð skyldi vera nær óbreytt frá fyrri lögum og verðmiðlun héldist í sama horfi og áður.
    Nýmæli voru þó margvísleg. Innleidd voru ákvæði um að dregið yrði smám saman úr útflutningsbótum og því horft nær eingöngu til framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Á móti yrði auknu fjármagni veitt til Framleiðnisjóðs sem m.a. yrði nýttur til að bjóða bændum stuðning til breytinga á búsháttum og til fjárfestinga í nýrri starfsemi á jörðum sínum. Jafnframt skyldu gerðir samningar á milli ríkisvaldsins og Stéttarsambands bænda um magn þeirra afurða sem tryggt yrði fullt verð fyrir.
    Á grundvelli hinna nýju búvörulaga voru gerðir búvörusamningar á milli bænda og ríkisins árið 1985 og aftur árið 1987. Í samningunum lækkaði smám saman það framleiðslumagn mjólkur og kindakjöts sem ríkissjóður ábyrgðist fullt grundvallarverð fyrir. Verulegur árangur náðist í að aðlaga framleiðslumagn þessara greina að þörfum innanlandsmarkaðar.
    Á áttunda og níunda áratug 20. aldar var viðvarandi há verðbólga á Íslandi. Verðhækkanir voru oft á bilinu 30–50% á ári og allt upp í yfir 130% árið 1983. Með því að banna verðtryggingu launa það ár náðist að minnka verðbólguna verulega, eða í um 20-30%, en um leið hrapaði kaupmáttur landsmanna. Í febrúar árið 1990 náðist svo hin svokallaða þjóðarsátt, samkomulag um víðtækar aðgerðir til að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Voru þar m.a. settar miklar skorður við launahækkunum, verðhækkunum á opinberri þjónustu og hækkunum á verði búvara. Með þjóðarsáttinni tóku bændur á sig 6% lækkun á launakjörum. Mat þeirra var hins vegar að lág verðbólga væri svo eftirsóknarverð fyrir búvöruframleiðslu og leiddi til slíkrar lækkunar á fjármagnskostnaði að þær aðgerðir væru verjandi. Nýr búvörusamningur sem gerður var í mars 1991 átti rætur að rekja til þjóðarsáttarsamninganna og anda þeirra. Samningurinn náði einkum til sauðfjárframleiðslu og voru markmið hans að lækka vöruverð til neytenda, viðhalda jafnvægi í framleiðslu og sölu mjólkur- og sauðfjárafurða og lækka opinberar stuðningsgreiðslur til greinanna og stuðla þannig að hagkvæmari landbúnaði sem jafnframt væri rekinn í samræmi við landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið.
    Voru nú teknar upp beingreiðslur til bænda í stað niðurgreiðslna á heildsölustigi og svokallað greiðslumark innleitt. Greiðslumark er framleiðslumagn sem veitir eigendum rétt til hlutfallslegra beingreiðslna úr ríkissjóði og voru bændum heimiluð viðskipti með greiðslumarkið. Sú verðábyrgð ríkissjóðs var þó ekki lengur tengd við fyrir fram ákveðið magn mjólkur og kindakjöts heldur við það magn afurða sem áætlað var að seldist innan lands. Færðist framleiðsla bænda þannig enn nær markaðsaðstæðum hverju sinni. Jafnframt var gerð talsverð hagræðingarkrafa til bænda sem leiddi af sér kjaraskerðingar næði hún ekki fram að ganga. Um leið bauð ríkið bændum að kaupa upp framleiðslurétt þeirra og var markmiðið að hraða enn frekar aðlögun sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði. Þá voru útflutningsbætur með öllu aflagðar.
    Ári síðar voru útfærð nánar þau ákvæði búvörusamningsin frá 1991 sem lutu sérstaklega að mjólkurframleiðslu. Var þar einnig tekið upp greiðslumark sem heimilað var að eiga viðskipti með og voru innleiddar beingreiðslur og starfsskilyrði sem voru að flestu leyti keimlík því sem gilti fyrir sauðfjárræktina, m.a. hvað hagræðingarkröfu varðaði. Tóku báðir samningar gildi 1. september 1992 og giltu til 31. ágúst 1998. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á búvörulögum árið 1993 sem innifólu breytingar beggja samninga.
    Nýir samningar um framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkur tóku gildi nokkru áður en gildistími samninganna frá 1992 rann út. Meginmarkmið samninganna voru keimlík hinum fyrri, þ.e. að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni greinanna, treysta tekjugrundvöll þeirra, ná jafnvægi í framboði og eftirspurn, skapa skilyrði fyrir nauðsynlegri nýliðun og gæta að umhverfisvernd og landnýtingarsjónarmiðum.
    Í nýju sauðfjársamningunum sem voru undirritaðir 1. október 1995 var framleiðslukvóti að hluta afnuminn og greiðslur ríkisins ekki eins framleiðslutengdar og áður. Opinberri verðlagningu var hætt og verðlagning þess í stað gefin frjáls. Áfram var samið um framlög til uppkaupa á framleiðslurétti. Gildistími samningsins var til ársloka 2000.
    Í nýju mjólkursamningunum sem undirritaðir voru 17. desember 1997 og giltu árin 1998–2005 voru meginmarkmiðin þrjú. Í fyrsta lagi að skapa það rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða að ná mætti fram aukinni hagkvæmni í samkeppni við innfluttar búvörur. Í öðru lagi að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að auka mætti nýliðun í greininni og ná fram eðlilegri endurnýjun í fjárfestingum. Í þriðja lagi að viðhalda stöðugleika á milli framleiðslu og eftirspurnar og nýta hagkvæma markaði innan lands og utan. Með samningunum var það innleitt að verðlagsnefnd búvara skyldi ákvarða um allar verðbreytingar, hvort sem um væri að ræða verð til bænda (sem yrði ákveðið lágmarksverð í stað fastrar verðlagningar) eða heildsöluverð mjólkur. Skráning á heildsöluverði skyldi þó leggjast af um mitt ár 2001. Stuðningshlutfall af framleiðslukostnaði mjólkur yrði jafnframt miðað við fyrrgreint lágmarksverð mjólkur til bænda.
    Samkvæmt nýjum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða 2001–2007 skiptust greiðslur ríkisins til stuðnings greininni í styrki vegna beingreiðslna í samræmi við framleiðslukvóta hvers lögbýlis, styrki til bænda sem voru að hefja búskap eða stækka bú til að auka framleiðni, styrki vegna gæðastýringar, styrki vegna ullarframleiðslu, styrki til að mæta kostnaði vegna vaxta- og geymslugjalda, styrki vegna kostnaðar við þróun og þjónustu, styrki til kennslu, rannsókna og þróunar í greininni og að lokum styrki til uppkaupa á greiðslumarki þeirra bænda sem vildu bregða búi. Nýr samningur var gerður árið 2007 sem gilti frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2013. Stuðningskerfi sauðfjárræktar var þar einfaldað, greiðsluleiðum fækkað og útflutningsskylda felld niður. Framlög út á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu voru aukin og sérstakar fjárveitingar veittar til að efla nýliðun í greininni. Framlög ríkisins hækkuðu á fyrsta ári samningsins en lækkuðu svo um nær 1% að raunvirði á ári á samningstímanum. Samningurinn var endurskoðaður árið 2009 í kjölfar efnahagshrunsins og þá framlengdur til ársloka 2015. Voru samningarnir að mestu framlengdir á fyrri forsendum en þó með þeim hætti að stuðningur ríkisins til bænda var lægri fyrstu tvö til þrjú árin en fyrri samningur kvað á um en bændur fengu í staðinn framlengingu í tvö ár sem tryggði ákveðið rekstraröryggi. Samningurinn var endurskoðaður aftur árið 2012 og þá framlengdur til ársloka 2017. Framlengingin fól í sér aukin framlög til jarðræktar, til eflingu kornræktar og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
    10. maí 2004 var ritað undir nýjan samning á milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu. Tók samningurinn gildi 1. september 2005 og gilti til 31. ágúst 2012. Markmið samningsins voru m.a. að stuðla að enn frekari hagræðingu í greininni, auka samkeppnishæfni hennar og stuðla að lægra vöruverði til neytenda. Enn fremur skyldi viðhalda jafnvægi í framboði og eftirspurn, búa greinina undir aukna erlenda samkeppni, stuðla að kynslóðaskiptum, bæta framleiðsluaðstöðu og gæta að sjónarmiðum dýravelferðar og heilnæmis afurða. Í samningnum var kveðið á um ákveðið heildarframlag beingreiðslna ríkisins á ári hverju sem skertist um 1% á ári frá árinu 2006 og út samningstímann. Á móti kom að þessar greiðslur voru verðtryggðar. Skyldu greiðslur á hvern mjólkurlítra jafnframt lækka en á móti voru teknar upp ákveðnar greiðslur fyrir gripi upp að tilteknum fjölda, m.a. til eflingar kynbótastarfs, auk óframleiðslutengdra styrkja, svo sem til eflingar jarðræktar. Samningur þessi hefur verið framlengdur með litlum efnisbreytingum og gildir nú til ársloka 2016. Þess má geta að kúabændur gengu í gegnum sams konar skerðingar á stuðningsgreiðslum og sauðfjárbændur í kjölfar efnahagshruns.
    Sem fyrr segir hefur þróunin í íslenskum landbúnaði verið í þá átt að auka samkeppnishæfni hans og aðlögun að frjálsum markaði. Þannig má segja að nú ríki almennt óhindruð samkeppni í sölu á flestum landbúnaðarafurðum að undanskildum mjólkurafurðum. Viðskipti með egg, kjúklinga, svínakjöt og nautakjöt eru t.d. svo til frjáls að undanskilinni ákveðinni innflutningsvernd, samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma, og beinni tollvernd sem dregið hefur verulega úr á liðnum árum. Verðlagning á sauðfjárafurðum og grænmeti er einnig frjáls en styrkir ríkisins til framleiðenda hafa þó talsverð áhrif á viðskipti og verð þeirra afurða.
    Samkvæmt búvörulögum er Landssambandi kúabænda heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts og Landssambandi sauðfjárbænda er heimilt að gefa út sams konar viðmiðunarverð til sinna framleiðenda fyrir einstaka flokka sauðfjárafurða. Þessa heimild hafa sauðfjárbændur nýtt sér en kúabændur ekki. Greiðslur afurðastöðva til sauðfjárbænda hafa þó almennt verið lægri en þetta viðmiðunarverð.
    Mestu inngrip ríkisins gagnvart íslenskum landbúnaði eru núna í mjólkuriðnaði og má skipta þeim í þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi er greitt lögbundið lágmarksverð til bænda fyrir mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks (kvóta) en verðlagning er frjáls fyrir framleiðslumagn umfram það. Þá er jafnframt í gildi lögbundið heildsöluverð ýmissa mjólkurafurða. Í öðru lagi er við lýði fyrrgreint greiðslumark sem veitir framleiðendum aðgang að lokuðum innanlandsmarkaði mjólkurframleiðslu. Í þriðja lagi greiðir ríkið beingreiðslur, fyrir fram ákveðna heildarfjárhæð, til greiðslumarkshafa í hlutfalli við greiðslumark hvers og eins bónda. Viðskipti með greiðslumark eru heimil í mjólkurframleiðslu og hafa þau leitt til aukinnar hagkvæmni í greininni og til þess að framleiðendum hefur fækkað og framleiðslueiningar hafa stækkað. Segja má að núgildandi kerfi hafi skilað allnokkrum árangri í formi þess að lágmarksverð mjólkur til bænda hafi hækkað miðað við almennt neysluverð síðan 2003 en heildsöluverð og smásöluverð á mjólkurvörum lækkað á sama tíma miðað við verð á almennum neysluvörum. Bæði neytendur og bændur hafa því haft ávinning af núverandi fyrirkomulagi. Gagnrýni beinist þó að því að opinber stuðningur sé of mikill, of hátt hlutfall renni til fyrrverandi bænda og fjármálastofnana, nýliðun í greininni sé torveld og að fyrirkomulag sem sé utan samkeppnislaga sé ekki heppilegt.
    Stuðningur við íslenskan landbúnað byggist nú annars vegar á stuðningsgreiðslum úr ríkissjóði og hins vegar á tollvernd. Tollar eru lagðir á innfluttar búvörur sem eru sambærilegar þeim vörum sem framleiddar eru hér á landi. Er þar einkum um að ræða kjötvörur, mjólkurvörur og blóm. Útiræktað grænmeti eins og kartöflur, gulrætur og gulrófur njóta einnig tollverndar þegar íslenska framleiðslan annar eftirspurn en þegar íslensku vörurnar eru ekki til falla niður tollar á erlendu vörurnar. Langflestar landbúnaðarvörur eru eftir sem áður fluttar til Íslands án tolla. Ísland gerðist aðili að alþjóðlega GATT-tollasamkomulaginu sem gekk í gildi árið 1995. Með því var gengist undir skuldbindingar um að heimila ákveðinn lágmarksaðgang erlendra búvara að íslenskum markaði og að takmarka opinber framlög til landbúnaðar. Árið 2002 voru tollar felldir niður af tómötum, gúrkum og paprikum en þess í stað teknar upp beingreiðslur til innlendra framleiðenda þessara vara.
    Í lok árs 2006 náðist bráðabirgðasamkomulag við Evrópusambandið um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur. Tók samkomulagið gildi á fyrri hluta árs 2007 en það fól í sér 40% lækkun tolla á innfluttum kjötvörum frá löndum Evrópusambandsins til Íslands og niðurfellingu tolla af frosnu grænmeti, auk umfangsmikilla tollkvóta án aðflutningsgjalda fyrir kjöt, kjötvörur, kartöflur, rjúpur og ost. Í staðinn veitti Evrópusambandið tollkvóta án aðflutningsgjalda fyrir lambakjöt, skyr, smjör og pylsur.
    Enn meiri breytingar á aðgengi erlendra landbúnaðarvara að íslenskum markaði voru samþykktar með nýjum samningum Íslands og Evrópusambandsins sem áður hefur verið getið um í áliti þessu. Samið var um gagnkvæma lækkun og niðurfellingu tolla af fjölmörgum landbúnaðarafurðum, auk gagnkvæmrar hækkunar á tollfrjálsum innflutningskvótum. Samhliða var lokið samningi á milli Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á heitum afurða sem vísa til uppruna.
    Líkt og framar er getið leggur meiri hlutinn til að ráðherra verði falið að skipa hið fyrsta fulltrúa helstu hagsmunaaðila í samráðshóp sem undirbúi þá endurskoðun sem mælt er fyrir um í búvörusamningum að skuli fara fram 2019. Mikilvægt er að stöðugleiki ríki í greininni og framtíðarsýn verði sköpuð til lengri tíma, ekki síst þar sem gera má ráð fyrir að samingur við Evrópusambandið um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur hafi nokkur áhrif á íslenskan landbúnað. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að tryggja samráðshópnum viðunandi starfsskilyrði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

    Alþingi, 29. ágúst 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Geir Jón Þórisson.
Páll Jóhann Pálsson. Þórunn Egilsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.