Ferill 665. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1734  —  665. mál.




Frumvarp til laga



um opinber innkaup.

(Eftir 2. umræðu, 29. september.)


    Samhljóða þskj. 1093 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo, ásamt fyrirsögn:

Orðskýringar.


    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Almennt útboð: Innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur lagt fram tilboð.
     2.      Bjóðandi: Fyrirtæki sem lagt hefur fram tilboð.
     3.      Fyrirtæki: Samheiti, notað til einföldunar, yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjón­ustu án tillits til rekstrarforms.
     4.      Gagnvirkt innkaupakerfi: Rafrænt ferli við algeng innkaup sem mögulegt er að gera á almennum markaði þannig að kröfum kaupanda sé fullnægt, enda sé ferlið tímabundið og, meðan á því stendur, opið öllum fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku í kerfinu og lagt hafa fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
     5.      Hönnunarsamkeppni: Ferli sem gerir kaupanda kleift að afla áætlunar eða hönnunar, einkum á sviði skipulagsmála, húsagerðarlistar og verkfræði eða gagnavinnslu, sem valin hefur verið af dómnefnd eftir samkeppni sem farið hefur fram með eða án verð­launa.
     6.      Innanhússsamningar: Samningar sem gerðir eru milli opinberra aðila, sbr. 13. gr.
     7.      Kröfur sem liggja að baki merki: Þær kröfur sem tiltekin verk, vörur, þjónusta, ferli eða málsmeðferðir þurfa að uppfylla til að fá viðkomandi merki.
     8.      Lokað útboð: Innkaupaferli þar sem aðeins þau fyrirtæki sem valin hafa verið af kaupanda geta lagt fram tilboð en hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í.
     9.      Merki: Hvers konar skjal, vottorð eða staðfesting um að tiltekin verk, vörur, þjónusta, ferli eða málsmeðferðir fullnægi tilteknum kröfum.
     10.      Miðlæg innkaupastofnun: Opinber aðili skv. 3. gr. sem aðstoðar aðra opinbera aðila við innkaup, aflar vöru eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gerir verksamninga eða rammasamninga um verk, vörur eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum.
     11.      Nýsköpun: Þróun nýrrar eða verulega bættrar vöru, þjónustu eða ferlis, svo sem við framleiðsluferli, byggingarferli, nýja markaðssetningaraðferð eða nýja skipulagsaðferð í viðskiptaháttum, skipulagi vinnustaða eða ytri samskiptum, m.a. í þeim tilgangi að hjálpa til við að takast á við samfélagsleg verkefni eða styðja við áætlanir um sjálfbæran hagvöxt.
     12.      Nýsköpunarsamstarf: Innkaupaferli sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í og felur í sér að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til að taka þátt í ferlinu, með það að markmiði að þróa nýsköpunarvöru, -þjónustu eða -verk.
     13.      Opinber aðili eða kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök og aðrir opinberir aðilar skv. 3. gr.
     14.      Opinberir samningar: Allir samningar sem falla undir 1. mgr. 4. gr., þ.m.t. innkaupaferli með hönnunarsamkeppni og nýsköpunarsamstarfi.
     15.      Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna (þar á meðal með stafrænni samþjöppun) og geyma gögn sem eru send, er miðlað og tekið við með rafþræði, útvarpi, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     16.      Rafrænt uppboð: Endurtekið ferli þar sem ný og lægri verð, og/eða ný verðgildi fyrir ákveðin atriði í tilboðum, eru sett fram með rafrænum aðferðum, eftir að kaupandi hefur tekið fulla afstöðu til þeirra í upphafi, þannig að unnt er að meta þau með sjálfvirkum aðferðum.
     17.      Rammasamningur: Samningur sem einn eða fleiri kaupendur gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum helstu skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn.
     18.      Ritaður eða skriflegur: Hvers konar tjáning sem samanstendur af orðum eða tölum sem lesa má, kalla má fram og miðla, þar á meðal upplýsingar sem miðlað er og varðveittar eru með rafrænum aðferðum.
     19.      Samkeppnisútboð: Innkaupaferli með samningsviðræðum þar sem kaupandi setur fram lágmarkskröfur í upphafi. Hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í innkaupa­ferlinu og felst í því að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til þátttöku, með það að markmiði að laga tilboð að kröfum hans, enda séu þessar kröfur lagðar til grundvallar þegar þátttakendum er boðið að leggja fram tilboð.
     20.      Samkeppnisviðræður: Innkaupaferli sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í og felst í því að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til að taka þátt í ferlinu, með það að markmiði að þróa einn eða fleiri valkosti sem mætt geta kröfum hans, enda séu þessar kröfur lagðar til grundvallar þegar þátttakendum er boðið að leggja fram tilboð.
     21.      Samningskaup: Þegar kaupandi ræðir við fyrirtæki sem hann hefur valið samkvæmt fyrir fram ákveðnu ferli og semur um skilmála samnings við eitt eða fleiri fyrirtæki.
     22.      Sérleyfissamningur: Verk- eða þjónustusamningur þar sem endurgjald fyrir verk eða þjónustu felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér verkið eða þjónustuna eða í rétti til að nýta sér verkið eða þjónustuna ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
     23.      Tilskipun um gerð sérleyfissamninga: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/23/ ESB frá 26. febrúar 2014 um gerð sérleyfissamninga eins og hún er tekin upp í EES- samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     24.      Tilskipunin (útboðstilskipunin): Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB um opinber innkaup frá 26. febrúar 2014, eins og hún er tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     25.      Útboðsauglýsing: Opinber auglýsing á hvers konar innkaupaferli samkvæmt lögum þessum.
     26.      Útboðsgögn: Skjöl sem kaupandi lætur í té eða vísar til, til þess að lýsa eða ákvarða þætti útboðs, þ.m.t. tilkynningar, tæknilýsingar, skýringargögn, fyrirhuguð skilyrði samnings, form fyrir framlagningu fyrirtækja á skjölum, upplýsingar um þær skyldur sem almennt gilda og viðbótarskjöl ef einhver eru. Í lögum þessum er orðið útboðsgögn einnig notað um boð um að staðfesta áhuga og efni útboðstilkynninga.
     27.      Veitutilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu eins og hún er tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     28.      Verksamningar eða opinberir verksamningar: Allir samningar sem falla undir 2. mgr. 4. gr.
     29.      Verktaki, seljandi vöru og veitandi þjónustu: Einstaklingur eða lögaðili, þar á meðal opinberir aðilar, eða hópur slíkra einstaklinga og/eða aðila sem bjóða fram á markaði framkvæmd verks, vöru og/eða þjónustu.
     30.      Viðmiðunarfjárhæðir: Fjárhæðir sem ákvarða hvenær innkaup eru útboðsskyld. Innkaup sem eru yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr. 23. gr. ber að bjóða út innan lands. Innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu skv. 4. mgr. 23. gr. ber að bjóða út á öllu efnahagssvæðinu. Þá eru viðmiðunarfjárhæðir útboðs­skyldu mismunandi eftir tegundum innkaupa.
     31.      Vistferill: Öll samfelld eða samtengd stig í tilveru vöru, þjónustu eða verkframkvæmdar frá öflun hráefnis eða framleiðslu á aðföngum fram að förgun, rýmingu eða lokum þjón­ustu eða notkunar. Þar með teljast rannsóknir og þróun, framleiðsla, viðskipti og skil­málar þeirra, flutningur, notkun og viðhald.
     32.      Vörusamningar eða opinberir vörusamningar: Allir samningar sem falla undir 3. mgr. 4. gr.
     33.      Þátttakandi: Fyrirtæki sem leitar eftir því eða hefur verið boðið að taka þátt í lokuðu út­boði, samkeppnisútboði, samningskaupum, samkeppnisviðræðum eða nýsköpunarsam­starfi.
     34.      Þjónustusamningar eða opinberir þjónustusamningar: Allir samningar sem falla undir 4. mgr. 4. gr.
     35.      Örútboð: Innkaupaferli þar sem kaupandi leitar, með hæfilegum fyrirvara, skriflegra tilboða meðal rammasamningshafa sem efnt geta samning á grundvelli hlutlægra við­miðana sem koma fram í útboðsskilmálum rammasamningsins.

    20. gr. hljóðar svo, ásamt fyrirsögn:

Innkaup í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins.


    Kaupanda er heimilt að nota miðstýrða innkaupastarfsemi í öðru ríki Evrópska efnahags­svæðisins til að bjóða út innkaup á vöru eða þjónustu sem falla undir lög þessi. Ríkiskaupum er einnig heimilt að bjóða út innkaup, sem falla undir lög þessi, í öðru ríki Evrópska efna­hagssvæðisins, í samstarfi við erlenda kaupendur, samtök þeirra eða fulltrúa, eða miðlægar innkaupastofnanir.
    Samkeppniseftirlitinu skal tilkynnt um fyrirhuguð innkaup ásamt rökstuðningi fyrir beit­ingu heimildar skv. 1. mgr. Með rökstuðningnum skal fylgja samkeppnismat í samræmi við leiðbeiningar Ríkiskaupa. Samkeppniseftirlitið skal veita álit sitt á matinu og taka þar með afstöðu til þess hvort útboðið sé til þess fallið að raska samkeppni á innlendum markaði. Álitið hefur ekki áhrif á útboðsferlið. Kaupandi getur lokið útboði óháð niðurstöðu Sam­keppniseftirlitsins. Afhenda skal afrit af samningi í kjölfar útboðs sé óskað eftir því.
    Um innkaup sem fara fram á grundvelli þessa ákvæðis gilda reglur viðkomandi ríkis, þar á meðal um kærur, gildi innkaupsákvarðana og skaðabætur.

    50. gr. hljóðar svo, ásamt fyrirsögn:

Merki.


    Kaupanda sem hyggst kaupa verk, vöru eða þjónustu með sérstökum umhverfis- eða félagslegum eiginleikum er heimilt að krefjast sérstaks merkis til sönnunar um að tilheyrandi kröfum sé fullnægt. Kaupandi getur farið fram á kröfur um sérstaka umhverfis- eða félags­lega eiginleika í tæknilýsingum, forsendum fyrir vali tilboðs eða skilyrðum varðandi fram­kvæmd samnings enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     a.      Að kröfur sem liggja til grundvallar merki varði einungis viðmiðanir sem tengjast efni samnings og séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika verka, vöru eða þjónustu sem samningur fjallar um.
     b.      Að kröfur sem liggja til grundvallar merki byggist á hlutlægt sannprófanlegum við­miðunum án mismununar.
     c.      Að merki sé stofnað á grundvelli opinnar og gagnsærrar málsmeðferðar sem allir sem eiga hagsmuna að gæta, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, aðilar vinnumarkaðarins, framleiðendur, dreifingaraðilar og önnur félagasamtök, geta tekið þátt í.
     d.      Að merki sé aðgengilegt öllum hlutaðeigandi aðilum.
     e.      Að kröfur sem liggja til grundvallar merki séu settar af þriðja aðila sem fyrirtæki, sem sækir um merkið, getur ekki haft afgerandi áhrif á.
    Fari kaupandi ekki fram á að verk, vara eða þjónusta uppfylli allar kröfur sem liggja til grundvallar merki skal hann tilgreina hvaða kröfur þarf að uppfylla í útboðsskilmálum. Sam­þykkja ber öll merki sem staðfesta að verk, vara eða þjónusta uppfylli jafngildar kröfur.
    Hafi fyrirtæki bersýnilega ekki haft möguleika á að afla sér merkis sem kaupandi til­greinir, innan tiltekins frests, af ástæðum sem ekki verða raktar til fyrirtækisins, skal kaup­andi samþykkja önnur viðeigandi sönnunargögn. Skilyrði er að fyrirtæki sýni fram á að verkið, varan eða þjónustan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til merkis eða þær kröfur sem kaupandi hefur tilgreint í útboðsskilmálum.
    Uppfylli merki skilyrði sem kveðið er á um í b-, c-, d- og e-lið 1. mgr. en taki einnig til krafna sem tengjast ekki efni samnings skal kaupandi ekki krefjast merkisins sem slíks. Kaupanda er þó heimilt að setja fram tæknilýsingu með tilvísun til forskrifta merkisins eða, ef nauðsyn krefur, hluta þeirra, sem tengjast eða eru til þess fallnar að skilgreina efni samn­ingsins.

    105. gr. hljóðar svo, ásamt fyrirsögn:

Málskotsréttur.


    Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þau fyrirtæki sem njóta réttinda sam­kvæmt lögum þessum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Einnig hafa félög eða samtök fyrirtækja heimild til að skjóta málum til nefndarinnar, enda samræmist það tilgangi þeirra að gæta slíkra hagsmuna.
    Þegar um er að ræða ætlað brot gegn skyldu til að nota lögákveðið innkaupaferli eða auglýsa innkaup eru lögvarðir hagsmunir þó ekki skilyrði kæru. Ráðherra er einnig heimil kæra vegna slíkra brota án tillits til lögvarinna hagsmuna.
    Heimilt er kæranda að framselja kæruheimild sína til félags eða samtaka sem gæta hags­muna hans.