Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1763  —  383. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um fasteignalán til neytenda.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar var lagt til að neytanda yrði ávallt heimilt að breyta eftirstöðvum fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur. Meiri hlutinn lagði einnig til að lánveitandi skyldi reglulega kanna tryggingar og varnir neytanda gegn gengisáhættu og að eftirstöðvum fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum skyldi breytt í íslenskar krónur ef neytandi uppfyllti ekki lengur skilyrði 21. gr.
    Því sjónarmiði var lýst í nefndinni að óþarft væri að kveða á um skyldu til að breyta eftirstöðvum fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur. Réttindi neytenda væru nægjanlega tryggð með því að heimila þeim að breyta ávallt eftirstöðvunum í íslenskar krónur. Sá réttur skapaði einnig hvata fyrir lánveitendur til að fara varlega í slíkum lánveitingum sem treysti fjármálastöðugleika.
    Með vísan til þessara sjónarmiða leggur nefndin til að hvorki verði kveðið á um að lán­veitandi kanni reglulega tryggingar og varnir neytanda gegn gengisáhættu né að eftirstöðvum fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum skuli breytt í íslenskar krónur ef neytandi uppfyllir ekki lengur skilyrði 21. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 16. tölul. brtt. á þskj. 1762.
     a.      A-, b- og f-liður falli brott.
     b.      Efnismálsliður c-liðar orðist svo: Upplýsingar um rétt neytanda til að breyta eftir­stöðvum lánsins í íslenskar krónur.

    Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Anna Margrét Guðjónsdóttir og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Birgitta Jónsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og styður álit þetta.

Alþingi, 7. október 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Anna Margrét Guðjónsdóttir. Guðmundur Steingrímsson.
Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Óli Björn Kárason.
Willum Þór Þórsson.