Ferill 895. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1811  —  895. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stuðning við alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jörund Valtýsson frá utanríkis­ráðuneyti.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi skori á hlutaðeigandi aðila að virða undan­tekningarlaust alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks, heilbrigðisþjónustu og neyðaraðstoðar á átakasvæðum. Þá er lagt til að Alþingi fordæmi árásir á sjúkrahús og sjúkraskýli á átakasvæðum, lýsi stuðningi við alþjóðalög og alþjóðasamþykktir gegn slíku athæfi og feli ríkisstjórninni að bera fram andmæli við þess háttar brotum á vettvangi Sam­einuðu þjóðanna.
    Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er vísað til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2286 (2016) sem samþykkt var í maí á þessu ári og Ísland var meðflutningsaðili að. Fram kemur að í ályktuninni fordæmi öryggisráðið árásir á heilbrigðisstarfsfólk á átaka­svæðum, sjúkrahús, sjúkraskýli og aðra aðstöðu sem nýtt er til hjálpar særðum og sjúkum þar sem stríð geisar, með vísan til Genfarsamninganna og annarra alþjóðasamninga um skuld­bindingar ríkja sem eiga í vopnuðum átökum, mannréttindasamninga og mannúðarlaga. Í greinargerð segir að tilefni ályktunarinnar hafi verið að árásir á heilbrigðisstarfsfólk og bæki­stöðvar þess á átakasvæðum hafa færst mjög í vöxt undanfarin ár í stríðshrjáðum löndum, m.a. Afganistan, Suður-Súdan, Sýrlandi, Jemen, Úkraínu og Mið-Afríkulýðveldinu.
    Nefndin telur ljóst að auknar árásir á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum hafa orðið til­efni umræðu, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið bregðist við og hvetji til þess að virt verði þörf á læknishjálp á stríðshrjáðum svæðum í sam­ræmi við alþjóðleg mannúðarlög. Þegar ekki er hægt að gera ráð fyrir öryggi heilbrigðis­starfsfólks og veitenda neyðaraðstoðar á stríðshrjáðum svæðum, þar á meðal á sjúkrahúsum, er hætta á að fjölþjóðasamtök sem sinna hjálparstörfum og neyðaraðstoð neyðist til að draga úr starfsemi sinni. Það getur haft þær afleiðingar að óbreyttir borgarar í sárri neyð geti ekki fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þegar sjúkrahús og neyðarskýli eru ekki lengur örugg er jafnframt hætta á að særðir og sjúkir sæki síður aðstoð vegna yfirvofandi ógnar auk þess sem árásir á sjúkrahús geta haft slæm langvarandi áhrif á þróun heilbrigðiskerfis í stríðshrjáðu ríki. Brýnt er því að draga úr þjáningum sjúkra í stríði og tryggja öryggi þeirra og heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir neyðar- og mannúðarstarfi með hlutleysi og fagmennsku að leiðarljósi. Nefndin telur jafnframt brýnt að fordæmdar verði árásir á veitendur neyðar­aðstoðar enda nauðsynlegt að tillagan nái einnig til þeirra sem veita slíka aðstoð. Leggur nefndin til breytingu því til samræmis.
    Genfarsáttmálunum er ætlað að tryggja vernd og réttindi þeirra sem ekki eru þátttakendur í átökum, m.a. óbreyttra borgara, hermanna sem hafa særst eða gefist upp og lækna og hjúkr­unarfólks sem sinnir heilbrigðisþjónustu og líknarstarfi á átakasvæðum. Árásir á heilbrigðisstarfsfólk, sjúkrahús eða aðrar bækistöðvar þar sem hlúð er að særðum og sjúkum geta því verið brot á alþjóðlegum mannúðarrétti og skoðast sem stríðsglæpir.
    Í greinargerð kemur fram að markmið þingsályktunartillögunnar er að stuðla að því að rödd Íslands á alþjóðavettvangi verði nýtt til að andmæla löglausum árásum á heilbrigðis­starfsfólk á átakasvæðum og lýsa stuðningi við alþjóðasamþykktir sem vernda það og starf þess í þágu stríðshrjáðs fólks hvarvetna í veröldinni. Nefndin telur mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir því að reglur og venjur alþjóðlegs mannúðarréttar verði virtar og að unnið sé að vernd og eflingu mannréttinda á átakasvæðum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „og sjúkraskýli“ í tillögugreininni komi: sjúkraskýli og veitendur neyðar­aðstoðar.

    Hanna Birna Kristjánsdóttir, Frosti Sigurjónsson og Össur Skarphéðinsson voru fjar­verandi við afgreiðslu málsins.
    Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 12. október 2016.

Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Svandís Svavarsdóttir. Óli Björn Kárason.
Óttarr Proppé. Þórunn Egilsdóttir. Karl Garðarsson.