Ferill 883. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1712  —  883. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (staða stofnframlaga).

Frá velferðarnefnd.


1. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur veitt undan­þágu frá lágmarksfjölda fulltrúa í fulltrúaráði þegar um húsnæðissjálfseignarstofnun með færri en tíu íbúðir er að ræða.

2. gr.

    4. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 15. gr. a og 15. gr. b, ásamt fyrirsögnum, sem orðast svo:

    a. (15. gr. a.)

Staða stofnframlaga hjá sveitarfélögum.

    Stofnframlög sem sveitarfélög fá frá ríkinu vegna almennra íbúða og krafist er endur­greiðslu á skulu sveitarfélög færa sem eignarhlut ríkisins vegna viðkomandi íbúða og skal eignarhluturinn bókaður á nafnverði innborgaðs stofnframlags ríkisins. Rekstur almennra íbúða og stofnframlög ríkisins sem krafist er endurgreiðslu á skulu færð í sérstaka rekstrar­einingu í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélags, sem skal vera aðgreind frá annarri starf­semi sveitarfélagsins.
    Stofnframlög sveitarfélags vegna almennra íbúða þess skal færa meðal eiginfjár viðkom­andi rekstrareiningar.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal sveitarfélagið hafa af eigninni allar tekjur og bera allan kostnað vegna rekstrar hennar og fjármögnunar umfram stofnframlög.

    b. (15. gr. b.)

Staða stofnframlaga hjá sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnurekstur.

    Sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur og uppfyllir skilyrði 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. skal færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga sem stofnfé meðal eiginfjárliða, sbr. III. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, aðgreint frá stofnfé stofnaðila.
    Ef skilyrði er sett um endurgreiðslu stofnframlaga við veitingu stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga skal sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur færa stofnframlagið sem skilyrt stofnfé meðal eiginfjárliða, sbr. III. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda at­vinnurekstur, nr. 33/1999.
    Stjórn endurgreiðir skilyrt stofnfé sjálfseignarstofnunar sem stundar atvinnurekstur á grundvelli 1.–3. mgr. 16. gr. séu skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, uppfyllt.

4. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr.“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 3. mgr.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum fellur brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu, sem lagt er fram í samræmi við ákvæði IV til bráðabirgða með lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir, er lagt til að 4. mgr. 15. gr. laganna verði felld brott og í stað hennar komi tvær nýjar greinar sem kveða á um stöðu stofnframlaga annars vegar hjá sveitarfélögum og hins vegar hjá sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnurekstur. Miða framangreindar breytingar að því að sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri og félög sem eru í eigu sveitarfélaga og falla undir lögin geti notið sama hagræðis og mælt er fyrir um varð­andi stofnframlög sem veitt eru til húsnæðissjálfseignarstofnana (skilyrt stofnfé/eignarhlutur í íbúðum).

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ákvæði 4. mgr. 15. gr. gildandi laga voru lögfest að tillögu velferðarnefndar sem lagði til að ákvæðinu yrði bætt við lögin milli 2. og 3. umræðu um frumvarp það er varð að lögum um almennar íbúðir. Í nefndaráliti segir að Alþýðusamband Íslands, Reykjavíkurborg og Sam­band íslenskra sveitarfélaga, í samráði við velferðarráðuneyti, hafi í sameiningu lagt fyrir nefndina tillögu að lagagrein sem feli í sér að húsnæðissjálfseignarstofnanir bókfæri stofn­framlög, sem veitt væru með skilyrði um endurgreiðslu, sem svonefnt skilyrt stofnfé. Þegar til endurgreiðslu kæmi yrði féð innleyst með útgáfu skuldabréfs. Með því móti mundu fram­lögin teljast til eigin fjár hjá húsnæðissjálfseignarstofnunum, en jafnframt gætu sveitarfélög fært þau til eignar.
    Um 4. mgr. 15. gr. segir í nefndarálitinu að þar sé sveitarfélögum og lögaðilum skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. heimilað að færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga með sambærilegum hætti samkvæmt nánari útfærslu í reglugerð. Segir að hugsanlega þurfi að breyta öðrum lögum til að markmið málsgreinarinnar náist, en að ekki sé ljóst hvaða breyt­ingar þurfi að gera. Nefndin lagði því til að bráðabirgðaákvæði yrði bætt við lögin þar sem ráðherra væri falið að láta undirbúa tillögur að lagabreytingum ef þeirra gerðist þörf.
    Eftir samþykkt laganna kom í ljós að ekki væri mögulegt að útfæra ákvæði 4. mgr. 15. gr. nánar í reglugerð heldur væri nauðsynlegt að gera breytingar á lögum til að ná markmiði ákvæðisins. Er frumvarp þetta lagt fram í því skyni að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæð­um laga um almennar íbúðir til að sveitarfélögum og lögaðilum alfarið í eigu sveitarfélaga, lögaðilum sem voru starfandi við gildistöku laganna og uppfylltu skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði samkvæmt þágildandi 37. gr. laga um húsnæðismál og aðilum sem fengið hafa sérstakt leyfi ráðherra til að fá stofnframlög sé heimilt að færa stofnframlög ríkis og sveitar­félaga sem stofnfé meðal eiginfjárliða, sem skilyrt stofnfé eða sem eignarhlut í fasteign.
    Málið var unnið í sumar í ráðuneytinu og var leitað leiða til að mæla fyrir um að hluta­félög og einkahlutafélög gætu notið sambærilegs hagræðis. Niðurstaðan varð að ekki væri hægt að mæla fyrir um sambærilegar breytingar hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum og gilda um sjálfseignarstofnanir. Mögulegt er að mæla fyrir um að þeir sem veita stofnframlög eignist eignarhluti í íbúðunum, en ekki er vilji fyrir því hjá ríkinu.
    Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að mæla fyrir um að stofnframlög myndi stofnfé í hluta­félögum og einkahlutafélögum er sú að þegar stofnframlag er veitt er búið að stofna félagið og greiða fyrir hluti þess. Til að mögulegt væri að færa stofnframlag sem stofnfé þyrfti að auka hlutafé félagsins, t.d. þannig að gefinn væri út sérstakur hlutabréfaflokkur sem væri þá með öðrum réttindum en hefðbundið hlutafé.
    Ekki verður einfalt að mæla fyrir um þetta í lögum og var því tekin sú ákvörðun að leggja ekki til breytingar hvað varða hlutafélög. Var það gert í samráði við atvinnuvega- og nýsköp­unarráðuneytið, en sérfræðingar þess voru sammála niðurstöðu velferðarráðuneytis. Því er lagt til að um hlutafélög gildi ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, eftir atvikum svo að hægt sé að kveða á um að stofnframlög myndi sérstakan hlutabréfaflokk samkvæmt ákvæðum laganna. Hægt er innan ramma laganna að kveða á um að sá flokkur hafi annars konar réttindi og skyldur en hefðbundið hlutafé og að félagið sé skyldugt til að kaupa aftur hlutinn að til­teknum tíma liðnum og að kaupverðið sé bundið ákveðnu hlutfalli af virði tiltekinnar fast­eignar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá 12 manna lágmarki í fulltrúa­ráði þegar um er að ræða húsnæðissjálfseignarstofnun með færri en tíu íbúðir. Er það komið til vegna ábendinga frá minni sveitarfélögum sem eiga erfitt með að manna 12 manna ráð sökum fámennis.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði 4. mgr. 15. gr. falli brott í ljósi tillagna sem fram koma í 3. gr. frum­varpsins.

Um 3. gr.

     Um a-lið.
    Til samræmis við ákvæði 15. gr. um stöðu stofnframlaga hjá húsnæðissamvinnufélögum er lagt til að lögfest verði ákvæði um stöðu stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga hjá sveitar­félögum.
    Lagt er til að sveitarfélög skuli færa stofnframlög frá ríkinu sem krafist er endurgreiðslu á sem eignarhlut ríkisins í viðkomandi íbúð. Gert er ráð fyrir að eignarhlutföll viðkomandi íbúða verði í samræmi við hlutfall stofnframlags af stofnvirði íbúðar.
    Einnig er lagt til að mælt verði fyrir um það hvernig sveitarfélög skuli færa stofnframlög ríkisins vegna almennra íbúða í reikninga sína. Gert er ráð fyrir því að í reikningsskilum aðal­eiganda almennra íbúða verði stofnframlög ríkis og sveitarfélaga færð til lækkunar á stofn­verði eignanna. Þar með yrði hlutdeild aðaleiganda í byggingarkostnaði færð til eignar í efna­hagsreikningi en eingöngu fjármögnun aðaleiganda sem eigið fé (stofnframlög aðaleiganda) og sem skuldir (lánsfjármögnun). Er þessi aðferð þekkt í reikningsskilum og er t.d. sambærileg við þá aðferð sem beitt er þegar sveitarfélag fær stofnframlög til framkvæmda á vegum sveitarfélagsins, t.d. vegna ofanflóðavarna og hafnarframkvæmda, en slík framlög eru al­mennt færð til lækkunar á framkvæmdakostnaði.
    Þá er lagt til að kveðið sé skýrt á um það að þrátt fyrir eignarhald ríkisins á hluta íbúðar verði sveitarfélag skilgreindur umráðandi íbúðarinnar. Er gert ráð fyrir að sveitarfélag beri allan rekstrarkostnað og kostnað af fjármögnun umfram stofnframlög og fái einnig allar tekjur af íbúðinni.
     Um b-lið.
    Í ákvæðinu er lagt til að sömu reglur gildi um stöðu stofnframlaga hjá sjálfseignarstofnun­um, sem stunda atvinnurekstur og uppfylla skilyrði 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. laganna um almennar íbúðir, og gilda um stöðu stofnframlaga hjá húsnæðissjálfseignarstofnunum skv. 15. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er einungis verið að leiðrétta ranga lagatilvísun í lögunum, þ.e. að vísað sé í 3. mgr. 10. gr. í stað 2. mgr. 10. gr. laganna.

Um 5. og 6. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.