Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 71  —  10. mál.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016, sbr. lög nr. 119/2016.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016 var lagt fram á Alþingi 14. desember 2016. Er það síðara fjáraukalagafrumvarpið fyrir þetta ár en fyrra frumvarp var lagt fram á 145. löggjafarþingi (875. mál).
    Þriðji minni hluti fjárlaganefndar lætur þess getið að enda þótt samkomulag hafi tekist um afgreiðslu málsins sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi standa að er mikilvægt að halda því til haga að ríflegri fjárveitingar þyrfti til ýmissa mikilvægra málaflokka en hér er að finna. 3. minni hluti nefnir í því sambandi sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem margar hverjar stríða við mikla rekstrarerfiðleika.
    Fjárveiting til Menntaskólans á Akureyri til þess að standa straum af kostnaði við að breyta starfsári skólans er snautleg og nægir ekki til þessa verkefnis. Skólinn mun þurfa að taka viðbótarfé af rekstrarfé sínu vegna þessa og það er ærið lítið fyrir.
    Þriðji minni hluti hefði sannarlega kosið að meira fé hefði runnið til starfsemi Landhelgisgæslu Íslands en þær 75 millj. kr. sem úthlutað er. Stofnunin gegnir afar veigamiklu hlutverki í öryggis- og auðlindamálum þjóðarinnar og mikilvægt er að standa þannig að rekstri hennar að það samræmist þessu hlutverki. 3. minni hluti telur að upp á það vanti.
    Þá er þess að geta að 3. minni hluti telur að rétt hefði verið að greiða öryrkjum eingreiðslu í desember sambærilega við þá sem launþegar fá á þessum árstíma. Ekki er nein ástæða til annars en að framfærsluþörf öryrkja njóti fullrar viðurkenningar samfélagsins og að greiðslum til þeirra sé hagað í samræmi við það.
    Geta skal þess sem vel er gert og 3. minni hluti vill ekki láta hjá líða að fagna þeirri ákvörðun að ríkissjóður leggi til fjármuni til kaupa á jörðinni Felli sem skartar Jökulsárlóni, einni af hinni óviðjafnanlegu náttúruperlum suðurstrandarinnar. Það er sannarlega gott til þess að vita að eignarhald á þessari þjóðargersemi færist nú til þjóðarinnar og færi vel á því að sami háttur yrði hafður á með aðrar slíkar.

Alþingi, 22. desember 2016.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.