Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1717  —  384. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (erlend lán, varúðarreglur).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (BN, SÁA, VilB).


    Á eftir 10. gr. komi ný grein sem orðist svo:
    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.

    Lánveitandi skal tvisvar á ári upplýsa lántaka, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um gengisbreytingar láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum og alltaf þegar eftirstöðvar láns eða reglulegar endurgreiðslur breytast um meira en 20% frá því sem þær hefðu verið miðað við það gengi sem fram kemur í lánasamningi.
    Í ábendingu skv. 1. mgr. skal koma fram, eftir því sem við á:
     1.      Breyting á reglulegum endurgreiðslum og heildarfjárhæð sem neytandi skal greiða.
     2.      Upplýsingar um rétt eða skyldu neytanda til að breyta eftirstöðvum lánsins í annan gjaldmiðil við tilteknar aðstæður.
     3.      Upplýsingar um tryggingar eða aðrar varnir, sbr. c-lið 10. gr. a, sem neytandi hefur lagt fram.
    Neytandi sem stóðst greiðslumat skv. b-lið 10. gr. a, skal eiga rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í annan gjaldmiðil hafi eftirstöðvar láns eða reglulegar endurgreiðslur hækkað um 30% eða meira á síðastliðnum fimm árum. Sé ekki mælt fyrir á annan veg í lánasamningi skal miða við nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands.
    Í lánasamningi skal skilgreina eftirfarandi gjaldmiðla, einn eða fleiri sem annan gjaldmiðil skv. 3. mgr.:
     1.      Gjaldmiðil sem neytandi fær meiri hluta tekna sinna í samkvæmt greiðslumati.
     2.      Gjaldmiðil þess ríkis þar sem neytandi er búsettur.
     3.      Gjaldmiðil þess ríkis þar sem neytandi var búsettur á þeim tíma þegar lánið var veitt.
    Neytandi skal upplýstur um rétt sinn samkvæmt þessari grein í lánasamningi.