Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 252  —  181. mál.




Fyrirspurn


til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjarskiptasjóð, stöðu ljósleiðaravæðingar o.fl.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.


     1.      Hyggst ráðherra gera ráðstafanir til þess að framlengja starfstíma fjarskiptasjóðs þegar starfstíma sjóðsins lýkur í lok þessa árs og hvernig sér hann framtíðarhlutverk sjóðsins fyrir sér?
     2.      Hvernig hefur tekist að uppfylla markmið um aðgengileg og greið fjarskipti sem sett eru fram í 1. tölul. þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022, nr. 4/141?
     3.      Hve margir notendur hafa fengið nettengingar á vegum átaksverkefnisins Ísland ljóstengt, í hvaða sveitarfélögum eru þeir og hve margir er áætlað að fái nettengingu áður en verkefninu lýkur? Svarið óskast sundurliðað eftir árum.
     4.      Í hvaða sveitarfélögum hefur ljósleiðari verið lagður og hvert hefur framlag fjarskiptasjóðs verið þegar hann hefur komið að málum? Svarið óskast sundurliðað eftir árum og að fjárhæðir settar fram á verðlagi yfirstandandi árs.
     5.      Hver hefur kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna verið í hverju tilviki fyrir sig, sundurliðað í kostnað á hverja tengingu og heildarkostnað á verðlagi yfirstandandi árs?
     6.      Hver var tengikostnaður notenda í hverju sveitarfélagi fyrir sig á verðlagi yfirstandandi árs?
     7.      Eru einhverjir byggðakjarnar enn ekki tengdir ljósleiðara?
     8.      Er áformað að gefa þeim sveitarfélögum sem á undanförnum árum hafa staðið fyrir lagningu ljósleiðara án stuðnings frá fjarskiptasjóði, og þar sem talið er að markaðsbrestur hafi ríkt, kost á að sækja um framlag úr sjóðnum þannig að jafnræðis verði gætt?
     9.      Hvernig er eignarhaldi ljósleiðaranna háttað í hverju sveitarfélagi fyrir sig og hvernig verður eignarhaldinu háttað samkvæmt þeim samningum sem gerðir hafa verið um verkefnin?
     10.      Hverjar voru virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af verkefnum sem fengu framlög úr fjarskiptasjóði og hver voru framlög sjóðsins til sömu verkefna?


Skriflegt svar óskast.