Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1809  —  449. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti, Írisi Björgu Kristjánsdóttur og Hermann Sæmundsson frá innanríkisráðuneyti, Hjört Braga Sverrisson og Jónu Aðalheiði Pálmadóttur frá kærunefnd útlendingamála, Elísabetu Gísladóttur og Ásdísi Ásgeirsdóttur frá umboðs­manni barna, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Braga Guðbrandsson og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Barnaverndarstofu, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttinda­skrifstofu Íslands, Vigdísi Häsler og Gyðu Hjartardóttur frá Sambandi íslenskra sveitar­félaga, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Sigríði Björk Guðjónsdóttur frá lög­reglunni á höfuðborgarsvæðinu, Vilhjálm Reyr Þórhallsson frá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, Ernu Reynisdóttur og Katrínu Oddsdóttur frá Barnaheillum, Grím Sigurðsson frá Lögmannafélagi Íslands, Davor Purisce hdl., Arndísi A. K. Gunnarsdóttur, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, Ásthildi Linnet, Guðríði Láru Þrastardóttur og Gunnar Narfa Gunnarsson frá Rauða krossinum á Íslandi, Kristínu Völundardóttur, Sigurbjörgu Rut Hoffritz og Skúla Má Sigurðarson frá Útlendingastofnun, Helgu Jónu Benediktsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Björgu Ástu Þórðardóttur, Elínrósu Líndal Ragnarsdóttur og Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins og Jórunni Eddu Helgadóttur frá No Borders. Þá átti nefndin símafund við Skafta Bjarnason frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Umsagnir bárust frá Rauða krossinum á Íslandi og Þjóðskrá Íslands.
    Gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar lýstu almennt mikilli ánægju með þingsályktunar­tillögu þessa. Samkvæmt tillögugreininni ályktar Alþingi að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi. Undirbúningur verði hafinn með því að kanna kosti og þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna og ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings. Nefndin leggur til að orðalagsbreyting verði á tillögu­greininni í þá veru að Alþingi álykti að viðkomandi ráðherrar láti gera fýsileikakönnun á kostum þess og þörf á að stofna sérstakt embætti sem fari með önnur málefni flóttamanna en úrskurðar- og rannsóknarvald. Þar sem liðið er að lokum yfirstandandi löggjafarþings er nauðsynlegt að breyta viðmiðunartíma niðurstaðna könnunarinnar og leggur nefndin til að Alþingi verði gerð grein fyrir niðurstöðum fýsileikakönnunarinnar með skýrslu fyrir 1. september 2017. Jafnframt leggur nefndin til breytingu á fyrirsögn tillögunnar til samræmis við þetta.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                 Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að láta gera fýsileikakönnun á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi. Kannaðir verði kostir þess og þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna eða sambærilegt embætti sem fari með málefni flóttamanna hér á landi önnur en úrskurðar- og rannsóknarvald. Alþingi verði gerð grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar með skýrslu fyrir 1. september 2017.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um framkvæmd fýsileika­könnunar á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.

    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 12. október 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Ólína Þorvarðardóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Svandís Svavarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.
Halldóra Mogensen. Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.