Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 172  —  113. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Í stað „1. júlí“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 1. ágúst.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:
     a.      Í stað „1. júní“ í 1. mgr. kemur: 1. júlí.
     b.      Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir er hljóða svo: Nefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, skal meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um nefndina gilda. Óheimilt er ráðherra að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.
     c.      Í stað „20. júní“ í 3. mgr. kemur: 20. júlí.
     d.      Í stað „1. júlí“ í 4. mgr. kemur: 1. ágúst.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. getur Landsréttur haft aðsetur utan Reykjavíkur fram til 1. janúar 2022.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hinn 26. maí 2016 samþykkti Alþingi ný lög um dómstóla, nr. 50/2016. Lögin eiga að taka gildi 1. janúar 2018 fyrir utan nokkur ákvæði til bráðabirgða sem hafa þegar tekið gildi.
    Við gerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 50/2016 var lagt til grundvallar að þegar skipað yrði í fyrsta sinn í embætti dómara við Landsrétt mundi nefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfar á grundvelli 4. gr. a gildandi laga um dómstóla, nr. 15/1998, og reglna nr. 620/2010 taka til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt og veita ráðherra umsögn um umsækjendur. Í 4. gr. a gildandi laga um dómstóla er kveðið á um að nefndin taki til meðferðar og veiti umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara og hæstaréttardómara. Rétt er að taka af allan vafa um að nefndin hafi það hlutverk að fjalla um umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að það sé hlutverk nefndarinnar að taka til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt og veita ráðherra umsögn um umsækjendur. Þá er lagt til að sami háttur verði hafður á og í gildandi lögum og kveðið á um að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Á sama hátt og nú gildir getur ráðherra vikið frá því að skipa þann sem nefndin telur hæfastan ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra þar um.
    Framangreind breyting kallar á nokkrar breytingar er varða frá hvaða tíma vinnu við skipun dómara skuli lokið og hvenær forseti Landsréttar tekur til starfa sem og frá hvaða tíma stjórn dómstólasýslunnar verður skipuð. Er því lagt til að í stað þess að skipun dómara verði lokið eigi síðar en 1. júní 2017 verði vinnunni lokið eigi síðar en 1. júlí 2017. Óbreytt er að dómarar skuli skipaðir frá 1. janúar 2018 að undanskildum forseta réttarins en lagt er til að dómarar verði búnir að kjósa sér forseta og varaforseta fyrir 20. júlí 2017. Í stað þess að forseti réttarins verði skipaður frá 1. júlí 2017 er lagt til að hann verði skipaður frá 1. ágúst 2017. Jafnframt þarf að seinka skipun í stjórn dómstólasýslunnar sem verður þá frá 1. ágúst 2017 í stað 1. júlí þar sem forseti Landsréttar mun eiga sæti í stjórninni.
    Að lokum er hér lagt til að heimilt verði tímabundið að aðsetur Landsréttar verði utan Reykjavíkur. Er þetta lagt til þar sem erfitt hefur reynst að finna húsnæði sem hæfir réttinum í Reykjavík. Fyrirhugað er að byggja fyrir réttinn framtíðarhúsnæði í Reykjavík. Þar til slíkt húsnæði er tilbúið verður að finna réttinum húsnæði til bráðabirgða. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðahúsnæðið verði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi.
    Við gerð þessa frumvarps var haft samráð við nefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla sem fjallar um hæfni þeirra sem sækja um embætti dómara. Gerði nefndin ekki athugasemdir við frumvarpið. Einnig var frumvarpið kynnt ráðgjafarhópi um stofnun Landsréttar en í honum sitja fulltrúar frá Hæstarétti Íslands, dómstólaráði, Lögmannafélagi Íslands, ríkissaksóknara og Dómarafélagi Íslands. Athugasemdir bárust frá Dómarafélagi Íslands er varða ákvæði 3. gr. frumvarpsins um aðsetur Landsréttar. Í athugasemdum félagsins er lögð áhersla á að aðsetur Landsréttar utan Reykjavíkur verði einungis til bráðabirgða á meðan réttinum sé fundið framtíðarhúsnæði. Þá sé mikilvægt að Landsrétti verði fundið húsnæði til framtíðar í miðbæ Reykjavíkur.
    Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 104 millj. kr. fjárveitingu til undirbúnings að stofnun Landsréttar. Í þessu frumvarpi er í fyrsta lagi verið að veita hæfnisnefnd heimild til að fjalla um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt. Þar sem ávallt var gert ráð fyrir við vinnslu frumvarps um stofnun millidómstigs að hæfnisnefndin fjallaði um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt er ekki um aukinn kostnað ríkissjóðs að ræða frá því sem var ráðgert. Þá eru færðar aftur um mánuð dagsetningar er varða skipun forseta Landsréttar og skipun í stjórn dómstólasýslunnar sem mun draga úr kostnaði við launagreiðslur sem því nemur. Þá mun breytt staðsetning á húsnæði réttarins til bráðabirgða ekki kalla á aukin útgjöld. Að öllu þessu virtu mun frumvarp þetta ekki hafa teljandi áhrif á þann kostnað sem þegar er ráðgerður vegna stofnunar Landsréttar.