Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1675  —  681. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (evrópskar reglur um fjármálaeftirlit.).

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um nýjar evrópskar reglur um fjármálaeftirlit er gert ráð fyrir því að innan EFTA verði komið á yfirþjóðlegu fjármálaeftirliti, sambærilegu við það sem Evrópusambandið tekur nú upp, þannig að innan EFTA verði sama fyrirkomulag á fjármálaeftirliti og innan ESB. Þessi tilhögun er hluti af því regluverki sem innleitt hefur verið í kjölfar fjármálahrunsins.
    Aukin áhersla á regluverk er eðlileg, sérstaklega í ljósi þess að hluti af orsökum fjármála­kreppunnar liggur í þeirri afregluvæðingu sem átti sér stað í anda nýfrjálshyggjunnar og gekk út á að markaðurinn réði sér sjálfur. Hins vegar má spyrja hver raunveruleg áhrif regluverks­ins eru á gildi og menningu fjármálakerfisins og hvernig þeim verður best breytt. Það er stærri umræða sem ekki verður gerð grein fyrir hér en hlýtur að sjálfsögðu alltaf að vera undirliggjandi í allri umræðu um innleiðingar á regluverki sem lýtur að fjármálamarkaðinum.
    Innan þessa regluverks hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að tekið verði upp tveggja stoða kerfi, sambærilegt milli ESB og EFTA. Slík lausn hefur nú verið samþykkt í bæði Liechtenstein og Noregi, en rétt er að vekja athygli á því að í Noregi var innleiðingin metin sem meiri háttar framsal sem kallar á að aukinn meiri hluti þings, eða ¾ þingmanna, styðji innleiðinguna. Innleiðingin var samþykkt í Noregi 13. júní síðastliðinn með 136 atkvæðum gegn 29 (sem uppfyllti kröfuna um aukinn meiri hluta) eftir talsverða umræðu og átök um hvort gerðin fæli í sér of mikið framsal valdheimilda til yfirþjóðlegs valds.
    Í íslensku stjórnarskránni er ekkert ákvæði um það hvernig staðið skuli að framsali vald­heimilda. Sú stjórnarskrárnefnd sem hefur starfað á þessu kjörtímabili fjallaði hins vegar um hvort setja ætti slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Meðal annars segir í áfangaskýrslu nefndarinnar frá árinu 2014 að „þótt slík heimild hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála. Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunar­innar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar.“
    Fulltrúar stjórnarflokkanna lögðust á endanum gegn því að stjórnarskrárnefnd skilaði frá sér tillögu að ákvæði um hvernig skyldi standa að framsali valdheimilda á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu þrátt fyrir að þetta hafi verið talinn umtalsverður galli á íslensku stjórnarskránni. Þetta mál og hvernig um það hefur verið rætt, t.d. í Noregi, sýnir hins vegar berlega að þörf er á slíku ákvæði og skýrum farvegi þegar um er að ræða framsal vald­heimilda á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu.
    Þessu telur 1. minni hluti nauðsynlegt að halda til haga við afgreiðslu þessa máls þrátt fyrir almennan stuðning við það markmið að ná auknum tökum á regluverki fjármálamarkaðarins sem eðli málsins samkvæmt verður að vera með alþjóðlegu samstarfi í ljósi þess að Íslendingar eru hluti af alþjóðlegu viðskiptasamstarfi í gegnum EES-samninginn. Það er löngu tímabært að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána og tryggja þannig að slíkar ákvarðanir njóti stuðnings aukins meiri hluta þingmanna.
    Að lokum tekur 1. minni hluti undir þau sjónarmið sem skýrð eru í nefndaráliti stjórn­skipunar- og eftirlitsnefndar um heimildir stjórnvalda til að bregðast við neyðarástandi og verja efnahagslegt sjálfstæði landsins á hættutímum og að sérstök yfirlýsing verði gefin í sameiginlegu EES-nefndinni við upptöku gerðanna sem skýri þann skilning Íslands að þessi innleiðingin hafi ekki áhrif á þann rétt EES-ríkjanna að taka grundvallarákvarðanir um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við kerfisvanda.

Alþingi, 19. september 2016.

Katrín Jakobsdóttir.