Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 266  —  195. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum (þingseta ráðherra).

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Viktor Orri Valgarðsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Nichole Leigh Mosty, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 65. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: 
    Þingmaður getur, meðan hann gegnir ráðherraembætti, ákveðið að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra, sbr. 51. gr. stjórnarskrárinnar, og tekur varamaður hans þá sæti á Alþingi. Tilkynnir ráðherra forseta ákvörðun sína með bréfi sem forseti kynnir þinginu. Varaþingmaður, sem tekur sæti á Alþingi samkvæmt þessari málsgrein, nýtur allra sömu réttinda meðan hann situr á Alþingi og þeir alþingismenn sem eiga þar fast sæti. Varaþingmaðurinn hverfur af þingi þegar kjörtímabilið rennur út eða áður, við þingrof eða þegar ráðherranum hefur verið veitt lausn frá embætti. 

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er nú flutt í áttunda sinn. Fyrsti flutningsmaður var í öll fyrri skiptin Valgerður Bjarnadóttir.
    Með frumvarpinu er ráðherra sem jafnframt er kjörinn alþingismaður gert kleift, ef hann telur ástæðu til, að ákveða að varamaður hans taki sæti á Alþingi meðan hann gegnir ráðherraembætti. Eftir sem áður mun ráðherra sitja á þingi í krafti embættisstöðu sinnar skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar. Nýti hann sér þennan möguleika yrði honum heimilt að taka þátt í umræðum á Alþingi en ætti ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans hefði hins vegar öll réttindi alþingismanns og bæri sömu skyldur. Hann væri m.a. kjörgengur í nefndir Alþingis eins og aðalmaður ólíkt varaþingmönnum sem taka sæti í forföllum aðalmanns, sbr. 2. mgr. 17. gr. þingskapa. 
    Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Skilin á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins eru hins vegar óljós þar sem þingmenn sem taka við ráðherraembætti halda áfram þingmennsku og atkvæðisrétti sínum á þingi, jafnvel þótt þeir eigi yfirleitt ekki sæti í þingnefndum.
    Það er álit flutningsmanna að skýrari aðskilnaður löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins muni styðja við vandaðri vinnubrögð við löggjafarstörfin. Þetta á ekki einungis við um störf framkvæmdarvaldsins sem er ábyrgt fyrir flestum frumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi, heldur einnig um störf löggjafans. Frumkvæði þingmanna að lagasetningu yrði líklega meira við skýrari aðgreiningu frá framkvæmdarvaldinu.
    Þó að ráðherra ákveði að varamaður taki sæti hans á Alþingi heldur hann sömu kjörum og aðrir ráðherrar, sbr. 5. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995. Verði frumvarpið að lögum leiðir ákvörðun ráðherra um að varaþingmaður taki sæti hans á Alþingi því til aukinna útgjalda sem nemur þingfararkaupi og öðrum greiðslum til varaþingmannsins.