Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1673  —  657. mál.
Fyrirsögn.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum (gjafsókn).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkis­ráðuneytinu, Sif Konráðsdóttur frá Landvernd og Hildi Ýri Viðarsdóttur frá Lögmannafélagi Íslands. Umsagnir bárust frá Landvernd og Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á fyrirkomulagi gjafsóknarmála og skilyrðum fyrir gjaf­sókn. Lagt er til að umsýsla gjafsóknarmála verði færð til sýslumanns. Þá verði hlutverki gjafsóknarnefndar breytt á þann hátt að í stað þess að gefa ráðherra bindandi umsögn um hvort gjafsókn skuli veitt eða hafnað taki hún til meðferðar kærur á ákvörðun sýslumanns um gjafsókn. Einnig er lagt til að skilyrðum fyrir gjafsókn verði breytt og kveðið á um hvernig skuli fara með ákvörðun um málskostnað í máli sem nýtur gjafsóknar.
    Með lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014, var í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að skoðað yrði hvort ákjósanlegt væri að færa verkefni úr ráðuneytum til sýslumannsembætta. Við þá skoðun kom í ljós að það að færa umsýslu gjafsóknarmála til sýslumanns félli vel að starfsemi þeirra sem og að heppilegt væri að möguleiki yrði á kæruleið vegna synjana eða takmarkana á gjafsókn, en slíkt er ekki í gild­andi löggjöf.
    Í umsögn Lögmannafélags Íslands kom fram athugasemd við 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins um að ekki mætti skilja skilyrðið um að nægilegt tilefni væri til málssóknar á þann hátt að líkur yrðu að vera til þess að mál ynnist. Meiri hlutinn bendir á að orðalagið er sambærilegt við orðalag í gildandi lögum og í reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknar­nefndar, nr. 616/2012, er að finna nánari skýringu á því hvaða atriði eru lögð til grundvallar mati á því hvort nægilegt tilefni sé til málssóknar. Nefndin fékk þær upplýsingar að í fram­kvæmd hefur þetta atriði ekki verið talið takmarka um of möguleika fólks til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Þá leggst félagið einnig gegn þeirri heimild sem fram kemur í loka­málslið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins að ráðherra verði heimilað að kveða í reglugerð nánar á um þóknun lögmanns í ákveðnum tilvikum. Leggur félagið til að þessi heimild verði bundin í lög. Meiri hlutinn bendir á að meginreglan er sú að dómari ákveður þóknun lögmanns og kostnað lögmannsins af rekstri málsins í máli sem gjafsókn hefur verið veitt í. Þá metur dóm­ari einnig hvort um réttmætan kostnað sé að ræða og ef til þess kemur að sýslumaður þurfi að taka afstöðu til þóknunar lögmanns og annars kostnaðar hans af máli í undantekningar­tilfellum er nauðsynlegt að ljóst sé á hverju ákvörðun sýslumanns um kostnað byggist.
    Í umsögn Landverndar eru þau sjónarmið reifuð að sett verði ákvæði um hámark máls­kostnaðar sem þeim aðila, er tapar máli í öllum verulegum atriðum, verði gert að greiða gagnaðila sínum í dómsmálum á sviði umhverfismála. Leggur Landvernd til að gerðar verði breytingar á 130. gr. laganna í því skyni. Að mati Landverndar getur það ekki samrýmst þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt ákvæðum Árósasamningsins að ekki verði í íslenskri löggjöf lagaheimild til að veita samtökum almennings á sviði umhverfis­verndar gjafsókn. Meiri hlutinn áréttar að þegar Árósasamningurinn var fullgiltur voru sömu lagareglur í gildi og nú eru lagðar til í frumvarpi þessu. Við fullgildingu samningsins var ítar­lega farið yfir hvaða lagabreytingar væru nauðsynlegar til fullgildingar hans, þar á meðal hvernig ætti að innleiða ákvæði 9. gr. samningsins sem kveður á um aðgang að réttlátri málsmeðferð. Sú leið var farin að setja á fót sjálfstæða úrskurðarnefnd, sbr. lög nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það er mat meiri hlutans að með þessu hafi verið komið til fulls á móts við þær kröfur sem gerðar eru í 9. gr. Árósasamningsins. Jafn­framt bendir nefndin á að betur færi að setja slíka heimild í sérlög á sviði umhverfisverndar heldur en í almenn réttarfarslög.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar. Það er mat meiri hlutans að þegar litið er á heimildir til takmörkunar á gjafsókn sé nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar eðlileg tekjuviðmið og beinir hann því til ráðuneytisins að líta til þeirra sjónarmiða við breytingu á reglugerðinni.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á gildistöku frumvarpsins svo að ráðrúm gefist til að undirbúa þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „1. júlí 2016“ í 6. gr. komi: 1. febrúar 2017.

    Unnur Brá Konráðsdóttir og Haraldur Einarsson rita undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefndar Alþingis.

Alþingi, 15. september 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Haraldur Einarsson.