Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1719  —  384. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (erlend lán, varúðarreglur).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (FSigurj, LínS, WÞÞ, KJak, VBj).


     1.      Í stað orðsins „lántaki“ í ii. lið h-liðar 6. gr. komi: neytandi.
     2.      Við 8. gr.
                  a.      B-liður orðist svo: hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum og leggur fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til tryggingar láninu, eða.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Greiðslumat lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
     3.      Á eftir 9. gr. komi ný grein sem orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
                  a.      1. mgr. orðast svo:
                      Til þess að tryggja að neytandi sé upplýstur um hvernig þróun höfuðstóls og greiðslubyrði hefur verið skal lánveitandi, áður en samningur sem kveður á um verð­tryggingu, breytilega vexti eða tengingu við erlendan gjaldmiðil er gerður, veita upp­lýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um sögulega þróun verðlags, vaxta og gengis viðkomandi gjaldmiðils og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að ræða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt lán að ræða eða lán tengt erlendum gjaldmiðli. Lánveitandi skal einnig veita upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár fyrir gerð samnings. Sé um verðtryggðan lánssamning að ræða skal lánveitandi, til viðbótar við reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu, sbr. i-lið 2. mgr. 12. gr., láta neytanda í té niðurgreiðslutöflu þar sem miðað er við meðaltal ársverðbólgu síðustu 10 ár fyrir gerð samnings.
                  b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Neytendastofa skal einnig birta opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um áhrif gengisbreytinga á greiðslubyrði lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
     4.      Á eftir 10. gr. komi ný grein sem orðist svo:
                 Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.

                 Neytandi skal jafnan eiga rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í krónur. Lánveitandi skal tvisvar á ári kanna hvort neytandi uppfylli skil­yrði 10. gr. a. Komi í ljós að neytandi uppfylli ekki lengur skilyrði 10. gr. a skal eftir­stöðvum láns breytt í krónur. Sé ekki mælt fyrir á annan veg í lánssamningi skal við um­breytingu láns miða við nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands.