Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 305  —  100. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um tilvísunarkerfi í barnalækningum.


     1.      Hyggst ráðherra koma á fót tilvísunarkerfi í barnalækningum hér á landi þannig að þess verði almennt krafist að foreldri leiti aðeins með barn sitt til barnalæknis samkvæmt sérstakri tilvísun frá heimilislækni? Ef slíkt kerfi yrði tekið upp, færi upptaka þess fram í áföngum?
    Hinn 2. júní 2016 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring), nr. 77/2016.
    Með lögunum verður komið á fót nýju greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar en kerfið byggir á því að sjúkratryggðir greiði aldrei meira en sem nemur ákveðinni hámarksfjárhæð fyrir heilbrigðisþjónustu í mánuði.
    Í lögunum er einnig að finna ákvæði um þjónustustýringu sem miða að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Lögin öðlast gildi 1. maí nk. Í greinargerð með frumvarpinu og reglugerðardrögum sem því fylgdu kemur fram að fyrirhugað er að börn sem leita til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni fái gjaldfrjálsa þjónustu. Heilsugæslan er almennt talin hæfust til að meta það þegar sjúklingur leitar sér heilbrigðisþjónustu vegna óskilgreinds sjúkdóms eða meins í fyrsta skiptið á hvaða þjónustustigi rétt sé að meðhöndla hann og leiðbeina honum í sambandi við það. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá 10. janúar 2017 kemur fram að stefnan sé að styrkja stöðu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Er það í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, að við skipulag heilbrigðisþjónustu skuli stefnt að því að hún sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í reglugerðardrögum sem fylgdu frumvarpinu og drögum sem síðar voru kynnt á heimasíðu ráðuneytisins í desember sl. er gert ráð fyrir að börn með tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni greiði ekkert gjald fyrir komu til sérgreinalæknis. Börn sem sækja þjónustu án tilvísunar greiði hins vegar hluta af því sem sjúkratryggðir almennt greiða. Í reglugerðardrögum er því gert ráð fyrir að foreldrar geti leitað beint til sérgreinalæknis með ákveðinni greiðsluþátttöku ríkisins. Foreldrar sem leita með börn til sérgreinalæknis með tilvísun greiða hins vegar ekkert gjald, sbr. heimild í 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að ákveða að gjald fyrir þjónustu sérgreinalæknis skuli vera lægra ef þjónustan er sótt með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni.
    Ekki er gert ráð fyrir að kerfið verði tekið upp í áföngum.

     2.      Telur ráðherra hættu á að slíkt kerfi leiddi til tvískiptingar heilbrigðiskerfisins, þar sem efnameiri foreldrar gætu sniðgengið tilvísunarkerfið með því að leita beint til sérfræðings í barnalækningum á einkastofu?
    Markmiðið með innleiðingu tilvísunarkerfis er að heilbrigðisþjónusta verði veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður. Í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar kemur fram að heilsugæslan er almennt talin hæfust til að meta á hvaða þjónustustigi rétt sé að meðhöndla sjúklinga.
    Sjúkratryggðir hafa almennt frelsi til að leita eftir þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir telja sig hafa þörf fyrir. Foreldrar geta því ákveðið að leita beint til sérgreinalæknis án viðkomu á heilsugæslu ef þeir óska þess og munu þá njóta ákveðinnar greiðsluþátttöku ríkisins. Þeir sem leita með börn sín á heilsugæslu geta mögulega fengið lausn sinna vandamála þar eða fengið tilvísun til sérgreinalæknis ef þörf krefur og fá þá þjónustuna gjaldfrjálsa.
    Ráðherra telur ekki ástæðu til að óttast að tvískipting verði innan heilbrigðisþjónustunnar þótt greiðslufyrirkomulag sé notað til að beina sjúkratryggðum í heilsugæslu í upphafi fremur en til sérgreinalækna.

     3.      Hvaða áhrif telur ráðherra að upptaka slíks tilvísunarkerfis hefði á kostnað hins opinbera af heilbrigðiskerfinu?
    Með tilvísunarkerfi er leitast við að nýta sem best það fjármagn sem er til ráðstöfunar hverju sinni innan heilbrigðisþjónustunnar. Líkt og áður hefur komið fram er markmiðið að sjúkratryggðir fái þjónustu á viðeigandi þjónustustigi. Hafi breytingin tilætluð áhrif mun komum barna til sérgreinalækna án tilvísunar fækka og þjónusta í auknum mæli verða veitt innan heilsugæslunnar. Kostnaður vegna sérgreinalæknaþjónustu hefur síðustu ár farið umtalsvert fram úr fjárveitingum. Tilvísunarkerfi er ein af þeim leiðum sem taldar eru geta stýrt betur þeim útgjöldum.
    Fjárlög ársins 2017 gera ráð fyrir 350 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til að efla heilsugæsluna.
    Þá er í fjárlögum ársins einnig gert ráð fyrir 1 milljarði kr. í viðbótarkostnað vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins sem samsvarar 1,5 milljarði kr. á ársgrundvelli miðað við að lögin öðlast gildi 1. maí nk. Áætlað er að sá viðbótarkostnaður komi til móts við lækkun á greiðsluþaki sjúkratryggðra og kostnað vegna veitingu gjaldfrjálsrar þjónustu fyrir börn með tilvísun.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 77/2016, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýringu), kemur fram að ef nýja greiðsluþátttökukerfið skilar hagræðingu munu sjúkratryggðir njóta þess frekar en að kostnaður ríkisins vegna þjónustunnar minnki.

     4.      Hverja telur ráðherra vera helstu kosti og galla þess að taka upp slíkt tilvísunarkerfi?
    Helsti kosturinn við það fyrirkomulag sem ákveðið hefur verið að innleiða er að börn fá notið gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu á viðeigandi þjónustustigi. Stjórnvöld hafa fengið ábendingar um þörf á aukinni stýringu á þjónustu við sjúklinga til að sporna við aukningu útgjalda, t.d. í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group skilaði velferðarráðherra í október 2011.

     5.      Er stefnt að upptöku tilvísunarkerfa fyrir aðrar tegundir sérfræðilækninga hér á landi?
    Heilsugæslan er almennt talin best til þess fallin að taka við sjúklingum með óskilgreinda sjúkdóma og mein og leiðbeina þeim og vísa um kerfið. Áhrif og ávinningur af innleiðingu þess tilvísunarkerfis sem nú hefur verið tekin ákvörðun um að innleiða verður skoðuð nákvæmlega og í því ljósi metið hvort tekið verði upp tilvísunarkerfi fyrir aðra hópa eða aðrar sérgreinar í framtíðinni.