Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 188  —  129. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hjónavígslur og nafngiftir.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Smári McCarthy, Ásta Guðrún Helgadóttir, Viktor Orri Valgarðsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að vinna og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar svo hjónavígsluréttindi og skráning nafngifta verði alfarið flutt til borgaralegra embættismanna. Frumvörpin verði lögð fram svo fljótt sem auðið er, þó ekki síðar en 1. október 2017.

Greinargerð.

    Tillaga þessi um hjónavígslur og nafngiftir var lögð fram á 145. löggjafarþingi (209. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er hér endurflutt með smávægilegum breytingum er varða dagsetningar sem og breytingar sem orðið hafa á Stjórnarráði Íslands.
    Markmið þessarar tillögu er að koma festu á það hvernig standa skuli að hjónavígslum og skráningu nafngifta á Íslandi. Sögulegar ástæður eru fyrir því að störf þessi hafa verið á verksviði presta þjóðkirkjunnar, fríkirkjusafnaða og í seinni tíð forystufólks annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Slík tilhögun er engan veginn sjálfsögð, þar sem um löggerning er að ræða sem óeðlilegt er að sé falinn sjálfstæðum félagasamtökum.
    Lagt er til að hjónaefni þurfi ætíð að leita til borgaralegra embættismanna til að fá vígslu og það sama gildi um skráningu á nafngiftum ungbarna. Vitaskuld yrði hverjum og einum frjálst að fá þá blessun sem trú viðkomandi boðar á hvaða hátt sem er. Slíkur gjörningur hefði hins vegar ekkert gildi gagnvart hinu opinbera heldur varðaði einungis trúarsannfæringu hvers og eins. Fyrirkomulag þetta er við lýði víða um lönd og má þar vísa til Frakklands sem dæmis.
    Sitthvað vinnst með því að trúfélög hætti að sinna formlegum hjónavígslum og skráningu nafngifta. Íslensk trúfélög eru misstór og öflug. Með því að fela þessi verkefni embættismönnum minnka líkur á mistökum og ekki þarf að hafa áhyggjur af hæfi og færni vígslumanna.
    Tillagan er jafnframt viðbragð við andstöðu ýmissa trúfélaga eða einstakra starfsmanna þeirra við þá markverðu breytingu sem gerð var með lögum nr. 65/2010, um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög), þar sem ein hjúskaparlög gilda óháð kynferði hjónaefnanna. Þar var um miklar réttarbætur að ræða og stórt skref stigið í átt til jafnréttis.
    Ekkert launungarmál er að sum starfandi trúfélög á Íslandi fella sig ekki við hugmyndina um ein hjúskaparlög og kæra sig ekki um að gefa saman hjón af sama kyni. Umræðan við setningu laganna og frá gildistöku þeirra hefur þó fyrst og fremst snúist um afstöðu þjóðkirkjunnar. Í 22. gr. hjúskaparlaga er fjallað um réttinn til hjónavígslu og skyldu prests til að framkvæma hjónavígslu. Þar segir í 1. mgr. að hjónaefni eigi rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki. Í 2. mgr. er ákvæði um að ráðherra geti, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt. Þetta ákvæði hefur oft og tíðum gengið undir heitinu „samviskufrelsi“.
    Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 65/2010, um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist, er jafnframt fjallað um skyldu eða heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap. Í 6. kafla athugasemdanna sem fjallar um ýmis álitaefni segir m.a. varðandi vígsluheimild eða vígsluskyldu: „Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.“
    Sú óvissa sem ríkir um „samviskufrelsi“ presta er óþægileg fyrir samkynja pör og aðstandendur þeirra, auk þess sem hún stríðir gegn hugmyndum fjölda fólks um jafnan rétt til þjónustu opinberra embættismanna og vernd borgaranna gegn mismunun. Staðan í núverandi lagaumhverfi varpar jafnframt ljósi á það hversu miklum vandkvæðum það getur verið bundið að setja sama aðila í þá stöðu að framkvæma trúarlega blessun og lögformlegan gjörning á sama tíma.
    Til að bæta úr þeirri stöðu telja flutningsmenn þessarar tillögu affarasælast að skilja á milli þessara hlutverka líkt og tíðkast í mörgum nágrannalöndum okkar; að löggjörningur hjónavígslu færist alfarið til borgaralegra vígslumanna, en að hjónaefni geti sótt trúarlega blessun þangað sem þau vilji. Þótt krafan um vernd borgaranna fyrir mismunun sé skýrust í dæmi presta þjóðkirkjunnar, sem auk hlutverks síns innan trúfélags eru opinberir embættismenn, telja flutningsmenn þurfa að láta eitt yfir alla ganga og láta breytinguna ná jafnt til presta sem og þeirra sem starfa í umboði skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga. Jafnframt verði litið til framkvæmdar nafngjafar og með sama hætti skilið á milli hins lögformlega og trúarlega gjörnings.
    Í ljósi þess að tillagan kallar á breytingar á ýmsum lagabálkum, svo sem lögum um hjúskap og lögum um mannanöfn er farin sú leið að fela dómsmálaráðherra að vinna nauðsynlegar lagabreytingar og leggja frumvörpin fram svo fljótt sem auðið er, þó ekki síðar en 1. október 2017.