Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1599  —  680. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

Frá 3. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Frumvarpið var lagt fram til að lögfesta breytingar á lögum í kjölfar þess að undirritaðir voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands 19. febrúar 2016.
    Með nýgerðum búvörusamningum er ekki sköpuð sú sú festa eða fyrirsjáanleiki sem nauðsynleg er fyrir jafnmikilvæga atvinnugrein. Markmið samninganna eru líka að mörgu leyti óljós. Á sama tíma og talað er um sóknarfæri íslensks landbúnaðar á heimsvísu með aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum er hert á einokunaraðstöðu markaðsráðandi aðila og niðurgreiðslu útflutnings landbúnaðarafurða haldið áfram. Með því er ætlunin að verja miklum fjármunum til ýmissa greina á þessu sviði og festa í sessi fyrirkomulag sem er löngu úr sér gengið án samráðs við helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. 3. minni hluti telur það með öllu óásættanlegt.
    Fimmtíu umsagnir bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Fyrir liggur að ekki var haft samráð við flesta af þeim stóru hagsmunaaðilum sem búvörulög og búvörusamningar varða. Í fjölmörgum umsögnum er lýst verulegum áhyggjum af samráðsleysi og íhaldssamri landbúnaðarstefnu sem er löngu úr sér gengin þar sem ekki er gætt að hagsmunum neytenda, skattgreiðenda, launþega, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila. 3. minni hluti telur að endurnýja beri núgildandi samninga og vinna málið upp á nýtt. Annað sé ekki boðlegt fyrir alla hlutaðeigandi. 3. minni hluti hefur því lagt fram frávísunartillögu þar sem lagt er til að gildandi samningar verði framlengdir og að þegar verði hafist handa við gerð nýrra samninga í samráði og samvinnu við allra hagsmunaaðila og með skýra pólitíska sýn um framtíð íslensks landbúnaðar.
    Launþegasamtökin sem samkvæmt lögum áttu aðild að verðlagsnefnd búvara sögðu sig frá þeim störfum um mitt ár 2015 en Neytendasamtökin höfðu þá þegar sagt sig frá nefndinni. Forsendur þess voru þær að í ljósi breyttra viðhorfa og aðstæðna, m.a. vegna þess að eftirspurn eftir mjólkurvörum hefur verið meiri en rúmast innan samþykkts mjólkurkvóta og að kúabændur hafa lýst vilja til að hverfa frá opinberri verðlagningu á mjólkurafurðum, sé ljóst að endurskoða þurfi allt skipulag mjólkurframleiðslu, þ.m.t. verðalagningu.
    Samkeppniseftirlitið tekur svo djúpt í árinni að halda fram í sinni umsögn að frumvarpið þarfnist gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja almannahagsmuni. Í því felst m.a. að í lögum og frumvarpinu er að finna ákvæði sem ganga þvert gegn ákvæðum samkeppnislaga, ákvæði sem eru án fordæma í annarri löggjöf og refsiverð undir öðrum kringumstæðum. Er þar m.a. átt við 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um samráð og samkomulag milli afurðastöðva og breytingar á áðurnefndri 13. gr. sem festa í sessi samráð um verðtilfærslu sem alla jafna teldist ólöglegt samkvæmt samkeppnislögum. Meiri hlutinn leggur ekki til neinar lagfæringar eða breytingar hvað þetta varðar til hagsbóta fyrir almenning.
    3. minni hluti telur ekki ásættanlegt að Alþingi samþykki frumvarpið í núverandi mynd. Markmið samkeppnislaga er að gæta hagsmuna almennings. Lögunum er ætlað að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta á markaði. Með frumvarpinu er gengið gegn öllum þessum meginreglum þar sem heimildir til sameiningar, samráðs og samvinnu markaðsráðandi aðila yrðu lögfest sem og verðsamráð. Þá er þak einnig sett á það magn sem markaðsráðandi afurðastöð er heimilt að selja sjálfstæðum vinnsluaðilum og þannig komið í veg fyrir samkeppni. Jafnvel þótt breytingartillögur meiri hlutans miði að því að hækka það þak er samt sem áður fyrirhugað að lögfesta reglur sem heimila skaðlega fákeppni og samþjöppun á þessum markaði auk þess að fela í sér samkeppnishömlur. Slíkt er óásættanlegt. Landbúnaður þarf að geta og á að þrífast á samkeppnismarkaði. Atvinnugrein sem er niðurgreidd með almannafé verður að gangast undir samvinnu og samráð við hagsmunaaðila og byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum þar sem tekið er tillit til allra hagsmunaaðila.
    Björt framtíð telur að með endurskoðun málsins og gerð nýrra búvörusamninga séu fólgin tækifæri til að tryggja bændum hámarksverð fyrir sínar afurðir og tryggja vöruúrval og hagstætt verð til neytenda og að sátt megi nást um slíka samninga og framkvæmd þeirra þannig að ákvæðum samkeppnislaga sé einnig fylgt. Nýlegar fregnir af einhliða ákvörðun sláturleyfishafa um að lækka verð til sauðfjárbænda um 12% hefur sætt furðu og hafa bændur gagnrýnt harkalega þann ásetning að velta fortíðarvanda og kostnaðar- og launahækkunum yfir á bændur. 3. minni hluti telur að með endurskoðun búvörusamninga megi gera mun betur þannig að hagsmuna allra hlutaðeigandi sé gætt við framkvæmd, ekki síst bænda. Einhliða ákvarðanir sláturleyfishafa um verðlækkun til þeirra er ekki boðleg.
    Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum vörum hefur margfaldast á undanförnum árum. Frumvarpið felur vissulega í sér aukinn stuðning við lífræna ræktun en hvatinn til slíkrar ræktunar er alls ekki fullnægjandi. Engin stefna um framtíðaráform lífrænnar ræktunar hefur verið sett og er það miður. Marka þarf slíka stefnu og stuðningur við lífræna ræktun verður að margfaldast til að okkur auðnist að halda í við aðrar Norðurlandaþjóðir hvað þetta varðar.
    Með frumvarpinu er ekki með nokkrum hætti gerð tilraun til að leggja mat á það að hvaða marki íslensk framleiðsla er umhverfisvæn í samanburði við sambærilega framleiðslu erlendis. Til þess þarf að taka upp mælingar á kolefnisfótsporum til að unnt sé að leggja mat á það hvort og þá með hvaða hætti stuðningur við íslenskan landbúnað ýtir undir umhverfisvæna framleiðslu.
    Frumvarpið felur í sér áframhaldandi stuðning við útflutning landbúnaðarafurða sem er niðurgreiddur með almannafé íslenskra skattborgara í formi beingreiðslna eða gripagreiðslna. Eins og fram hefur komið þarf atvinnugrein sem niðurgreidd er með almannafé að byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum og hagrænum ávinningi. Óásættanlegt er að íslenskir skattgreiðendur niðurgreiði landbúnaðarafurðir sem seldar eru erlendis. Til þess að byggja upp markaði erlendis með íslenskum landbúnaðarafurðum hlýtur atvinnugreinin að þurfa að standa á eigin fótum.
    Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til ástands lands og stuðningur er mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök. Þess utan getur aukning gripagreiðslna hvatt til fjölgunar sauðfjár án þess að hugað sé að ástandi afrétta og beitilanda í héruðum og landshlutum þar sem ástand lands getur verið viðkvæmt. Ekki verður séð að með samningunum sé gerð tilraun til að draga úr beit á illa förnu landi eða auðnum. Meiri hlutinn vitnar til rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins hvað þetta varðar og segir gert ráð fyrir mati og vöktun á ástandi gróðurauðlinda. Hið rétta er að þar er eingöngu rætt um að standa fyrir verkefni um mat á gróðurauðlindum með því að draga saman rannsóknir sem fyrir liggja um efnið og beita sér fyrir frekari rannsóknum. Engin tilraun er gerð til að skýra það með hvaða hætti ætlunin er að vakta og vernda land og stuðla að sjálfbærni. Opinber fjárstuðningur við heila atvinnugrein hlýtur að þurfa að miðast við sjálfbæra landnýtingu þar sem gróður- og jarðvegseyðing er eitt alvarlegasta umhverfisvandamál Íslendinga. Stórauka þarf áherslu á jarðræktarstuðning, ekki síst til að fylgja sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og skuldbindingum á alþjóðavettvangi. Þannig þarf að auka fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningunum.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að opinber stuðningur við framleiðslu landbúnaðarafurða komi til endurskoðunar verði bændur uppvísir að ítrekaðri illri meðferð dýra. Í frumvarpi sem varð að lögum um velferð dýra og lagt var fram á 141. löggjafarþingi var upphaflega gert ráð fyrir því að við brot á lögunum væri Matvælastofnun, sem hefur eftirlitshlutverk með dýrahaldi, heimilt að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði vegna ítrekaðra brota og að undangenginni áminningu. Það ákvæði var fellt brott, m.a. vegna andstöðu Bændasamtaka Íslands við ákvæðið. Helstu rök voru þau að slík tillaga stangaðist á við búvöru- og búnaðarlög. 3. minni hluti telur slík rök ekki standa í vegi fyrir því að ákvæði af þessu tagi verði tekið upp, enda þurfi þá eingöngu að taka það upp í öðrum lögum. Sjálfsagt og eðlilegt sé að skilyrða opinberan fjárstuðning við ásættanlega meðferð dýra.
    Þrátt fyrir að meiri hlutinn geri ráð fyrir lítils háttar breytingum á fyrirkomulagi tollkvóta, sem hafa það að markmiði að hækkanir verði ekki eins miklar og áður hafði verið gert ráð fyrir, munu breytingar á búvörulögum samt sem áður leiða til tollahækkunar á ostum. 3. minni hluti telur að hagsmunir neytenda séu enn fyrir borð bornir og slíkt er óásættanlegt. Björt framtíð hefur lagt fram frumvarp þess efnis að tollkvótar verði ekki boðnir út enda fari kostnaður vegna útboðanna út í verðlagið.
    3. minni hluti telur fram komnar breytingar meiri hlutans sumar til bóta og tekur undir tillögur sem varða það að brýnt sé að neytendur fái skýrar og réttar upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem þeim eru boðin til sölu og að framfylgja þurfi af einurð banni við því að villt sé um fyrir neytendum með röngum eða óskýrum merkingum og auglýsingum. Afar mikilvægt sé að hraða innleiðingu á reglugerð um upprunamerkingar nr. 1337/2013 um reglur vegna beitingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1169/2011. Ánægjulegt er að tekið skuli undir margar röksemdir í frávísunartillögu Bjartrar framtíðar og höfð hliðsjón af fjölmörgum neikvæðum umsögnum hagsmunaaðila.
    Álit 3. minni hluta er að breytingartillögur meiri hlutans séu algjörlega ófullnægjandi og því beri að vísa málinu frá. Málið er enn vanreifað og mikið vantar upp á gæði þess sem ekki verður bætt nema með heildarendurskoðun og víðtæku samráði. 3. minni hluti hefur ítrekað kallað eftir slíku samráði og nú virðist fleiri komnir á þá skoðun og er það vel. Íslenskur landbúnaður og fjölbreytt framleiðsla þar undir getur ekki beðið í þrjú ár eftir heildarendurskoðun þeirri sem meiri hlutinn leggur til, enda er ekkert í tillögum meiri hlutans sem tryggir góða niðurstöðu og bætt umhverfi neytenda, bænda og annarra framleiðenda að þeim tíma liðnum.

Alþingi, 30. ágúst 2016.

Björt Ólafsdóttir.