Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 268  —  196. mál.




Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um stöðu lýðræðis í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi.


Frá Birgittu Jónsdóttur, Ástu Guðrúnu Helgadóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Einari Brynjólfssyni, Gunnari I. Guðmundssyni, Halldóru Mogensen, Jóni Þór Ólafssyni, Smára McCarthy, Viktori Orra Valgarðssyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu lýðræðis í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi, eftir þeirri forskrift sem kemur fram í ályktun Alþjóðaþingmannasambandsins frá 21. október 2015 um sama efni. Í skýrslunni verði dregið fram hvar Ísland stendur vel að vígi og hvar þurfi að bæta úr með lagasetningu eða framkvæmd, með hliðsjón af fyrrgreindri ályktun.
    Meðal þess sem sérstaklega er óskað að skýrslan fjalli um er:
     1.      Hvernig íslensk stjórnvöld leitast við að tryggja tjáningarfrelsi í hinum stafrænu heimum sem verndar t.d. blaðamenn, ritstjóra, rithöfunda og baráttufólk fyrir mannréttindum gegn fangelsun, ritskoðun, hökkun, ólögmætri síun, lokunum á vefsvæðum, ólögmætu eftirliti og öðrum hamlandi aðferðum til skerðingar á tjáningarfrelsi.
     2.      Hvort og hvar í lögum kveðið er á um lýðræðislega þátttöku almennings, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og jafnt aðgengi að internetinu, sbr. enska hugtakið Net Neutrality.
     3.      Hvernig vernd friðhelgi einkalífs er háttað í landslögum, einkum með tilliti til:
                  a.      samvinnu ríkis og einkafyrirtækja; hvort einkafyrirtækjum er falið að safna eða vinna úr persónuupplýsingum að beiðni ríkisvaldsins; hvort í gildi eru leynilegir, formlegir eða óformlegir samningar við önnur ríki eða fjölþjóðablokkir um skipti, söfnun eða afhendingu persónuupplýsinga yfir landamæri,
                  b.      hvort lagarammi um söfnun, greiningu, hlerun og varðveislu persónuupplýsinga er að fullu í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar; hvort lagaumhverfið byggist að fullu á meginreglum réttarríkisins, lögmætis, gagnsæis, meðalhófs og nauðsynjar; og hvort fyrrnefndar aðgerðir eru bannaðar nema með upplýstu samþykki þess sem í hlut á eða á grundvelli dómsúrskurðar,
                  c.      hvort og hvernig vernd persónugagna er tryggð í lögum bæði er lýtur að opinbera- og einkageiranum, hvað varðar söfnun, greiningu og varðveislu persónugagna, og hvernig tryggðar eru í lögum og framkvæmd fullnægjandi öryggisráðstafanir, nafnleynd og varanleg eyðing persónugagna; hvort Persónuvernd hefur fullnægjandi heimildir til að fara yfir starfshætti við vernd gagna og geti tekið við kvörtunum.
     4.      Hvort eitthvert opinbert eftirlit sé haft með því að einkageirinn virði mannréttindaskuldbindingar, m.a. með hliðsjón af leiðbeiningarriti Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi.
     5.      Hvort og hversu vel er tryggt að þeir aðilar, hvort heldur er einstaklingar, lögaðilar eða aðilar sem fara með opinbert vald, sæti ábyrgð vegna brota á mannréttindum í hinum stafræna heimi.
     6.      Hversu vel réttur til raunhæfra úrbóta er tryggður í lögum fyrir þolendur brota á friðhelgi einkalífs og öðrum tengdum réttindum.
     7.      Hvaða verkferlar, ef einhverjir, eru til staðar sem tryggja að ríkisstjórn Íslands vinni að öllu leyti með sérstökum erindrekum Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs, um eflingu og vernd skoðana- og tjáningarfrelsis, um stöðu verjenda mannréttinda og eflingu og verndun mannréttinda og grundvallarfrelsis í baráttu við hryðjuverk, þar á meðal í tengslum við áskoranir á stafrænni öld eins og lagt er til í 24. lið ályktunar Alþjóðaþingmannasambandsins.

Greinargerð.

    Beiðni þessi var flutt á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því endurflutt óbreytt. Haustþing Alþjóðaþingmannasambandsins var haldið dagana 17.–21. október 2015. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins tók þátt í þinginu en á meðal umræðuefna þingsins var tillaga til ályktunar sem lögð var fram af Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata. Ályktunin var samþykkt einróma af þinginu og ber yfirskriftina Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi. Í ályktuninni er skorað á þjóðþing heimsins að fara yfir löggjöf sína og lagaframkvæmd og bæta og efla hana í þágu lýðræðis og mannréttinda þar sem þörf er á.
    Með beiðni þessari er óskað eftir að ráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu Íslands gagnvart efnisákvæðum ályktunarinnar en markmiðið með skýrslunni er annars vegar að Alþingi geti metið hvort og hvar úrbóta er helst þörf og hins vegar að sýna öðrum þjóðum gott fordæmi um framkvæmd og eftirfylgni ályktana af þessum toga.



Fylgiskjal.



Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi.

Ályktun samþykkt einróma á 133. þingi IPU. 1
(Genf, 21. október 2015.)


    133. þing Alþjóðaþingmannasambandsins,
    
     Minnir á leiðbeinandi meginregur sáttmála Sameinuðu þjóðanna,

     Minnir einnig á mannréttindi og grundvallarfrelsi sem felst í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og viðeigandi alþjóða mannréttindasáttmálum, þar á meðal í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi,

    Minnir enn fremur á ályktun 118. þings IPU um hlutverk þjóðþinga í að skapa jafnvægi milli þjóðaröryggis, almenningsöryggis og einstaklingsfrelsis og að koma í veg fyrir ógnun við lýðræði (Höfðaborg, apríl 2008),

    Bendir á ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 69/166 um rétt til friðhelgi einkalífs á stafrænni öld frá 18. desember 2014,

    Bendir einnig á skýrslu Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs á stafrænni öld,

    Minnir á leiðbeinandi reglur SÞ um viðskipti og mannréttindi og með það í huga að bæði borgarar og fyrirtæki geta gegnt mikilvægu hlutverki í að auka eða draga úr mannréttindum, þar á meðal rétti til friðhelgi einkalífs og tjáningafrelsis á stafrænum tímum,

    með tilliti til þess að grundvallarréttindi gilda einnig í netheimum,

    Viðurkennir órofatengsl lýðræðis og réttar til friðhelgi, tjáningafrelsis og upplýsingafrelsis og opins og frjáls Internets, og í ljósi alþjóðlegrar viðurkenningar á rétti til friðhelgi einkalífs, vernd þess í alþjóðalögum og væntingar borgara um allan heim þess efnis að réttur til friðhelgi einkalífs sé varðveittur bæði í lögum og framkvæmd,

    Viðurkennir einnig að á vettvangi stafræns eftirlits er ekki nóg að samþykkja og framfylgja lögum og að réttarfarsreglur séu stundum veikar og eftirlit óskilvirkt,

    Lýsir áhyggjum af því að altækt eftirlit (mass surveillance) með stafrænum samskiptum og önnur form stafrænnar tjáningar feli í sér brot á rétti til friðhelgi einkalífs, þar á meðal þegar það er framkvæmt yfir landamæri og ógni rétti til tjáningarfrelsis og upplýsinga, sem og öðrum grundvallarmannréttindum, þar á meðal réttinum til friðsamlegra samkoma og félagafrelsis og grefur þannig undan þátttöku í lýðræði,

    Viðurkennir þörf fyrir uppbyggingu færni og valdeflingu þingmanna og sérhæfðra þingnefnda til að benda á glufur í lögum, setningu laga um vernd mannréttinda, þar á meðal um réttinn til friðhelgi einkalífs og til að koma í veg fyrir brot á slíkum réttindum,

     Áréttar ábyrgð þjóðþinga til að koma á, í samræmi við alþjóðlegar meginreglur og skuldbindingar, heildrænum lagaramma um fullnægjandi þingeftirlit til að hafa skilvirka sýn yfir aðgerðum ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana á þeirra vegum, og til að tryggja að lagaleg ábyrgð verði öxluð á öllum brotum mannréttinda og einstaklingsfrelsis,

     beinir sjónum að þörf fyrir að virkja og hafa samráð við alla viðkomandi hagsmunaaðila, þar á meðal frjáls félagasamtök, skólakerfið, tæknisamfélagið og einkageirann varðandi stefnumörkun á stafrænum tímum,

     Viðurkennir mikilvægi og sérþekkingu þjóðbundinna mannréttindastofnana, frjálsra félagasamtaka og talsmanna mannréttinda, og hlutverk þeirra í eftirliti, stefnumótun, samráði og vitundarvakningu og fagnar auknu samstarfi milli þessara aðila og þjóðþinga og þingmanna um allan heim,

     Bendir á starf og framlag þessara aðila, svo sem alþjóðareglur um virðingu mannréttinda við eftirlit með samskiptum (nauðsynja- og meðalhófsreglurnar), sem njóta stuðnings rúmlega 400 frjálsra félagasamtaka og Alþjóðasambands netverja (Global Network Initiative),

     Staðfestir þörf fyrir trygg og óskert tjáskipti í þágu almennings og verndar grundvallarréttinda,

     Metur niðurstöður sérstaks erindreka SÞ um eflingu og vernd tjáningarfrelsis og skoðanafrelsis, um notkun dulkóðunar og nafnleyndar,

     Viðurkennir framlag þjóðþinga og áhrif þeirra á ákvarðanir sem greiða fyrir nauðsynlegum einhug innanlands og á alþjóðavísu varðandi samstilltar og skilvirkar aðgerðir í þessum málum,

     1.      Skorar á þjóðþing að taka þátt í þróun og framkvæmd heildarstefnu sem gerir almenningi kleift til lengri tíma litið að njóta þeirra umtalsverðu kosta sem Internetið getur veitt efnahagslegu, félagslegu, menningarlegu og umhverfisvænu lífi til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna;

     2.      Leggur áherslu á að þessi heildarstefna miði að því, bæði lagalega og siðferðilega, að skapa stafrænt vistkerfi sem er fært um að tryggja öllum borgurum sömu réttindi og tryggja að frelsis þeirra sé gætt með skilvirkum hætti, einkum er kemur að því að kenna almenningi stafræna færni og tryggja jafnræði milli aðila sem komi í veg fyrir misnotkun á ráðandi stöðu;

     3.      Leggur áherslu á að öll löggjöf á sviði eftirlits, friðhelgi einkalífs og persónulegra gagna verði að byggjast á meginreglum lögmætis, gagnsæis, meðalhófs, nauðsynjar og réttarríkis;

     4.      Hvetur þjóðþing til að endurskoða lagaramma og verklagsreglur að því marki að efla og auka aðild og þátttöku almennings á stafrænum tímum, frjálsa miðlun upplýsinga, þekkingar og hugmynda og jafnt aðgengi að Internetinu og í þeim tilgangi að styrkja lýðræðið á 21. öldinni eru þjóðþingin hvött til að afnema allar lagalegar takmarkanir á tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði og að styrkja meginregluna um net hlutleysi;

     5.      Hvetur þjóðþing til að gaumgæfa landslög og verklag ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana sem starfa í umboði þeirra til að tryggja að þær virði alþjóðalög og mannréttindi, einkum varðandi rétt til friðhelgi einkalífsins, og skorar á þjóðþing að ábyrgjast, í þessari endurskoðun, að opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki verði ekki neydd til að vinna með stjórnvöldum að aðgerðum sem skerða mannréttindi viðskiptavina þeirra, með þeim undanþágum sem kveðið er á um í alþjóðlegum mannréttindalögum;

     6.      Skorar á þjóðþing að tryggja að lagarammar landa þeirra fari að öllu eftir alþjóðlegum mannréttindalögum þegar þeim er beitt við hlerun, greiningu, söfnun, varðveislu og viðskiptalegrar notkunnar gagna og að miðla greinargerðum og upplýsingum frá einstökum ríkjum og IPU um tengd mál;

     7.      Hvetur þjóðþing til að endurskoða löggjöf sína í þeim tilgangi að banna hlerun, söfnun, greiningu og varðveislu persónuupplýsinga, þar á meðal þegar slíkar aðgerðir eru framkvæmdar yfir landamæri eða umfangsmiklar, án upplýsts samþykkis viðkomandi einstaklinga eða gilds úrskurðar óháðs dómstóls á grundvelli rökstudds gruns um hlutdeildviðfangsins í saknæmu athæfi;

     8.      Leggur áherslu á að vernd friðhelgi einkalífsins verði með samræmdum hætti í öllum löndum og skorar á þjóðþing að gæta þess að vernd friðhelgi einkalífsins í landslögum verði ekki sniðgengin með skírskotun til leynilegra og óformlegra samninga um miðlun upplýsinga við erlend ríki eða fjölþjóðablokkir;

     9.      Skorar á þjóðþing að lögleiða ítarlega löggjöf um gagnavernd, bæði fyrir opinbera geirann og einkageirann, sem kveður að lágmarki á um ströng skilyrði varðandi heimild til að hlera, safna, greina og varðveita gögn, um skýr og afgerandi mörk um notkun hleraðra og safnaðra gagna og um öryggisráðstafanir sem tryggja öruggustu varðveisluna, nafnleynd og rétta og varanlega eyðingu gagna; og mælir með að komið verði á óháðum og skilvirkum gagnaverndarstofnunum á landsvísu sem hafa nauðsynlegt vald til að endurskoða starfshætti og meðhöndla kvartanir, en hvetur um leið þjóðþing til að tryggja að lagarammi landsins um gagnavernd sé í fullu samræmi við alþjóðalög og viðmið um mannréttindi og gæti þess að sömu réttindi gildi bæði utan nets og á neti;

     10.      Skorar einnig á þjóðþing að tryggja með lögum að allt samstarf varðandi eftirlitsáætlanir á milli stjórnvalda og fyrirtækja, lögaðila og allra annarra samtaka sé háð eftirliti þingsins, svo fremi að það tálmi ekki rannsóknum á saknæmu athæfi;

     11.      Skorar ennfremur á þjóðþing og stjórnvöld að hvetja einkaaðila í tæknigeiranum til að virða skuldbindingar sínar varðandi virðingu fyrir mannréttindum, hafandi í huga leiðbeinandi meginreglur um mannréttindi og viðskipti, þar sem viðskiptavinir þessara fyrirtækja verða að vera upplýstir að fullu um hvernig gögnum um þá er safnað, þau varðveitt, notuð og miðlað til annarra, og hvetur ennfremur þjóðþing til að efla bæði alþjóðleg viðmið um notendasamkomulag og frekari þróun á notendavænni gagnaverndatækni sem verst öllum ógnunum við netöryggi;

     12.      Hvetur þjóðþing til að hafna hlerun fjarskipta og njósnastarfsemi af hálfu ríkis eða annars aðila sem á þátt í aðgerðum sem hafa neikvæði áhrif á heimsfrið og öryggi, sem og borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, einkum þau sem felast í 12. grein Alþjóðamannréttindayfirlýsingarinnar og 17. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þar sem kemur fram að „enginn skal þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimili eða bréfaskiptum“ og að „allir eiga rétt á lagalegri vernd gegn slíkri röskun eða árásum“;

     13.      Viðurkennir þörf fyrir að þjóðþing tilgreini ítarlega aðstæður þar sem heimila má röskun á réttinum til friðhelgi einkalífs, setji strangar réttarfarsreglur um heimild til eftirlits með samskiptum og fylgist með framkvæmd þessara réttarfarsreglna, afmarki lengd eftirlits, öryggi og varðveislu gagna og öryggisráðstafanir varðandi misnotkun;

     14.      Leggur áherslu á að þó röksemdir um þjóðaröryggi feli undantekningalaust í sér að ýmis stafræn tækni kunni að ógna öryggi og velferð ríkis, þurfi þjóðþing að endurskoða bærni þeirra til að hafa eftirlit með öllum aðgerðum framkvæmdavaldsins og tryggja að jafnvægi verði gætt á milli þjóðaröryggis og einstaklingsfrelsis til að tryggja að ráðstafanir í nafni þjóðaröryggis og gegn hryðjuverkum séu í samræmi við mannréttindi og forðist allar ógnanir við lýðræði og mannréttindi;

     15.      Hvetur þjóðþing eindregið til þess að endurskoða og koma á skilvirku, óháðu og hlutlausu eftirliti þar sem þörf krefur og hafa það innan löggjafarinnar; leggur áherslu á að þjóðþing verði að rannsaka alla galla á eftirliti sínu og ástæður þeirra, ganga úr skugga um að eftirlitsaðilar eins og þingnefndir og umboðsmenn þings hafi nægileg úrræði, réttar heimildir og nauðsynlegt vald til að endurskoða og birta opinberlega skýrslur um starfsemi ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana sem starfa í umboði þeirra, þar á meðal aðgerðir í samstarfi við erlenda aðila með upplýsingamiðlun eða sameiginlegar aðgerðir;

     16.      Skorar á þjóðþing að viðurkenna að borgarar og þátttaka þeirra í samfélaginu, geti haft mikilvægt hlutverki í að veita aðhald með framkvæmdavaldinu og hvetur þjóðþing og þingmenn til að efla og taka þátt í samræðum og fagna aðstoð allra viðeigandi hagsmunaaðila, þar á meðal frá þjóðbundnum mannréttindastofnunum, almennum borgurum, tæknisamfélaginu, háskólaskólasamfélaginu og notendum við eftirlit, stefnumótun og stefnuframkvæmd;

     17.      Hvetur þjóðþing eindregið til að tryggja að tilraunir til að setja hömlur á lýðræðisraddir á Internetinu, þar á meðal á blaðamenn, aðra fjölmiðlamenn og verjendur mannréttinda, með fangelsun, einelti, ritskoðun, hökkun, ólöglegri síun, lokun, eftirliti og öðrum kúgandi aðferðum verði stranglega bannaðar í landslögum í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög, sáttmála og samninga;

     18.      Mælir eindregið með því að hluti af eftirlitshlutverki þjóðþinga verði að setja ítarleg og heildræn lög um vernd uppljóstrara samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og bestu löggjafarreynslu;

     19.      Skorar á þjóðþing að tryggja að stjórnvöld og fyrirtæki axli ábyrð á mannréttindabrotum, svo sem brotum gegn rétti til líkamlegra og andlegra heilinda, rétti til einkalífs, tjáningarfrelsi og annars einstaklingsfrelsi, þannig að slík ábyrgð feli í sér viðeigandi viðurlög til að tryggja réttlæti og hafi forvarnaráhrif, þar á meðal saksókn, stjórnvaldssektir, brottrekstur eða sviptingu starfsleyfa og greiðslu bóta til einstaklinga vegna meingerðar;

     20.      Skorar einnig á þjóðþing að tryggja að nauðsynlegar lagalegar og stjórnsýslulegar ráðstafanir verði gerðar til að berjast gegn mansali á Internetinu og að berjast gegn kynbundinni áreitni og netofbeldi sem beinist einkum gegn konum og börnum;

     21.      Leggur áherslu á rétt til raunhæfra úrbóta fyrir þolendur brota gegn friðhelgi einkalífs og annars einstaklingsfrelsis og skorar á þjóðþing að kveða á um lagalega réttarvernd, og auðvelda með því aðgengi að tilhlýðilega fullgiltum úrræðum;

     22.      Hvetur þjóðþing eindregið til þess að auðvelda upplýsingavernd í netheimum og tengdum innviðum, til að vernda friðhelgi og einstaklingsfrelsi borgara með formlegri og óformlegri samvinnu og samböndum milli þjóða til að skiptast á upplýsingum og miðla reynslu; skorar enn fremur á þjóðþing að koma á samstarfi varðandi tækni og verklag og að vinna saman til að draga úr hættu á netglæpum og netárásum, og í þessu samhengi að nútímavæða milliríkjasamninga til að taka á fjölþættum verkefnum á stafrænum tímum, þar á meðal viðbragðshraða;

     23.      Fagnar skipun sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs og skorar á IPU að hefja viðræður við hann sem og sérstakan erindreka Sameinuðu þjóðanna um eflingu og vernd skoðana- og tjáningarfrelsis, sérstakan erindreka Sameinuðu þjóðanna um stöðu verjenda mannréttinda og grundvallarfrelsis í baráttu gegn hryðjuverkum og að vinna með þeim til að samantekt um bestu löggjafarreynslu á hverju þeirra sviða sem ályktunin tekur til;

     24.      Skorar á þjóðþing að tryggja að ríkisstjórnir þeirra vinni að öllu leyti með sérstökum erindrekum Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs, um eflingu og vernd skoðana- og tjáningarfrelsis, um stöðu verjenda mannréttinda og eflingu og verndun mannréttinda og grundvallarfrelsis í baráttu við hryðjuverk, þar á meðal í tengslum við áskoranir á stafrænni öld; hvetur þjóðþing til að kynna sér tilmæli erindrekanna og að kveða á um nauðsynlegan lagaramma fyrir framkvæmd þeirra, eftir því sem við á;

     25.      Hvetur IPU til að þróa – í samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila, þar á meðal alþjóðleg og svæðisbundin samtök, almenning og mannréttindasérfræðinga – áætlanir um árangursríkara starf eftirlitsstofnanna þjóðþinga sem falið er eftirlit með því að rétturinn til friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi í stafrænum heimi sé virt.

1    Íslensk þýðing á frumskjali, www.ipu.org/conf-e/133/Res-1.htm