Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1769  —  679. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Frá atvinnuveganefnd.


     1.      Við 5. gr.
                  a.      Á eftir 4. mgr. a-liðar komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skip sem stunda öflun á sjávargróðri skulu leggja upp aflann í móttökustöð, skv.     15. gr. c, fyrir viðkomandi svæði
                  b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: (15. gr. c.)

Leyfi til starfrækslu móttökustöðvar fyrir þang.

                     Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla fyrir um að enginn megi í atvinnu­skyni starfrækja stöð til móttöku þangs til þurrkunar og frekari vinnslu frá tilteknum afmörkuðum svæðum nema hafa til þess leyfi Fiskistofu. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi. Umsókn skal hafa að geyma áætlun um fjármögnun og upp­byggingu mannvirkja og annars búnaðar, upplýsingar um þekkingu forsvarsmanna á fyrirhugaðri starfsemi, rökstudda áætlun um aflamagn og hvernig staðið verði að öflun þangsins, þ.m.t. aðferðum við slátt, og áform um eignarumráð eða samstarf við eigendur skipa skv. 15. gr. a, auk annarra upplýsinga sem þýðingu geta haft skv. 2. mgr .
                     Berist umsóknir um leyfi til móttöku meiri afla en sem nemur ráðgjöf Hafrann­sóknastofnunar, að teknu tilliti til allra aðstæðna, þ.m.t. aðferða við töku þangsins, er heimilt að úthluta leyfum til takmarkaðs fjölda umsækjenda þannig að hver fái heimild til móttöku tiltekins afla á ári eða lengra tímabili. Við úthlutun skal leitast við að ekki færri en tveir aðilar hafi heimild til móttöku frá viðkomandi svæði. Þá er heimilt við mat á hæfni umsækjenda að líta til verk- og tækniþekkingar, fjárhags­legrar stöðu, framlags til rannsókna á þangi og vistkerfi stranda og áhrifa fyrirhug­aðrar starfsemi á byggðir þar sem gætir langvarandi fólksfækkunar og einhæfs atvinnulífs .
                     Heimilt er að binda leyfi skv. 1. mgr. þeim skilyrðum sem þurfa þykir með tilliti til eftirlits með nýtingunni og skipulags nýtingar. Leyfishöfum er skylt að skrá mót­tekinn afla með fullnægjandi hætti eftir því hvar hann er tekinn í samráði við Haf­rannsóknastofnun. Öllum er heimill aðgangur að þessum skrám. Leyfi gilda til 15 ára í senn og skulu endurskoðuð, með tilliti til heimilaðs aflamagns, eigi sjaldnar en á 5 ára fresti. Heimilt er að breyta eða afturkalla leyfi hvenær sem er ef það telst nauð­synlegt til verndar umhverfinu eða til að endurskipuleggja stjórn nýtingar, sé um að ræða gróf eða endurtekin brot á lögum þessum, öðrum lögum á sviði fiskveiðistjórnar eða skilyrðum leyfis, sé leyfið ekki nýtt eða sé það aðeins nýtt í takmörkuðum mæli.
     2.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um að starfræksla stöðva til móttöku á þangi frá Breiðafirði sé háð leyfi, sbr. 15. gr. c, enda liggi fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
                  Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum skal njóta forgangs umfram aðra umsækjendur við útgáfu leyfa skv. 15. gr. c sem nemur allt að 20.000 tonnum.
     3.      7. gr. falli brott.
     4.      8. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2017.
                  Hefja skal endurskoðun laga þessara eigi síðar en 1. janúar 2020.
     5.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um um­gengni um nytjastofna sjávar og lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).