Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 340  —  40. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir velferðarráðuneytisins sem heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Vinnueftirlit ríkisins starfar á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum ásamt reglugerðum og reglum sem sett hafa verið lögunum til fyllingar. Vinnueftirlitið byggir starf sitt á samþættingu eftirlits, fræðslu og rannsókna og hefur eftirlit með því að atvinnurekendur á landi fylgi ákvæðum laga um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og viðkomandi reglugerðum. Siglingamál og loftferðir eru undanskilin gildissviði laganna en samstarfssamningur við Siglingastofnun var gerður árið 2010 um verkaskiptingu eftirlits í flotkvíum og prömmum og vegna eftirlits með vinnu á bátum styttri en 6 metra. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með vinnuvélum og tækjum um borð í prömmum og flotkvíum og aðbúnaði starfsmanna og þeim þáttum sem tengjast bæði vinnu í landi og ám/vötnun/sjó hjá siglingaklúbbum, bátaleigum og smábátum sem stunda farþegaflutninga. Enn fremur sinnir Vinnueftirlit ríkisins markaðsgæslu og markaðseftirliti til að fylgjast með að vélar, tæki og annar búnaðar fullnægi viðeigandi öryggiskröfum sem og tilteknum formskilyrðum, svo sem að þau séu einkennd með viðeigandi merkjum og/eða að þeim fylgi leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?

Árleg framlög ríkissjóðs 2010–2016.

Framlög ríkissjóðs 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Vinnueftirlit ríkisins 274,8 259,3 264,7 274,8 294,1 331,7 420,4
Byggt er á ríkisreikningi fyrir árin 2010–2015, en fjárlögum fyrir árið 2016. Fjárhæðir í millj. kr.


     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?

Árlegar sértekjur 2010–2016.

Sértekjur stofnana 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Vinnueftirlit ríkisins 64,1 76,3 83,4 91,8 86,8 102,2 92,5
Byggt er á ríkisreikningi fyrir árin 2010–2015, en fjárlögum fyrir árið 2016. Fjárhæðir í millj. kr.


     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
    Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins voru 64 talsins í árslok 2010 en 66 í árslok 2016.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Samkvæmt 7. mgr. 82. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefur ráðherra heimild til að fela tiltekin eftirlitsverkefni Vinnueftirlits ríkisins annarri opinberri stofnun eða faggiltum skoðunarstofum. Þessi heimild kom fyrst inn í lögin með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í greinargerð með þeim lögum kemur m.a. fram að við ákvörðunartöku um að fela einkaaðila slík verkefni þurfi að meta hvort það teljist þjóðhagslega hagkvæmt að fela öðrum framkvæmd tiltekinna eftirlitsþátta en ætla má að slíkur flutningur teljist hagkvæmur á sumum sviðum en ekki öðrum og henti jafnvel engan veginn. Enn hefur slíkt mat ekki farið fram og því hefur einstökum verkefnum Vinnueftirlitsins ekki verið útvistað til faggildra skoðunarstofa.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Vísað er til svars við 5. lið fyrirspurnarinnar. Útvistun einstakra eftirlitsverkefna hlýtur að teljast skynsamleg teljist það þjóðhagslega hagkvæmt að fela öðrum framkvæmdina en forsenda þess að svo verði er að slíkt mat fari fram.