Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1674  —  681. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (evrópskar reglur um fjármálaeftirlit).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur, Kristján Andra Stefánsson, Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Unni Orradóttur Ramette frá utanríkis­ráðuneyti, Guðrúnu Þorleifsdóttur, Evu H. Baldursdóttur, Kjartan Gunnarsson og Ernu Hjaltested frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Rúnar Örn Olsen og Pál Friðriksson frá Fjár­málaeftirlitinu og Skúla Magnússon, héraðsdómara og dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Vegna stjórnskipulegra álitamála leitaði nefndin eftir umsögn stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar og fylgir umsögnin með áliti þessu sem fylgiskjal. Þá fékk nefndin minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd níu fyrir­hugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármála­þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 um að fella inn í samninginn 31 gerð og samning um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dóm­stóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits.
    Umræddar gerðir fela í sér að búið er til samevrópskt fjármálaeftirlitskerfi. Kerfið saman­stendur af þremur eftirlitsstofnunum, evrópsku kerfisáhætturáði og eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ESB. Stofnanirnar þrjár sem kveðið er á um í gerðunum tóku til starfa 2011 og hafa þær ákveðnar valdheimildir sem þær geta beitt við sérstakar aðstæður og þegar fjármála­eftirlit aðildarríkja bregst. Þessar valdheimildir fela m.a. í sér heimildir til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í neyðarástandi, til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum á fjármálamarkaði í neyðarástandi, til að banna tímabundið eða tak­marka ákveðna fjármálastarfsemi og til að taka bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum eftir­litsstjórnvalda.
    Þegar gerðirnar komu til umfjöllunar utanríkismálanefndar í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála í mars 2013 höfðu þá þegar verið gerðar athugasemdir við það valdaframsal sem fólst í því að fela evrópskum eftirlitsstofnunum, sem Ísland væri ekki aðili að, vald til að taka bindandi ákvarðanir. Í álitsgerð Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar frá apríl 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að innleiðing gerðanna væri háð annmörkum með tilliti til stjórnarskrár og með innleiðingu þeirra yrði stigið skrefi lengra að því er varðar framsal valds en áður hefur verið talið rúmast innan 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það var þó jafnframt álit þeirra að unnt væri að vinna að lausn að því tilskildu að tveggja stoða kerfi EES-samningsins yrði notað gagnvart Íslandi.
    Samningar um sérstaka lausn fyrir EES/EFTA-ríkin náðust loks við Evrópusambandið og hefur sá samningur verið staðfestur af öllum samningsaðilum nema Íslandi. Í samningnum felst að í stað þess að evrópsku eftirlitsstofnanirnar hafi heimildir til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart Íslandi eru slíkar ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum EFTA-ríkjanna innan EES og fyrirtækjum sem þar starfa teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Eftirlitsstofnanir ESB eru þó bærar til að gefa yfirlýsingar sem ekki eru bindandi, t.d. með tilmælum og í sátta­störfum, gagnvart stjórnvöldum og fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum innan EES. Í öllum til­vikum er þó gert ráð fyrir samráði á milli eftirlitsstofnana ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með þessu megi segja að EFTA-ríkin innan EES hafi „fyrir sitt leyti viðurkennt mikilvægi hins nýja eftirlitskerfis ESB fyrir innri markaðinn og þar með einsleitnismarkmiðs EES-samningsins. Hins vegar hafi Evrópu­sambandið viðurkennt að við aðlögun þessa kerfis að EES-samningnum yrði að taka tillit til grunnreglna samningsins.“
    Með tillögunni fylgir álitsgerð Skúla Magnússonar, héraðsdómara og dósents við laga­deild Háskóla Íslands. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að framsal valdheimilda samkvæmt fyrirliggjandi tillögum um aðlögun reglugerða Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit að EES-samningnum myndi í heild sinni samræmast íslenskum stjórnarskipunarlögum.
    Sökum eðlis málsins og þeirra stjórnskipulegu álitamála sem hafa verið uppi var óskað umsagnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þennan þátt málsins. Umsögn hennar fylgir með áliti þessu en í því kemur m.a. fram að skiptar skoðanir séu í stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd um það hvort framsalið rúmist innan heimilda 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsakaði einnig sérstaklega heimildir ríkisins til að bregðast við neyðarástandi yrðu gerðirnar innleiddar í íslenskan rétt. Í umsögninni kemur fram að hún telji að lögfræðileg umgjörð málsins sé með þeim hætti að hún eigi ekki að tak­marka svigrúm löggjafans eða dómstóla til að grípa til allra þeirra aðgerða sem rúmast innan stjórnarskrár og teljast nauðsynlegar til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins á hættu­tímum. Telur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd brýnt að enginn vafi leiki á um þetta og að engin leið verði til að túlka upptöku gerðanna í innlendan rétt sem einhvers konar þrengingu á svigrúmi löggjafans eða innlendra dómstóla að þessu leyti. Tekur meiri hlutinn undir þessi sjónarmið og áskilnað stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að sérstök yfirlýsing verði gefin í sameiginlegu EES-nefndinni við upptöku gerðanna, sem útskýra þann skilning Íslands að innleiðing gerðanna í EES-samninginn hafi ekki áhrif á rétt EES-ríkjanna til að taka grund­vallarákvarðanir um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við kerfisvanda eins og gert var við bankahrunið árið 2008. Líkt og fram kemur í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur þegar verið haft samráð við utanríkisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið um útfærslu slíks texta og er samkomulag um endanlegt orðalag. Ekki er talið að slíkri yfirlýsingu verði mótmælt af hálfu annarra samningsaðila.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram koma í umsögn stjórnskipunar- og eftirlits­nefndar, sbr. fylgiskjal, og leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.
    Karl Garðarsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við af­greiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 16. september 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form., frsm.
Karl Garðarsson. Vilhjálmur Bjarnason.
Frosti Sigurjónsson. Elín Hirst. Óttarr Proppé.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Fylgiskjal.


Umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur að beiðni utanríkismálanefndar frá 10. maí sl. fjallað um þingsályktunar­tillöguna sem felur í sér að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og um að fella inn í samninginn níu gerðir og samning um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits.
    Eftirlitsstofnanirnar þrjár, Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA), Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin (EIOPA) og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA), lögbær eftirlitsstjórnvöld aðildarríkjanna og Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB), mynda þetta samræmda evrópska eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum. Kerfisumgjörð fyrir fjármálamarkað innan Evrópska efnahagssvæðisins er því í höndum evrópskra stofnana en daglegt eftirlit með fjármálastofnunum og aðilum á fjármálamarkaði er í höndum fjármála­eftirlita aðildarríkjanna.
    
Umfjöllun á fyrri stigum.
    Nefndin fékk málið fyrst til meðferðar frá utanríkismálanefnd 24. október 2012 með vísan til 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Með beiðninni fylgdu upplýsingar um stöðu málsins en þá lá fyrir álitsgerð Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar sem sögðu stjórnskipulega annmarka á upptöku gerðanna í EES-samninginn og að með upptöku regln­anna í EES-samninginn og innleiðingu þeirra hér á landi yrði gengið lengra í framsali ríkis­valds en áður hafði verið fallist á að rúmaðist innan 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í álitsgerðinni er gengið út frá því að reglugerðirnar um stofnanirnar þrjár geri ráð fyrir framsali fram­kvæmdarvalds og dómsvalds til stofnana ESB. Var talið að vald eftirlitsstofnananna væri hvorki vel afmarkað né á þröngu sviði enda tæki það í raun til hvers kyns starfsemi fjár­málafyrirtækja. EES/EFTA-ríkin gerðu því tillögu að tveggja stoða lausn 22. júní 2012 sem talið var að kæmi m.a. til móts við kröfur í fyrrnefndri álitsgerð en framkvæmdastjórn ESB hafnaði þeirri lausn með bréfi dags. 5. október 2012.
    Nefndin fjallaði þá um málið og átti sameiginlegan fund með utanríkismálanefnd 25. febrúar 2014 um EES-samninginn og stjórnarskrána. Á fundinn komu Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórn­skipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, Gunnar Þór Pétursson, dósent við Háskólann í Reykjavík, Þórhallur Vilhjálmsson frá lagaskrifstofu Alþingis, Páll Þórhallsson og Sif Guðjónsdóttir frá forsætisráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við umfjöllun málsins á yfirstandandi þingi fékk nefndin á sinn fund Kristján Andra Stefánsson og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti, Ernu Hjaltested, Kjartan Gunnarsson og Evu H. Baldursdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Skúla Magnús­son, héraðsdómara og lektor við Háskóla Íslands, Rúnar Örn Olsen og Pál Friðriksson frá Fjármálaeftirlitinu. Gestirnir kynntu þá lausn sem lögð er til í þingsályktunartillögunni sem byggist á samkomulagi um tveggja stoða kerfi EES-samningsins og felur í sér að allar bind­andi ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum þremur innan EES, Íslandi, Noregi og Liechten­stein verði teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Lögð var áhersla á að allar bindandi valdheimildir sem stofnanirnar hafa yfir að ráða eru ætlaðar til þrautavara auk þess sem þeim á að beita á grundvelli meðalhófs. Þá var á fundum nefndarinnar kynnt og rædd álitsgerð Skúla Magnússonar um stjórnskipu­legar heimildir til innleiðingar tiltekinna nýrra EES-gerða um fjármálaeftirlit.
    Fjallað var um málið á fjölmörgum fundum nefndarinnar, enda málið umfangsmikið og fjölmörg álitamál sem vöknuðu um stjórnskipulega stöðu þess. Við umfjöllun nefndarinnar var þess freistað að greina í hverju framsalið fælist en með gerðunum er kveðið á um framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds. Framsalið felst m.a. í því að Eftirlitsstofnun EFTA sér um að veita starfsleyfi til lánshæfismatsfyrirtækja, fer með viðurlagaheimildir, þ.e. álagningu dagsekta og stjórnvaldssekta, eftirlit, framkvæmd og rannsókn á þeim. Evrópsk eftirlits­stofnun getur tekið bindandi ákvarðanir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í neyðarástandi, sbr. 3. mgr. 18. gr. reglugerðanna, sem og gagnvart fyrirtækjum á markaði, sbr. 4. mgr. 18. gr. reglugerðanna. Heimilt er að banna tímabundið eða takmarka ákveðna fjármálastarfsemi, sbr. 5. mgr. 9. gr. reglugerðanna og beita fyrirtæki refsikenndum viðurlögum á því sviði. Þá verður EFTA-dómstólnum að vissu marki framselt dómsvald. Af þessu leiðir að meta þarf vandlega hvort framsalið rúmist innan þeirra marka sem 2. gr. stjórnarskrárinnar setur. Við það mat þarf að hafa í huga að þótt framsalið verði til stofnana EFTA á grundvelli tveggja stoða lausnar en ekki til stofnana ESB, sem Ísland á ekki aðild að, þarf engu að síður að taka afstöðu til þeirrar athugasemdar prófessoranna frá 2012 að reglugerðirnar um stofnanirnar þrjár geri ráð fyrir framsali framkvæmdarvalds og dómsvalds og að vald eftirlitsstofnananna sé hvorki vel afmarkað né á þröngu sviði enda taki það í raun til hvers kyns starfsemi fjármálafyrirtækja. Fyrir nefndinni kynnti Skúli Magnússon álitsgerð sína þar sem niðurstaða hans var sú að framsal valdheimilda samkvæmt fyrirliggjandi tillögum um aðlögun reglu­gerða Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit að EES-samningnum mundi í heild sinni samræmast íslenskum stjórnarskipunarlögum.

Svigrúm til framsals.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um hvort það framsal sem í gerðunum fælist rúmaðist innan venjuhelgaðrar reglu um að almenna löggjafanum væri heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli og á tilteknum forsendum til alþjóðastofnana. Við umfjöllun nefndar­innar var lögð áhersla á að fullvalda ríki hefði ætíð síðasta orðið um hvaða lög gilda á yfirráðasvæði þess. Þannig gæti ríkið ætíð afturkallað það framsal valds sem það hefur samþykkt en gæti með þeirri afturköllun talist brotlegt við þjóðréttarreglur og kallað yfir sig þjóðréttar­leg viðbrögð. Fyrir nefndinni var áréttað að ekki væri um framsal löggjafarvalds að ræða þó að framkvæmdastjórn ESB væri í gerðunum falið vald til að setja nánari reglur til fram­kvæmdar þeim því að ætíð þyrfti að taka þær upp í EES-samninginn eftir þeim reglum sem um það gilda og lögfesta þær hér.
    Skiptar skoðanir eru í nefndinni um hvort framsal það sem hér er kveðið á um rúmist innan heimilda 2. gr. stjórnarskrár. Sumir nefndarmenn telja að málið reyni á þanþol stjórnar­skrár hvað varðar fullveldisafsal og að þar reyni á ítrustu mörk en löggjafanum sé engu að síður heimilt að kveða á um slíkt framsal. Aðrir nefndarmenn telja að hér sé gengið lengra en 2. gr. stjórnarskrár leyfi og að framsalsákvæði þurfi í stjórnarskrá til að unnt verði að veita mfangsmikið framsal. Um þetta atriði mun fást pólitísk niðurstaða í atkvæðagreiðslu í þingsal en dómstólar eiga um það síðasta orðið.

Neyðarréttur.
    Nefndin fjallaði ítarlega um heimildir ríkisins til að bregðast við neyðarástandi og hvort upptaka evrópskra reglna um fjármálaeftirlit í EES-samninginn kynni að þrengja að rétti íslenskra stjórnvalda til að grípa til nauðsynlegra aðgerða í fjármálakreppu sambærilegum þeim sem fólust í setningu neyðarlaganna árið 2008. Í því samhengi voru viðraðar áhyggjur af því að nýjar skuldbindingar um samráð á alþjóðavettvangi í hættuástandi á fjármálamörk­uðum gætu takmarkað svigrúm stjórnvalda að þessu leyti. Í nýju gerðunum munu stofnanir ESB hafa í hendi sér að skilgreina hvenær neyðarástandi skuli lýst yfir og reynsla haustsins 2008 bendir til að við slíkar aðstæður geti Ísland hvorki reitt sig á skilning annarra EFTA- ríkja né ráðandi afla í evrópskum fjármálaheimi. Allt bendi til að við óvissuaðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum geti Ísland á nýjan leik verið fyrst EES-ríkja til að standa frammi fyrir alvarlegu fjármálaáfalli og engin leið sé að gera því skóna nú til hvaða aðgerða nauðsynlegt geti reynst að grípa ef slík staða kæmi upp. Nægir í því samhengi að nefna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og jafnt ESB og EFTA-ríkin töldu setningu neyðarlaganna haustið 2008 hið mesta óráð, þótt flest ríki hefðu örfáum misserum seinna tileinkað sér sömu aðferðafræði. Því væri afar brýnt að enginn vafi léki á að Ísland hefði áfram öll tök á að verja efnahagslegt fullveldi landsins í hættuástandi og grípa til hverra þeirra ráðstafana sem stjórnarskrá Íslands heimilar við slíkar aðstæður og væri ekki undirselt mati annarra á því hvernig það svigrúm væri nýtt. Nefndin taldi mikinn ágalla á málinu að ekki var fjallað um þennan þátt í greinargerð eða fylgigögnum. Nefndin fór því fram á frekari umfjöllun um þessa þætti af hálfu stjórnvalda sem og að settur yrði fram skýr rökstuðningur um af hverju nauðsynlegt væri fyrir Ísland að undirgangast þær skuldbindingar sem í málinu felast.
    Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og utanríkisráðu­neyti um hvert væri hugsanlegt tjón ef Ísland færi út af innri markaði Evrópusambandsins fyrir fjármálaþjónustu. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram að ráðuneytið hafi óskað eftir því að Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjármálafyrirtækja tækju saman svar við erindinu, þ.e. greindu það tjórn sem þessir aðilar telja að Ísland yrði fyrir ef IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta) yrði sagt upp. Í svarinu kemur fram að það sé sameiginlegt álit þessara aðila að uppsögn IX. viðauka, að svo miklu leyti sem slík uppsögn er framkvæmanleg án uppsagnar sjálfs EES-samningsins, muni leiða til hærri fjár­mögnunarkostnaðar á erlendum lánsfjármörkuðum, bæði fyrir atvinnulíf og stjórnvöld, sem leiða muni til hagvaxtasamdráttar og lakari lífskjara. Slík uppsögn mundi væntanlega einnig leiða til aukinnar fjármálalegrar óvissu, þrýstings á gengi gjaldmiðilsins, skertrar samkeppni og erfiðleika stjórnvalda (Seðlabanka og eftirlitsstjórnvalda) að eiga samstarf við sambærileg stjórnvöld erlendis.
    Í svörum fjármála- og efnahagsráðuneytis kom fram að heimildir til þess að grípa til öryggisráðstafana til að forðast eða lágmarka skaða sökum alvarlegrar fjármálakreppu teldust órjúfanlegur hluti af valdheimildum sérhvers fullvalda ríkis. Hefur þetta sjónarmið verið staðfest í niðurstöðu EFTA-dómstólsins í svonefndu Icesave-máli (mál E-16/11) þar sem því var slegið föstu að EES-ríkin nytu aukins svigrúms til að ákveða til hvaða úrræða skyldi gripið í málum sem vörðuðu grundvallaratriði við mörkun efnahagsstefnu við þær sérstöku aðstæður sem sköpuðust við fjármálakreppu. Í umræddum gerðum væri líka að finna mikil­vægan fyrirvara í 38. gr. við beitingu valdheimilda stofnananna þriggja, ESMA, EBA, EIOPA, sem skyldu gæta að því að engar ákvarðanir á grundvelli 18. og 19. gr. hefðu nei­kvæð áhrif á skyldur aðilarríkjanna varðandi ríkisfjármál (e. fiscal responsibilities). Ákvæðin gera ráð fyrir að með tilkynningu aðilarríkis innan tveggja vikna frá ákvörðun sé framkvæmd ákvörðunar frestað og tekur þá ákveðin málsmeðferð við sem getur lokið með því að ráð­herraráðið sem skipað er fulltrúum aðildarríkjanna getur fellt ákvörðun viðkomandi stofnunar úr gildi. Þá kom fram fyrir nefndinni að í evrópsku reglunum um fjármálaeftirlit er að ein­hverju leyti verið að taka upp þær reglur sem íslensk stjórnvöld settu með lögfestingu neyðarlaga sem nutu á þeim tíma ekki skilnings annarra ríkja, hvorki innan EES né ESB, þó að skilningur á þeim aðgerðum sem lögin fólu í sér hafi aukist eftir því sem frá leið eins og fyrr segir.
    Í þessu samhengi er einnig rétt að minna á að íslensk stjórnvöld hafa undir öllum kringum­stæðum heimild skv. 112. gr. EES-samningsins til að grípa einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr., sbr. einnig 43. gr., ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi.

Fyrirvari um svigrúm löggjafans og dómstóla.
    Nefndin telur eftir þessa umfjöllun að lögfræðileg umgjörð málsins sé ekki með þeim hætti að takmarka eigi svigrúm löggjafans eða dómstóla til að grípa til allra þeirra aðgerða sem rúmast innan stjórnarskrár og teljast nauðsynlegar til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins á hættutímum. Brýnt er að enginn vafi leiki á um það og að engin leið verði til að túlka upptöku gerðanna í innlendan rétt sem einhvers konar þrengingu á svigrúmi löggjafans eða innlendra dómstóla að þessu leyti. Nefndin hefur því gert áskilnað um að sérstök yfir­lýsing verði gefin í sameiginlegu EES-nefndinni við upptöku gerðanna, sem skýri þann skilning Íslands að innleiðingin hafi ekki áhrif á þann rétt EES-ríkis að taka grundvallar­ákvarðanir um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við kerfisvanda eins og gert var við bankahrunið árið 2008. Haft hefur verið samráð við utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti um útfærslu slíks texta og er samkomulag um endanlegt orðalag hans, sbr. fylgiskjal.
    Slík yfirlýsing af Íslands hálfu er réttarskýrandi fyrir innlenda dómstóla og mun kalla á gagnyfirlýsingar viðsemjenda ef efnislegur ágreiningur verður um þennan skilning Íslands á hinum alþjóðlega vettvangi.
    Nefndin telur að með fyrirvaranum sem lagður er til staðfesti íslensk stjórnvöld að þau líti á það sem eðlilegan rétt fullvalda ríkis að grípa til allra þeirra aðgerða sem stjórnvöld og löggjafinn telja nauðsynlegar til að bregðast við efnahagsvá.
    Ögmundur Jónasson, Elsa Lára Arnardóttir og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Birgitta Jónsdóttir og Árni Páll Árnason skrifa undir umsögnina með fyrirvara.

Alþingi, 14. september 2016.

Birgir Ármannsson, 1. varaform.
Birgitta Jónsdóttir, 2. varaform., með fyrirvara.
Brynjar Níelsson.
Páll Jóhann Pálsson.
Árni Páll Árnason, með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson.




Fskj.


Tillaga að orðalagi sérstakrar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda fyrir sameiginlegu EES-nefndinni.


    „Upon the incorporation of the Regulations on the European Supervisory Authorities into the EEA Agreement, Iceland underlines that the incorporation of these Regulations and the related Regulations and Directives does not affect the wide margin of discretion that the EEA States enjoy when making fundamental choices of economic policy in the specific event of a systemic crisis, such as the financial crisis of 2008.“