Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 159  —  100. mál.




Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um tilvísunarkerfi í barnalækningum.

Frá Smára McCarthy.


     1.      Hyggst ráðherra koma á fót tilvísunarkerfi í barnalækningum hér á landi þannig að þess verði almennt krafist að foreldri leiti aðeins með barn sitt til barnalæknis samkvæmt sérstakri tilvísun frá heimilislækni? Ef slíkt kerfi yrði tekið upp, færi upptaka þess fram í áföngum?
     2.      Telur ráðherra hættu á að slíkt kerfi leiddi til tvískiptingar heilbrigðiskerfisins, þar sem efnameiri foreldrar gætu sniðgengið tilvísunarkerfið með því að leita beint til sérfræðings í barnalækningum á einkastofu?
     3.      Hvaða áhrif telur ráðherra að upptaka slíks tilvísunarkerfis hefði á kostnað hins opinbera af heilbrigðiskerfinu?
     4.      Hverja telur ráðherra vera helstu kosti og galla þess að taka upp slíkt tilvísunarkerfi?
     5.      Er stefnt að upptöku tilvísunarkerfa fyrir aðrar tegundir sérfræðilækninga hér á landi?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Á vef velferðarráðuneytisins liggja fyrir drög að reglugerð um tilvísanir fyrir börn. Hugmyndin er að með kerfinu megi minnka til muna álag á barnalækna þar sem stór hluti þeirra 47.000 heimsókna sem barnalæknar fá árlega er talinn vera vegna erinda sem heimilislæknir getur sinnt. Ljóst er að kerfinu fylgja kostir og gallar en þarft er að varpa ljósi á stöðuna og afstöðu nýrrar ríkisstjórnar til málefnisins.