Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 345  —  107. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um innviða- og byggingarréttargjald.


     1.      Á hvaða lagaákvæðum byggist heimild Reykjavíkurborgar til að leggja á svokallað innviðagjald og byggingarréttargjald?
     2.      Í hvaða tilvikum eru þessi gjöld lögð á, hvernig er fjárhæð gjaldanna ákveðin og hvaða kostnaði er þessum gjöldum ætlað að mæta?
    Upplýsinga var aflað hjá Reykjavíkurborg um þau gjöld sem vísað er til og svar barst með bréfi frá borgarlögmanni, dags. 9. febrúar 2017. Þar kemur fram að um sé að ræða annars vegar greiðslu lóðarhafa fyrir byggingarrétt og hins vegar þátttöku lóðarhafa í innviðagerð í ákveðnum tilvikum. Innheimta þessa endurgjalds byggist ekki á sérstakri lagaheimild heldur á frjálsum einkaréttarlegum samningum Reykjavíkurborgar sem landeiganda og þeirra sem fá úthlutað byggingarlóðum.

     3.      Er ráðherra kunnugt um að önnur sveitarfélög hafi lagt á sambærileg gjöld við lóðakaup eða breytingar á nýtingu lóða?
    Ráðherra er kunnugt um að önnur sveitarfélög en Reykjavíkurborg hafi boðið út eða selt með öðrum hætti byggingarrétt á lóðum en heildstæð samantekt á því hvar, hvenær eða með hvaða hætti það hefur verið gert liggur ekki fyrir.

     4.      Hyggst ráðherra kanna lagaheimildir sveitarfélaga til að leggja á gatnagerðargjald og gjöld vegna lóða með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað?
    Um álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds fer eftir ákvæðum laga um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, en eins og fram kemur í 10. gr. laganna skal sveitarstjórn verja gatnagerðargjaldi til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja. Ekki hefur komið til skoðunar að takmarka heimildir sveitarfélaga til sölu byggingarréttar eða samningsfrelsi þeirra á þessu sviði að öðru leyti með lagasetningu.
    Tekið skal fram í þessu samhengi að ráðherra hefur í hyggju að skipa starfshóp sem skoða á kosti þess að heimila sveitarfélögum að innheimta gatnagerðargjald í dreifbýli.