Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1691  —  657. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
með síðari breytingum
(gjafsókn).

(Eftir 2. umræðu, 20. september.)


1. gr.


    2.–4. mgr. 125. gr. laganna orðast svo:
    2. Umsókn um gjafsókn skal beint til sýslumanns. Í henni skal greint skýrlega frá máli sem hún varðar og rökstutt hvernig skilyrðum fyrir gjafsókn sé fullnægt. Umsókn skulu fylgja gögn eftir þörfum. Umsókn skal leggja fram tímanlega og eigi síðar en sex vikum fyrir aðal­meðferð máls. Víkja má frá framangreindu tímaskilyrði þegar um er að ræða kærumál til Hæstaréttar eða mál sem sæta flýtimeðferð. Skal niðurstaða sýslumanns að jafnaði liggja fyrir áður en aðalmeðferð í máli fer fram. Heimilt er að vísa frá umsókn um gjafsókn sem berst þegar skemmri tími en sex vikur eru í aðalmeðferð þegar ljóst er að tími gefst ekki til að ljúka meðferð umsóknar fyrir aðalmeðferð máls.
    3. Sýslumaður veitir gjafsókn eftir umsókn aðila að uppfylltum skilyrðum 126. gr.
    4. Ráðherra getur í reglugerð falið einum sýslumanni að sinna verkefnum sýslumanna samkvæmt þessum kafla á landsvísu.

2. gr.

    1. og 2. mgr. 126. gr. laganna orðast svo:
    1. Einstaklingi má veita gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfð­unar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.
    2. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, hvenær eðlilegt er að gjafsókn sé kostuð af almannafé, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

3. gr.

    2. mgr. 127. gr. laganna orðast svo:
    2. Dómstólar taka ákvörðun um þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa sé hún ekki undan­skilin gjafsókn sem og um kostnað umboðsmanns af rekstri málsins. Takist sátt í máli ákveður dómari þóknun umboðsmanns og kostnað umboðsmanns af rekstri málsins með úrskurði. Sýslumaður tekur að öðru leyti ákvörðun um málskostnað gjafsóknarhafa af máli. Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður tekið ákvörðun um þóknun og annan kostnað umboðsmanns gjafsóknarhafa í máli. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um greiðslu kostnaðar í slíkum tilvikum, þar á meðal um fjárhæð þóknunar til umboðsmanns gjafsóknarhafa og tímagjald vegna vinnu hans.

4. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. 128. gr. laganna kemur: Sýslumaður.

5. gr.

    Á eftir 128. gr. laganna kemur ný grein, 128. gr. a, svohljóðandi:
    1. Ákvörðun sýslumanns um gjafsókn og kostnað vegna máls er nýtur gjafsóknar er kæranleg til gjafsóknarnefndar.
    2. Ráðherra skipar gjafsóknarnefnd til fjögurra ára í senn. Gjafsóknarnefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og eru ákvarðanir nefndarinnar endanlegar á stjórnsýslustigi. Nefndin skal skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara. Lögmannafélag Íslands, Dómarafélag Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands tilnefna einn mann hver. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Allir nefndarmenn skulu uppfylla skilyrði til þess að vera skipaðir héraðsdómarar. Ráð­herra skipar nefndinni formann úr hópi nefndarmanna.
    3. Kæra til gjafsóknarnefndar skal borin fram innan þriggja vikna frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns. Gjafsóknarnefnd skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að henni berst kæra. Um málsmeðferð fyrir gjafsóknarnefnd fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    4. Nefndarmönnum í gjafsóknarnefnd ber að gæta þagmælsku um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi og leynt eiga að fara vegna lögmæltra almanna- eða einkahagsmuna. Þag­mælska helst þótt látið sé af setu í nefndinni.
    5. Ráðherra getur kveðið nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar í reglugerð.

6. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. febrúar 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Lög þessi taka til umsókna um gjafsókn sem borist hafa ráðuneytinu fyrir gildistöku laga þessara en hafa ekki fyrir þann tíma verið sendar gjafsóknarnefnd til umsagnar og skal ráðuneytið senda þær sýslumanni til meðferðar. Málum sem ólokið er hjá gjafsóknarnefnd við gildistöku laga þessara skal lokið á grundvelli eldri reglna og er ráðherra heimilt að gefa út gjafsóknarleyfi eða eftir atvikum synja um gjafsókn í þeim málum á grundvelli umsagnar gjafsóknarnefndar.
    Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun þeirra sem nú eru í gjafsóknarnefnd.