Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 349  —  81. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um tannvernd aldraðra.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda í tannvernd aldraðra?
    Tannheilsa er ein af undirstöðum góðrar heilsu og heilbrigði tanna skiptir miklu máli fyrir almenna heilsu og vellíðan fólks. Aldraðir Íslendingar eru nú betur tenntir en áður fyrr og vandamál tengd tönnum eru því algengari en áður hjá öldruðum. Tannvernd er afar mikilvæg, en tannvernd snýst fyrst og fremst um góða munnhirðu, hollar neysluvenjur, notkun flúors og reglulegt eftirlit tannlæknis.
    Vitun almennings um mikilvægi þessara þátta til að vernda tennur hefur farið vaxandi og er tannvernd aldraðra eitt forvarna- og heilsueflingarverkefna embættis landlæknis sem sinnir því m.a. með útgáfu margs konar fræðsluefnis.

     2.      Er ætlunin að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannlæknakostnaði aldraðra?
    Í árslok 2016 var greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í tannlæknakostnaði aukin með hækkun á greiðsluhlutfalli vegna aldraðra og öryrkja, sbr. reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar nr. 1243/2016.
    Viðmiðunargjaldskrá var ekki breytt samhliða. Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga aldraðra og öryrkja hefur ekki fylgt verðlagsþróun undanfarin ár þannig að kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga Íslands hefur lækkað að raungildi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stefna að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu og mun heilbrigðisráðherra taka greiðsluþátttöku ríkisins í tannlæknakostnaði aldraðra til skoðunar á árinu 2017.