Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 15  —  6. mál.

2. umræða.

    

Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Björn Rögnvaldsson, Gunnar Björnsson og Sigurður Helgi Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Gylfi Arnbjörns­son og Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Gyða Hrönn Einarsdóttir, Stefán Aðal­steinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir frá Bandalagi háskólamanna, Árni Stefán Jónsson, Kristinn Bjarnason og Sonja Ýr Þorbergsdóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Garðar Hilmarsson, Gerður Guðjónsdóttir og Þóra Jónsdóttir frá Brú lífeyrissjóði, Aðalsteinn Þorsteinsson og Magnús Helgason frá Byggðastofnun, Guðbjörg Pálsdóttir og Ragnheiður Gunnarsdóttir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Gísli Tryggvason lögmaður, Ólafur G. Flóvenz og Sigrún Traustadóttir frá Íslenskum orkurannsóknum, Anna Rós Sigmunds­dóttir og Þórður Á. Hjaltested frá Kennarasambandi Íslands, Birgir Guðjónsson, Hallur Páll Jónsson og Oddgeir Ágúst Ottesen frá Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Baldur Ólafsson og Frímann Birgir Baldursson frá Landssambandi lögreglumanna, Stefán Pétursson og Valdimar Leó Friðriksson frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Haukur Hafsteinsson og Vala Rebekka Þorsteinsdóttir frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Kristinn Kolbeinsson og Sveinn Margeirsson frá Matís ohf., Karl Björnsson og Sigurður Ármann Snævarr frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Rannveig Sigurðardóttir frá Seðlabanka Íslands, Gunnar Örn Gunnarsson og Kristín Á. Guðmundsdóttir frá Sjúkraliðafélagi Íslands og Ársæll Ársælsson og Ólafur Ingibergsson frá Tollvarðafélagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi íslenskra listamanna, Brú lífeyrissjóði, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, Dalabyggð, Eyjafjarðarsveit, Félagi geislafræðinga, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi íslenskra leikara, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi lífeinda­fræðinga, Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Félagi prófessora við ríkisháskóla, Félagi starfsmanna Alþingis, Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins, Félagsráðgjafafélagi Ís­lands, Fjármálaeftirlitinu, Fljótsdalshéraði, Gunnari Tómassyni hagfræðingi, Gylfa Magnús­syni dósent, Húnaþingi vestra, Hveragerðisbæ, Ísafjarðarbæ, Íslenskum orkurannsóknum, Kennarasambandi Íslands, Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Kili, stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu, Landssambandi lögreglumanna, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Læknafélagi Íslands, Matís ohf., Póstmannafélagi Íslands, Presta­félagi Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Seðlabanka Íslands, Seltjarnarnesbæ, Seyðisfjarðarkaupstað, Sjúkraliðafélagi Íslands, Starfs­mannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar, Starfsmannafélagi Kópavogs, Starfsmannafélagi Suðurnesja, Stykkishólmsbæ, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Garði, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Ölfusi, Sveitarfélaginu Skaga­firði, Sveitarfélaginu Skagaströnd, Sveitarfélaginu Vogum, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Viðskiptaráði Íslands og Þroskaþjálfafélagi Íslands.
    Frumvarp svipaðs efnis var lagt fram á 145. þingi (873. mál) en ekki afgreitt.

Markmið og efni frumvarpsins.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við samkomulag Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opin­berra starfsmanna frá 19. september sl. Stefnt er að því að koma á samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Í því skyni er með frumvarpinu lagt til að óbein ábyrgð ríkissjóðs á lífeyri sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna, í formi breytilegs iðgjalds, verði afnumin, lífeyristökualdur hækki úr 65 í 67 ár og ávinnsla lífeyrisréttinda verði aldurs­tengd en ekki jöfn líkt og nú.
    Til að breytingarnar skerði ekki réttindaávinnslu núverandi sjóðfélaga er ráðgert að ríkið leggi til 106,8 milljarða kr. í lífeyrisaukasjóð, sem er ætlað að jafna mismun á réttindum þeirra samkvæmt jafnri ávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri annars vegar og aldurstengdri ávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri hins vegar, og um 8,4 milljarða kr. í varúðarsjóð sem verði dregið á dugi lífeyrisaukasjóðurinn ekki til. Dugi varúðarsjóðurinn heldur ekki til gerir frumvarpið ráð fyrir viðræðum launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna þar sem lagt verði mat á hvort tryggingafræðilegar forsendur sem byggt var á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóðinn hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skuli brugðist við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð. Ríkissjóður tryggir samkvæmt frumvarpinu óskert réttindi sjóðfélaga sem hafa náð 60 ára aldri og örorku- og makalífeyrisþega.
    Auk þessa er gert ráð fyrir um 10,4 milljarða kr. framlagi frá ríkissjóði til að rétta af núverandi halla á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Gert er ráð fyrir hliðstæðum ráðstöfunum vegna Brúar lífeyrissjóðs.

Athugasemdir við frumvarpið.
    Mörg sveitarfélög og samtök atvinnurekenda lýstu yfir stuðningi við frumvarpið og lögðu áherslu á að það yrði samþykkt fyrir áramót. Í umsögnum samtaka og stéttarfélaga á opin­berum vinnumarkaði komu hins vegar fram nokkrar athugasemdir og andstaða við að frum­varpið næði fram að ganga. Einkum var vísað til ólíkrar túlkunar á nefndu samkomulagi frá 19. september sl. Á fundum nefndarinnar lýstu þó margir yfir stuðningi við markmið laganna.

Brottfall ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga á breytilegum iðgjöldum.
    Áhyggjur samtakanna og stéttarfélaganna lutu öðru fremur að brottfalli óbeinnar ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga á lífeyrisréttindum sjóðfélaga. Án þeirrar ábyrgðar gæti komið til skerðingar á réttindunum ef fjárhagur A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs þróaðist til verri vegar. Ekki væri öruggt að lífeyrisauka- og varasjóðir dygðu til að bæta núverandi sjóðfélögum hækkun lífeyristökualdurs og upptöku aldurstengdrar réttindaávinnslu. Sum félaganna töldu frumvarpið ekki í samræmi við fyrrgreint samkomulag hvað þetta varðar.
    Meiri hlutinn bendir á að í a-lið 5. hluta samkomulagsins segir að ábyrgð launagreiðenda á breytilegu iðgjaldi A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs skuli afnumin enda séu framtíðarskuldbindingar viðkomandi launagreiðenda að fullu tryggðar. Lífeyrisaukasjóðunum er ætlað að standa undir framtíðarskuldbindingum launagreiðenda vegna áformaðra breytinga, en dugi þeir ekki til er í frumvarpinu gert ráð fyrir að úr verði bætt með greiðslum úr varasjóðum eða öðrum ráðstöfunum. Meiri hlutinn telur frumvarpið því samræmast samkomulaginu hvað þetta varðar.
    Afnám ábyrgðarinnar kann vissulega að verða til þess að síðar meir þurfi að skerða líf­eyrisréttindi sjóðfélaga krefjist fjárhagur deildanna þess, en það samræmist fyrirkomulagi lífeyrismála á almennum vinnumarkaði. Afnám ábyrgðarinnar er því að mati meiri hlutans óhjákvæmilegt ef jafna á lífeyrisréttindi starfsmanna á almennum og opinberum vinnu­markaði. Jöfnun lífeyrisréttinda er aftur liður í almennri jöfnun kjara milli almenns og opin­bers markaðar, líkt og fjallað er um í samkomulaginu.
    Sumir umsagnaraðilar töldu að brottfall ábyrgðarinnar gæti strítt gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Lífeyrisréttindi njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafanum er eigi að síður heimilt að skerða þau réttindi, líkt og önnur eignarréttindi, enda krefji almenningsþörf og jafnræðis sé gætt og meðalhófs. Eins og fyrr greinir telur meiri hlutinn brottfall ábyrgðarinnar nauðsynlegan lið í jöfnun lífeyrisréttinda. Ráðstöfunin tekur jafnt til allra í sambærilegri stöðu. Meiri hlutinn fellst því ekki á að hún stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.
    Meiri hlutinn bendir á að breytingin getur komið núverandi sjóðfélögum til góða. Þróist fjárhagur lífeyrissjóðanna til betri vegar en miðað er við í forsendum fyrir útreikningi líf­eyrisauka munu sjóðfélagar njóta þess, sem þeir gera ekki samkvæmt núverandi fyrirkomu­lagi.

Önnur atriði.
    8. mgr. b-liðar 7. gr. frumvarpsins sætti gagnrýni ríkisaðila í B- og C-hluta ríkisreiknings sem töldu hana geta komið illa við fjárhag og samkeppnisstöðu sína. Lífeyrisaukinn er liður í launakostnaði stofnananna sem meiri hlutinn telur óæskilegt að ríkið niðurgreiði, enda starfa sumar þeirra í samkeppni við einkaaðila. Meiri hlutinn leggur því ekki til breytingu á málsgreininni.
    Gerðar voru athugasemdir við breytingar sem gerðar hafa verið á a-lið 3. mgr. c-liðar 7. gr. frumvarpsins frá því það var lagt fram á 145. löggjafarþingi (873. mál). Í fyrra frumvarpinu sagði að væri tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í lok næstliðins árs eða hefði haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en fimm ár skyldi leggja höfuðstól varúðarsjóðs í heild eða að hluta, í báðum tilvikum þar til að 5% viðmiði væri náð, við eignir lífeyrisaukasjóðs og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans. Viðmiðin tóku mið af 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Í fyrirliggjandi frumvarpi er aftur á móti miðað við að tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs hafi verið neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í tíu ár. Fram kom fyrir nefndinni að tilgangur breytingarinnar væri að draga úr líkum á því að fjármunir færu úr varasjóði í lífeyrisaukasjóð vegna tímabundinna sveiflna á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrisaukasjóðs, enda væru framlögin óafturkræf og gengju ekki til baka þótt sveiflurnar gerðu það. Meiri hlutinn fellst á þau rök og leggur því ekki til breytingu á ákvæðinu.
    Nokkur stéttarfélög gagnrýndu hækkun lífeyristökualdurs, sem hentaði illa félögum þeirra vegna sérstaks álags í vinnu. Meiri hlutinn telur æskilegra að tekið verði á slíkum atriðum í kjarasamningum viðkomandi stétta. Þær breytingar sem gerðar verða samkvæmt frumvarp­inu kunna einmitt að greiða fyrir slíku.
    Brú lífeyrissjóður og Samband íslenskra sveitarfélaga bentu á að tryggari lagastoð þyrfti fyrir fyrirhugaðar breytingar á samsetningu eigna hjá Brú lífeyrissjóði, iðgjaldi launagreið­enda og breytingum á samþykktum sjóðsins. Meiri hlutinn leggur til breytingar á 8. gr. frum­varpsins með hliðsjón af athugasemdunum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 8. gr.
     a.      Í stað orðanna „A-deild tekur“ í a-lið komi: A-deildir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs taka.
     b.      Í stað efnismgr. b-liðar komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. skal iðgjald launagreiðenda til lífeyrissjóða á opinberum vinnumarkaði vera 11,5% vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og 12% vegna A-deildar Brúar lífeyrissjóðs fram til 1. júní 2017 og 11,5% frá 1. júní 2017 þar til um annað hefur verið samið í kjarasamningi.
             Stjórn Brúar lífeyrissjóðs skal fyrir 1. júní 2017 aðlaga samþykktir A-deildar sjóðsins með sama hætti og kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eftir því sem við getur átt, þar á meðal hvað lífeyristökualdur, aldurstengda réttindaávinnslu, lífeyrisaukasjóði og varúðarsjóði varðar.

Alþingi, 20. desember 2016.

Benedikt Jóhannesson,
form.
Sigríður Á. Andersen,
frsm.
Björt Ólafsdóttir.
Brynjar Níelsson. Elsa Lára Arnardóttir. Vilhjálmur Bjarnason.