Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 279  —  35. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um borgarastyrjöldina í Sýrlandi.


     1.      Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda til borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi og hvernig áforma þau að koma afstöðu sinni á framfæri?
    Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að bundinn verði endi á hildarleikinn í Sýrlandi, að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og að íbúum landsins verði gert kleift að búa við frið og mannsæmandi skilyrði. Ljóst má hins vegar vera að engin varanleg lausn á ástandinu í Sýrlandi er líkleg nema til komi pólitískt samkomulag um framhaldið. Í því samhengi telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að vel sé gætt að því að sjónarmið allra þjóðarbrota í Sýrlandi fái að heyrast við samningaborðið og að hagsmunir kvenna séu hafðir að leiðarljósi, þ.m.t. að konur séu meðal fulltrúa í samningaviðræðum.
    Íslensk stjórnvöld hafa á sama tíma talað fyrir því að kannað verði hvort stríðsglæpir og/eða glæpir gegn mannúð hafi verið framdir í Sýrlandi og jafnframt að gerendur slíkra glæpa verði látnir sæta ábyrgð gjörða sinna. Áríðandi er að hernaði sé ekki beint gegn óbreyttum borgurum, að sjúkrahús fái að vera þeir griðastaðir sem þau eiga að vera og að ekki séu gerðar árásir á lækna eða hjúkrunarfræðinga eða starfsfólk mannúðarsamtaka sem tekið hefur sér það verk á hendur að koma nauðsynjavörum til þeirra sem eiga um sárt að binda af völdum átaka.
    Þessum sjónarmiðum hafa íslensk stjórnvöld komið á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ekki síst í allsherjarþinginu og þá gjarnan í félagi við aðrar Norðurlandaþjóðir og Eystrasaltsríkin, sem og í samskiptum við fulltrúa ríkja sem líkleg eru til að geta haft áhrif á stríðsaðila. Ræðir þar m.a. um fastaríki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en að mati íslenskra stjórnvalda hefur öryggisráðinu á þeim sex árum sem borgarastyrjöldin hefur geisað í Sýrlandi ekki tekist að standa undir þeirri ábyrgð sem því er falið samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna – að standa vörð um frið.
    Ástandið í Aleppo hefur verið sérstakt áhyggjuefni undanfarna mánuði og þar hefur Ísland beitt sér, m.a. með málsvarastarfi á vettvangi alþjóðastofnana, einkum Sameinuðu þjóðanna. Þannig var Ísland meðflutningsaðili að ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 9. desember sl. og studdi ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem var samhljóða samþykkt 19. desember sl. Í þeim var þess krafist að stríðandi fylkingar færu eftir alþjóðalögum, þ.m.t. um aðgengi og vernd á hjúkrunarfólki og veitendum neyðaraðstoðar. Ályktun öryggisráðsins skyldi auk þess gera eftirlitsveitum Sameinuðu þjóðanna kleift að athafna sig í borginni. Þá var Ísland eitt þeirra ríkja sem studdi dyggilega við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt 21. desember sl. um úrræði til að safna sönnunargögnum um mögulega stríðsglæpi í Sýrlandi síðan árið 2011.
    Þá samþykkti öryggisráðið samhljóða 31. desember sl. ályktun um stuðning við vopnahlé í Sýrlandi sem Tyrkland og Rússland stóðu að baki. Framfylgd allra þessara ályktana er mjög mikilvæg upp á framhaldið og friðvænlegri horfur í Sýrlandi að gera. Viðræður sem hófust í Astana í Kasakstan 23. janúar sl. vekja vonir um að stilla megi til friðar en þó er of snemmt að segja til um endanleg áhrif þeirra og áfram er ástandið í Sýrlandi mjög eldfimt.

     2.      Munu stjórnvöld beita sér með einhverjum hætti á alþjóðavettvangi vegna stríðsins í Sýrlandi?
    Íslensk stjórnvöld munu hér eftir sem hingað til beita sér á alþjóðavettvangi með hverjum þeim hætti sem þeim er unnt, hvort heldur sem er með málssvarastarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana eða tvíhliða viðræðum við önnur ríki. Einnig verður áfram lögð áhersla á samráð og samvinnu við hin Norðurlöndin fjögur, sem og Eystrasaltsríkin, enda ljóst að áhrif okkar og slagkraftur skilaboðanna er þá þeim mun meiri.
    Íslensk stjórnvöld munu enn fremur halda áfram að styðja þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem standa fyrir mannúðarstarfi í Sýrlandi. Má þar nefna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
    Þá hafa stjórnvöld staðið myndarlega að móttöku sýrlenskra flóttamanna. Von er á 47 einstaklingum til Íslands í upphafi þessa árs og kom fyrsti hópurinn 23. janúar sl. Bætist þetta fólk í hóp 70 annarra sem þegar hafa fengið hæli á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnunina. Í flestum tilfellum hefur þar verið um að ræða barnmargar fjölskyldur sem hafa ríka þörf fyrir vernd. Eru þá ótaldir þeir hælisleitendur sem hingað hafa ferðast á eigin vegum og fengið alþjóðlega vernd á grundvelli útlendingalaga.
    Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum átján mánuðum varið alls 2 milljörðum kr. til að mæta flóttamannavandanum sem á upptök sín í átökunum í Sýrlandi og skömmu fyrir jól samþykkti Alþingi síðan sérstaklega að hækka framlög til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi um 50 millj. kr. á árinu 2016. Til viðbótar þeirri upphæð koma svo 23 millj. kr. sem þáverandi utanríkisráðherra hafði ákveðið að veita aukalega til neyðaraðstoðar í Sýrlandi, m.a. til þess að veita sálræna aðstoð fyrir flóttabörn frá Aleppo. Þá hefur verið ákveðið að ráðstafa 52 millj. kr. þegar í byrjun þessa árs til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

     3.      Áforma stjórnvöld einhverjar ráðstafanir í þágu stríðshrjáðs almennings í Sýrlandi eða flóttamanna þaðan? Ef svo er, hvaða aðgerðir eru það og hvenær er þeirra að vænta?
    Sjá svar við 2. lið fyrirspurnarinnar.