Ferill 826. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1743  —  826. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum (losun fjármagnshafta).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og leggur til nokkrar viðbótar­breytingar á frumvarpinu. Þeim er m.a. ætlað að auka skýrleika laganna og auðvelda þannig beitingu þeirra í framkvæmd. Þá eru lagðar til breytingar á heimildum Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar á grundvelli laga um gjaldeyrismál auk þess sem lagt er til að Seðla­bankanum verði veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir fari innlendir lögaðilar ekki að þeirri skyldu að tilkynna um tiltekin gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins að tilvísun til reiðufjárúttektar skv. 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. c falli brott. Telur nefndin að með því verði gert skýrara að undir töluliðinn falli eingöngu úttektir í reiðufé þegar annar aðilinn er inn­lendur og hinn erlendur, þ.e. ákvæðið eigi við fjármagnshreyfingar á milli landa.
    Í öðru lagi leggur nefndin til að í stað 4. og 5. málsl. a-liðar 2. gr. frumvarpsins komi fjórir nýir málsliðir. Breytingunni er ætlað að draga fram með skýrum hætti að kaup á reiðufé og úttektir á reiðufé í erlendum gjaldeyri hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi teljist ekki fjár­magnshreyfing á milli landa nema þegar um er að ræða erlendan viðskiptavin. Jafnframt er breytingunni ætlað að gera skýrt að kaup eða úttekt á reiðufé í erlendum gjaldeyri hjá fjár­málafyrirtækjum hér á landi dragist frá heimild (fjárhæðarmarki) skv. 6. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Breytingunni er einnig ætlað að tryggja að kaup eða úttekt á gjaldeyri til fyrir­framgreiðslu og uppgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri sem veitt hafa verið af innlendu fjár­málafyrirtæki sé aðeins heimil séu skilyrði a–d-liðar 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins upp­fyllt.
    Í þriðja lagi er lagt til að kveðið sé á um tilkynningarskyldu innlendra aðila vegna gjald­eyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa í c-lið 12. gr. frumvarpsins með skýrari hætti í stað þess að kveðið sé á um hana með almennum hætti og hún síðan takmörkuð við ákveðna aðila og viðskipti eins og til stóð að gera með reglum Seðlabankans.
    Fyrir nefndinni kom fram að frá setningu fjármagnshafta haustið 2008 hafa innlend fjár­málafyrirtæki veitt Seðlabankanum upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyf­ingar á milli landa sem þau eiga fyrir eigin hönd eða viðskiptamanna sinna á grundvelli nú­verandi heimilda Seðlabankans til upplýsingaöflunar. Með breytingunni er lögð til tilkynn­ingarskylda þannig að Seðlabankanum verði tryggðar upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar innlendra lögaðila á milli landa sem ekki eiga sér stað fyrir milligöngu innlendra fjármálafyrirtækja og þ.a.l. torsótt að kalla eftir. Lagt er til að tilkynna beri um öll slík afleiðuviðskipti á milli innlendra og erlendra aðila en að öðru leyti er skyldan bundin við að jafnvirði viðskiptanna sé a.m.k. 100.000.000 kr.
    Var nefndinni tjáð að þessi upplýsingaöflun væri nauðsynleg svo að bankinn geti fylgst með hvernig undanþágur frá almennu banni laga um gjaldeyrismál um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa verða nýttar. Nefndin áréttar að á grundvelli heimilda bankans til upplýsingaöflunar og tilkynningarskyldu lögaðila, í ákveðnum afmörkuðum til­vikum, verður honum gert betur kleift að meta hvenær tímabært er að hækka fjárhæðarmörk og losa frekar um fjármagnshöft.
    Nefndin bendir á að gert er ráð fyrir að Seðlabankinn geti sett reglur um framkvæmd til­kynningarskyldunnar auk þess sem honum verði heimilt að setja reglur sem veita undanþágur frá tilkynningarskyldu. Undanþágur Seðlabankans mundu í öllum tilvikum vera til ívilnunar.
    Í fjórða lagi leggur nefndin til að Seðlabanki Íslands geti lagt stjórnvaldssektir á þá inn­lendu lögaðila sem ekki tilkynna bankanum um tiltekin gjaldeyrisviðskipti og fjármagns­hreyfingar á milli landa. Með þessu móti er stuðlað að því að þessir aðilar framfylgi tilkynn­ingarskyldu sinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Líneik Anna Sævarsdóttir og Sig­ríður Á. Andersen voru einnig fjarverandi en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 4. október 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Willum Þór Þórsson.
Guðmundur Steingrímsson. Steingrímur J. Sigfússon. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Anna Margrét Guðjónsdóttir. Óli Björn Kárason.