Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1784, 145. löggjafarþing 883. mál: almennar íbúðir (staða stofnframlaga).
Lög nr. 115 25. október 2016.

Lög um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (staða stofnframlaga).


1. gr.

     Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur veitt undanþágu frá lágmarksfjölda fulltrúa í fulltrúaráði þegar um húsnæðissjálfseignarstofnun með færri en tíu íbúðir er að ræða.

2. gr.

     4. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 15. gr. a og 15. gr. b, ásamt fyrirsögnum, sem orðast svo:
     
     a. (15. gr. a.)
Staða stofnframlaga hjá sveitarfélögum.
     Stofnframlög sem sveitarfélög fá frá ríkinu vegna almennra íbúða og krafist er endurgreiðslu á skulu sveitarfélög færa sem eignarhlut ríkisins vegna viðkomandi íbúða og skal eignarhluturinn bókaður á nafnverði innborgaðs stofnframlags ríkisins. Rekstur almennra íbúða og stofnframlög ríkisins sem krafist er endurgreiðslu á skulu færð í sérstaka rekstrareiningu í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélags, sem skal vera aðgreind frá annarri starfsemi sveitarfélagsins.
     Stofnframlög sveitarfélags vegna almennra íbúða þess skal færa meðal eiginfjár viðkomandi rekstrareiningar.
     Þrátt fyrir 1. mgr. skal sveitarfélagið hafa af eigninni allar tekjur og bera allan kostnað vegna rekstrar hennar og fjármögnunar umfram stofnframlög.
     
     b. (15. gr. b.)
Staða stofnframlaga hjá sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnurekstur.
     Sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur og uppfyllir skilyrði 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. skal færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga sem stofnfé meðal eiginfjárliða, sbr. III. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, aðgreint frá stofnfé stofnaðila.
     Ef skilyrði er sett um endurgreiðslu stofnframlaga við veitingu stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga skal sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur færa stofnframlagið sem skilyrt stofnfé meðal eiginfjárliða, sbr. III. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999.
     Stjórn endurgreiðir skilyrt stofnfé sjálfseignarstofnunar sem stundar atvinnurekstur á grundvelli 1.–3. mgr. 16. gr. séu skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, uppfyllt.

4. gr.

     Í stað orðanna „2. mgr.“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 3. mgr.

5. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum fellur brott.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. október 2016.