Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 319  —  99. mál.



Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um nýsköpunarverkefni fyrir fatlað fólk.


     1.      Hver varð árangur af nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi samkvæmt lið B.4 í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2012?
    Eitt verkefni fékk sérstakan stuðning samkvæmt þessum lið en það var atvinnu- og nýsköpunarúrræði sem rekið var í samstarfi Vinnumálastofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Verkefnið var skilgreint sem tilraunaverkefni til eins árs til að byrja með. Markhópurinn voru ungmenni að ljúka námi sem höfðu lítinn aðgang að hæfingu og/eða verndaðri vinnu en þörf fyrir meiri stuðning en boðið var upp á í atvinnu með stuðningi. Markmið verkefnisins var að brúa bilið milli útskriftar úr námi og vinnu á almennum markaði fyrir þá sem stefndu að slíku. Jafnframt var áhersla á að efla félagsleg tengsl og leita nýrra leiða til atvinnu með nýsköpun.
    Verkefnið var starfrækt á forsendum þeirra sem nýttu þjónustuna. Unnin voru verkefni á staðnum og úti í samfélaginu. Einnig var veitt ráðgjöf og fræðsla um atvinnumál, nýsköpun og afþreyingu. Notendur voru að jafnaði sjö hverju sinni og mótuðu þeir sjálfir verkefnin sem unnið var að.
    Til þess að meta árangur verkefnisins var lögð könnun fyrir þátttakendur við upphaf þess og aftur um það bil hálfu ári síðar. Niðurstöður sýndu að þátttakendur töldu sig hafa haft gagn af verkefninu og að það myndi nýtast þeim vel. Jafnframt kom fram að áhugi þátttakenda á því að komast í vinnu hafði aukist. Loks kom fram vilji þeirra til að fá meiri fræðslu og aðstoð við leit að framtíðaratvinnu. Aðstandendur þátttakenda voru annaðhvort mjög ánægðir eða ánægðir með verkefnið og töldu að það myndi nýtast ungmennunum í framtíðinni.

     2.      Hversu mikið fé hefur verið veitt til nýsköpunarverkefna fyrir fatlað fólk frá árinu 2014 og hvernig hefur því verið ráðstafað?
    Velferðarráðuneytið skilgreinir nýsköpun sem aðgerðir sem miða að nýjum lausnum eða endurbótum á vörum, tækni, aðferðum, skipulagi, gildum verkferlum eða verklagi. Mörg verkefni sem starfrækt hafa verið og ráðuneytið hefur styrkt, m.a. samkvæmt framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012–2014, falla undir þessa skilgreiningu. Upphæðin sem varið hefur verið til verkefnanna á grundvelli áætlunarinnar nemur alls 93,6 millj. kr. fyrir utan það sem greitt hefur verið til NPA-verkefnisins. Verkefnin eru talin upp hér á eftir en fyrir nánari upplýsingar er vísað í stöðu- og árangursmat á framkvæmdaáætluninni sem birt var á vef ráðuneytisins 28. nóvember 2016.
     1. Handbók fyrir ferðaþjónustuaðila ríkja í Norður-Atlantashafi.
    Árið 2015 veittu félags- og húsnæðismálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra samtals 4 millj. kr. styrk til gerðar handbókar fyrir ferðaþjónustuaðila ríkja í Norður-Atlantshafi. Markmiðið með gerð handbókarinnar er að bæta aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum og inniheldur hún viðmiðunarreglur sem eiga að auðvelda ferðaþjónustuaðilum að bæta aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu sem veitt er ferðamönnum. Handbókin er samstarfsverkefni þriggja landa í Norður-Atlantshafi, þ.e. Færeyja, Grænlands og Íslands. Aðalstyrktaraðili verkefnisins er NORA, samstarfsvettvangur landa í Norður-Atlantshafi, en fjölmargir aðilar koma að verkefninu auk fyrrnefndra ráðuneyta.
    2. Samgöngur.
    Árið 2015 fékk Reykjavíkurborg styrk að upphæð 2 millj. kr. Sett var á laggirnar tilraunaverkefni til að auðvelda fötluðu fólki að nýta sér almenningssamgöngur. Þannig gæti fatlað fólk enn frekar tekið þátt í daglegu lífi án aðgreiningar. Framkvæmd verkefnisins var þannig háttað að starfsmenn voru fengnir til að vinna með fötluðu fólki sem notaði ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að geta í framhaldinu nýtt sér almenningssamgöngur.
    3. Virkniúrræði.
    Árið 2016 veitti velferðarráðuneytið Vinnumálastofnun 5 millj. kr. styrk til að styðja við fjölgun starfstækifæra fólks með fötlun og til að auka fjölbreytni starfstilboða. Byggt er á þeirri hugmyndafræði að nýta vinnuframlag sem flestra og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og útilokun fatlaðs fólks frá vinnumarkaði og virkri samfélagsþátttöku. Sérstök áhersla var lögð á atvinnutækifæri fyrir ungt fatlað fólk sem lokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskólanna eða diplómanámi frá Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hlutaðeigandi fái starf og stuðning til að sinna því til lengri tíma.
    4. Tilraunasmiðja.
    Árið 2015 gerði Vinnumálastofnun samning við Hafnarfjarðarbæ. Markmið samkomulagsins var að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks með gildisaukandi félagslegu hlutverki í starfi og vinna þannig að breyttu viðhorfi samfélagsins til fatlaðs fólks. Önnur markmið verkefnisins voru að auka vald fatlaðs fólks yfir eigin lífi með því að hafa val, vera þátttakendur á vinnumarkaði, auka sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk varðandi atvinnu og félagslega virkni og að fatlað fólk fengi tækifæri til fullrar þátttöku á eigin forsendum. Verkefnið var unnið samkvæmt framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og nam styrkupphæðin 5 millj kr. Sjá einnig svar við 1. lið þessarar fyrirspurnar.
    5. Notendastýrð persónuleg aðstoð.
    Tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) var komið á laggirnar árið 2011. Sérstakt framlag var veitt úr ríkissjóði til þess að greiða hlut ríkisins í verkefninu. Sú hlutdeild er nú 25% heildarkostnaðar en sveitarfélögin greiða 75%. Sérstök fjárveiting til NPA er nú á fjárlögum ársins 2017.
    6. Velferðartækni.
    Veittir voru styrkir til meistara- og doktorsnema að upphæð 1 millj. kr. til að vinna að rannsóknum á sviði velferðartækni. Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og frumkvöðlahugsun þar sem leitað er nýrra leiða til að auka lífsgæði notenda velferðarþjónustunnar.
    7. Velferðarþjónusta.
          Veittir voru styrkir til nýsköpunarverkefna á sviði velferðarþjónustu sveitarfélaga að upphæð 3 millj. kr. Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og frumkvöðlahugsun þar sem leitað er nýrra leiða til að auka lífsgæði notenda velferðarþjónustunnar. Velferðarsvið Reykjavíkur og Öldrunarheimili Akureyrar eru þátttakendur í þessu verkefni.
          Veittur var 1 millj. kr. styrkur til Nýsköpunarmiðstöðvar til þess að annast faglega umsjón með þessu verkefni.
    8. Hjálpartæki.
    Veittur var 2,5 millj. kr. styrkur til Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands til að veita leiðsögn varðandi meðferð og þróun flókinna tjáskiptatækja.
    9. Málþing.
    Haldið var málþing um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu. Kostnaður var um 2 millj. kr.
    10. Ofbeldi gegn fötluðum konum.
    Rannsóknasetur í fötlunarfræðum vann rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum. Á grundvelli niðurstaðna var gert samkomulag við Rannsóknasetrið um útgáfu og dreifingu á kynningarefni um ofbeldi gegn fötluðum konum og hvert fatlaðar konur gætu sótt stuðning hafi þær sætt ofbeldi. Styrkupphæðin nam 1,8 millj. kr.
    11. Ofbeldi gegn fötluðum börnum.
    Barnaverndarstofa fékk 3 millj. kr. til að styrkja rannsókn og meðferð mála þegar grunur er um að fatlað barn hafi sætt ofbeldi. Haldin var ráðstefna þar sem veitt var almenn fræðsla til fagfólks sem kemur að þessum málum með það að markmiði að auka vitund þess og þekkingu á þessu sviði og leiðbeina um viðeigandi viðbrögð. Að auki var haldið námskeið um efnið fyrir starfsfólk stofnana sem vinna að málefnum fatlaðs fólks og annað námskeið fyrir starfsfólk Barnahúss þar sem fjallað var um rannsóknir og meðferð þessara mála.
     12. Fræðsla um líkamann, ástarsambönd og kynlíf.
    Leikni ehf. fékk styrk að upphæð 1,5 millj. kr. til að koma á fót fræðsluvef fyrir unglinga og fullorðið fólk með þroskafrávik. Þar má m.a. finna fræðslu í máli og myndum um þróun ástarsambanda og muninn á einkarými og almannafæri.
    13. Ímynd.
          Ímyndarherferð. Í desember 2013 var veittur 8 millj. kr. styrkur til ímyndarherferðar sem nefndist Vetrarhæfileikarnir. Með þeim var markað upphaf að ímyndarátaki þar sem markmiðið var að vekja athygli á hæfileikum fólks og halda því til haga hve dýrmætt það er að allir geti sameinast í fjölbreytileikanum. Birtar voru auglýsingar í sjónvarpi og netmiðlum í þeim tilgangi að vekja með jákvæðum og skemmtilegum hætti athygli á styrkleikum og hæfileikum fatlaðs fólks. Með Vetrarhæfileikunum var einnig markað upphaf herferðarinnar Virkjum hæfileikana sem samanstóð af sjónvarpsauglýsingum, kynningarstarfi og fleiru. Á þessum viðburði komu ýmsir listamenn fram, fatlaðir og ófatlaðir, og hvatningarverðlaunin Kyndillinn voru afhent. Kyndillinn var einnig afhentur árið 2014.
          Framleiðsla sjónvarpsefnis. Veittir hafa verið styrkir til sjónvarpsþáttanna Með okkar augum, samtals að upphæð 5,5 millj. kr. Sérstaða þáttanna er sú að fólk með þroskahömlun er beggja vegna linsunnar, þ.e. það sér um dagskrárgerð, tökur, kynningar, o.fl. en nýtur aðstoðar fagfólks. Þættirnir hafa það að markmiði að breyta ímynd fólks með þroskahömlun í samélaginu og fræða almenning um getu þessa hóps, skoðanir og langanir. Líta má svo á að gerð sjónvarpsþáttanna sé jafnframt liður í því að uppfylla skyldur skv. 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að stuðla að vitundarvakningu um stöðu fatlaðs fólks og auka virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn. Velferðarráðuneytið hefur einnig veitt þessu verkefni fjárstyrk.
    14. Fræðsla fyrir starfsfólk sveitarfélaga.
    Veittur var styrkur að fjárhæð 1 millj. kr. til Menntavísindasviðs Háskóla Íslands vegna gerðar fræðsluefnis í formi námskeiða á netinu fyrir starfsfólk sveitarfélaga sem starfar í þjónustu við fatlað fólk.
    15. Fræðsla fyrir vinnuveitendur.
    Árin 2015 og 2016 fékk Vinnumálastofnun 2 millj. kr. styrk hvort ár. Styrknum var varið til að kynna þann stuðning sem stendur til boða af hálfu hins opinbera þegar fatlað fólk er ráðið til starfa. Að auki hefur verið leitast við að þróa ráðgjöf og stuðning við fatlaða atvinnuleitendur, m.a. með valdeflingu, fræðslu og starfsþjálfum á vinnustöðum. Einnig hefur verið efnt til fræðslu fyrir atvinnurekendur til að kynna tækifæri og áskoranir sem felast í því að ráða fatlað fólk til vinnu.
    16. Valdefling og notendasamráð.
    Árið 2015 gerði velferðarráðuneytið samkomulag við Hafnarfjarðarbæ og Reykjavíkurborg um þátttöku sveitarfélaganna í tilraunaverkefni sem miðar að því að styðja valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk. Áður höfðu Akureyrarbær og Sveitarfélagið Árborg unnið að verkefnum í þessu skyni samkvæmt samningi við ráðuneytið sem gerður var árið 2014. Alls voru veittar 4 millj. kr. í styrki til þessara verkefna.
    17. Framlag ólaunaðra umönnunaraðila.
    Samið var við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd könnunar um framlag ólaunaðra umönnunaraðila. Kostnaður við könnunina er um 1,6 millj. kr. Í könnuninni voru aðstandendur spurðir um umönnunarþátttöku sína, hvað þeir veiti helst aðstoð við og þeir beðnir um að meta með beinum og óbeinum hætti áhrif opinberu þjónustunnar á aðstæður fjölskyldunnar. Einnig voru aðstandendur spurðir um reynslu sína af þjónustu við fatlað fólk.
    18. Heilbrigði fatlaðs fólks.
    Velferðarráðuneytið veitti 5 millj. kr. til þess að framkvæma rannsókn með áherslu á að afla upplýsinga sem veita skýra mynd af heilbrigði fatlaðs fólks.
    19. Notendaráð.
    Veittir hafa verið styrkir, samtals að upphæð 13,7 millj. kr., til að koma á fót og starfrækja notendaráð á þjónustusvæðum fatlaðs fólks. Markmið notendaráðanna er að fötluðu fólki verði gert kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og öðrum hagsmunamálum.
    20. Kynning á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Ráðuneytið hefur styrkt sendiherraverkefnið svokallaða frá árinu 2012 um 3 millj. kr. á ári, samtals 18 millj. kr. Verkefnið felur í sér að fólk með þroskahömlun kynnir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir fólki með þroskahömlun og öðrum áhugasömum. Mikilvægt er að fatlaðir einstaklingar þekki sjálfir vel til samningsins og geti tileinkað sér innihald hans og nýtt það í baráttunni fyrir betra lífi og auknum tækifærum.
    21. Fatlaðir foreldrar.
    Reykjavíkurborg fékk styrk að upphæð 1 millj. kr. til að búa til leiðbeiningar/handbók fyrir fatlaða foreldra sem miðar að því að auka hæfni þeirra í foreldrahlutverkinu.

     3.      Hversu margir fatlaðir einstaklingar hafa hlotið styrk til nýsköpunarverkefna frá árinu 2014 og hve háir hafa þeir styrkir verið?
    Nýsköpunarverkefnin sem fengið hafa fjármagn hafa verið starfrækt á vegum ríkisstofnana, sveitarfélaga eða almannaheillasamtaka, oft með aðkomu fatlaðs fólks.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir frekari fjárveitingum til nýsköpunarverkefna fatlaðs fólks?
    Ráðherra telur að nýsköpun á sviði velferðarþjónustu geti verið árangursrík leið til að auka virkni og þátttöku fatlaðs fólks í lífi og starfi samfélagsins. Jafnframt sé nýsköpun nauðsynleg innan velferðarþjónustunnar til þess að takast á við þær umfangsmiklu áskoranir sem steðja að velferðarþjónustunni vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar og auknum kröfum sem framtíðin mun bera í skauti sér. Ráðherra hefur nú sett af stað endurskoðun á fyrirliggjandi stefnu frá 2015 um nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu ásamt því að hafa frumkvæði að auknu samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands á sviði skapandi lausna innan velferðarþjónustunnar. Ráðherra mun á árinu 2017 leggja til sérstakt fjármagn til nýsköpunarverkefna þar sem sprotahugmyndir fatlaðra einstaklinga og félaga munu verða í forgrunni.