Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 347  —  61. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um losun kolefnisgasa frá orkufrekum iðnaði og íslenskum flugflota.


     1.      Hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið handbærar tölur um losun kolefnisgasa, einkum koltvísýrings, úr orkufrekum iðnaði í erlendri eigu á Íslandi, þ.e. þremur álverum og kísilmálmverksmiðjunni á Grundartanga? Ef svo er, hverjar eru þær og frá hvaða tíma, sundurliðaðar eftir iðjuverum?
    Þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EU-ETS) en skila upplýsingum árlega um losun gróðurhúsalofttegunda til Umhverfisstofnunar. Losunartölum er skilað fyrir 31. mars ár hvert vegna losunar undangengis almanaksárs og eru því nýjustu upplýsingar sem stofnunin hefur undir höndum vegna starfsársins 2015.

Losun gróðurhúsalofttegunda árið 2015, talið í tonnum CO2-ígilda (CO2eq).

Rekstraraðili Tonn CO2-ígilda
Rio Tinto Alcan 306.922
Alcoa 596.581
Norðurál 505.421
Elkem 401.844

     2.      Hve mikið af kolefnisgösum losar fullbyggt hrákísilver United Silicon í Helguvík, sem er í byggingu og fyrsta fasa reksturs, úr framleiðsluferlinu á ári, þ.e. úr rafskautum, kolum, koksi og tréflísum?
    Samkvæmt samþykktri vöktunaráætlun fyrirtækisins vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir er gert ráð fyrir losun upp á tæp 130.000 tonn CO2-ígilda á ári í fyrsta áfanga reksturs. Fyrsti áfangi reksturs gerir ráð fyrir einum ofni en þegar seinni ofn bætist við er gert ráð fyrir að losunin tvöfaldist, eða í um 260.000 tonn CO2-ígilda á ári.

     3.      Hvað er áætlað að tvö önnur sams konar hrákísilver, sem eru í byggingu eða undirbúningi, Thorsil í Helguvík og PCC á Bakka við Húsavík, losi af kolefnisgösum úr framleiðsluferlinu á ári hverju?
     Thorsil í Helguvík.
    Áætlað er að heildarmagn losunar í kísilveri Thorsil verði 396.000 tonn CO2-ígilda á ári miðað við full afköst fyrsta áfanga samkvæmt vöktunaráætlun vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og tvöfalt meiri eftir að seinni áfangi verður kominn í rekstur, eða 792.000 tonn CO2-ígilda á ári.
    PCC á Bakka.
    Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum PCC er áætlað að árleg losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri PCC á Bakka verði um 181.500 tonn CO2-ígilda á ári í fyrsta áfanga og tvöfalt meiri þegar annar áfangi hefur verið tekinn í notkun, eða 363.000 tonn CO2-ígilda á ári.

     4.      Með hvaða hætti hyggst ráðherra beita sér fyrir því að minnka fyrrgreinda losun, binda kolefnisgösin eða minnka á annan hátt hlut þessa orkufreka iðnaðar í kolefnisbúskap Íslands?
    Þau fyrirtæki sem fjallað hefur verið um hér að framan falla öll undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir (EU-ETS) samkvæmt EES-samningnum og þurfa fyrirtækin því að afla sér losunarheimilda vegna þeirrar losunar sem af starfseminni hlýst. Hluta heimildanna fá fyrirtækin úthlutað án endurgjalds, eða um 80%, en það sem út af stendur þurfa fyrirtækin sjálf að afla sér á markaði.
    Þar sem umrædd fyrirtæki falla undir ETS-kerfið er ekki gert ráð fyrir því að leggja á þau sérstakar kvaðir eða álögur hér á landi vegna losunar. Slíkar sértækar álögur brytu í bága við reglur sem gilda um ETS-kerfið, sem er í eðli sínu kerfi sem á að hvetja til samdráttar í losun, þar sem heimildum í kerfinu er fækkað um 1,74% árlega og þannig gert ráð fyrir að verð þeirra hækki og þar með myndist hvati til samdráttar í losun.
    Við jarðvarmavirkjun OR á Hellisheiði hefur náðst góður árangur í tilraunaverkefni með niðurdælingu bæði koldíoxíðs og brennisteinsvetnis. Gert er ráð fyrir því að það verkefni haldi áfram og þannig dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuframleiðslu frá jarðhita. Miðað við þá tækni, sem álverin hér á landi nota, er ekki talið mögulegt að fanga koltvísýring til niðurdælingar líkt og gert er á Hellisheiði, en vísindamenn hafa sýnt því áhuga að skoða þann möguleika og því ekki útilokað að hægt verði að nýta þá tækni í framtíðinni og þannig draga úr losun frá stóriðju hér á landi.

     5.      Hver var losun hins ört stækkandi íslenska farþegaflugflota á koltvísýringi árin 2014, 2015 og 2016?
    Mikilvægt er að árétta að samkvæmt losunarbókhaldi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fellur losun frá millilandaflugi ekki undir skuldbindingar einstakra ríkja í Kýótó-bókuninni, en þrátt fyrir það eru upplýsingar um losun frá millilandaflugi teknar saman og þeim skilað til skrifstofu loftslagssamningsins, áætlaðar út frá seldu eldsneyti á Keflavíkurflugvelli. Á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) er unnið að aðgerðum til að draga úr losun frá flugi.
    Þrátt fyrir að losun frá flugi falli ekki undir skuldbindingar einstakra ríkja falla flugrekendur sem starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir og þurfa flugrekendur því að afla losunarheimilda vegna þeirrar losunar sem hlýst af rekstri þeirra. Eins og varðandi rekstur iðnfyrirtækja, sem falla undir ETS-kerfið, er hluta losunarheimilda til flugs úthlutað án kostnaðar fyrir viðkomandi flugrekanda en þess sem upp á vantar þurfa flugrekendur að afla á markaði.
    Árlega skila flugrekendur, sem falla undir kerfið, vottaðri skýrslu sem útlistar losun síðasta árs og gera upp losunarheimildir sínar þar sem ein heimild jafngildir einu tonni af koltvísýringi.
    Frá árinu 2013 gefa flugrekendur einungis upp losun frá flugi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hefur Umhverfisstofnun upplýsingar um heildarlosun þessara flugrekenda frá gagnagrunni Eurocontrol, evrópsku flugmálastofnunarinnar, þar sem öll losun flugrekendanna kemur fram, þ.m.t. til annarra ríkja utan Evrópu eins og t.d. Bandaríkjanna. Þó er vakin athygli á því að þessar tölur eru ekki vottaðar heldur einungis áætlaðar og því getur örlítill munur verið á þessari áætluðu losun Eurocontrol og raunlosun flugrekenda.
    Losun gróðurhúsalofttegunda frá innanlandsflugi fellur undir skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni.
    Heildarlosun íslenskra flugrekenda árið 2014 nam 903.612 tonnum í millilandaflugi en 22.637 tonnum í innanlandsflugi. Á árinu 2015 losuðu sömu flugrekendur 1.072.376 tonn í millilandaflugi og 23.012 tonn í innanlandsflugi. Í þessum tölum eru allir stærri íslenskir flugrekendur sem Umhverfisstofnun hefur upplýsingar um, þ.m.t. fraktflug.
    Gögn fyrir árið 2016 liggja ekki enn fyrir, en flugrekendum ber að skila losunarskýrslu fyrir árið 2016 fyrir 31. mars næstkomandi og gera upp losunarheimildir fyrir 30. apríl. Því má gera ráð fyrir að gögn um losun árið 2016 liggi fyrir í byrjun maí nk.

Heildarlosun íslenskra flugrekenda, innan Evrópu og til annarra landa og innan lands.

Tonn CO2-ígilda
Ár Millilandaflug Innanlandsflug
2014 903.612 22.637
2015 1.072.376 23.012
2016 Gögn liggja fyrir í maí 2017

     6.      Telur ráðherra að innheimta eigi svonefndan kolefnisskatt á notkun kolefnis í orkufrekum iðnaði og á eldsneyti millilandaflugvéla? Hver eru rök með því og á móti?
    Kolefnisskattur er mikilvægt stjórntæki til umhverfisverndar og ráðherra almennt hlynntur notkun þess fyrirkomulags. Með lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, var komið á sérstöku kolefnisgjaldi sem lagt er á eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna. Millilandaflug er undanþegið kolefnisgjaldi á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga. Gjaldið er einnig endurgreitt af eldsneyti á skip í millilandaferðum. Almennt gildir sú regla að kolefnisgjald er ekki innheimt vegna losunar sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir þar sem það kerfi felur í sér álögur á losun. Starfsemi sem fellur þar undir á að búa við sömu kröfur hér á landi og gerðar eru annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Öll losun frá orkufrekum iðnaði á Íslandi og frá millilandaflugi, fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, sjá umfjöllun í svari við 4. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar. Losun þeirra fyrirtækja er því innan kerfis sem er þannig gert að innbyggt er að losun innan kerfisins minnkar með árunum þar sem samdráttur verður í fjölda losunarheimilda sem og heildarfjölda heimilda.
    Ekki er gert ráð fyrir því að sérstakur kolefnisskattur verði lagður á þennan iðnað þar sem hann fellur nú þegar undir viðskiptakerfið. Slíkar sértækar álögur brytu í bága við þær reglur sem gilda um ETS-kerfið, sem er í eðli sínu kerfi sem á að hvetja til samdráttar í losun, þar sem fjölda heimilda er fækkað árlega.
    Fyrirkomulag á kolefnissköttum og öðrum grænum sköttum er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður unnið að því að koma á samræmdu kerfi grænna skatta sem felur í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og verður til þess að skapa hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Í því skyni verður m.a. áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti.