Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 353  —  255. mál.
Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um notkun geðlyfja og svefnlyfja á hjúkrunarheimilum.

Frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


     1.      Hve marga dagskammta af svefnlyfjum, sterkum geðlyfjum, kvíðastillandi lyfjum, geðdeyfðarlyfjum og öðrum sambærilegum lyfjum keyptu hjúkrunarheimili hér á landi árlega sl. tvö ár, flokkað eftir hjúkrunarheimilum? Hve margir dvöldust á hverju þessara heimila og hver reiknast dagskammturinn á heimilismann að meðaltali?
     2.      Telur ráðherra að notkun geðlyfja og svefnlyfja sé óhóflega mikil á hjúkrunarheimilum á Íslandi?
     3.      Hver er ástæðan fyrir því að notkun sterkra þunglyndislyfja á hjúkrunarheimilum er veruleg í öðrum tilfellum en mælt er með í gæðavísi landlæknisembættisins frá því í febrúar?
     4.      Er notkunin í samræmi við gæðavísa hjúkrunarheimilanna og ef svo er, hvers vegna er ekki samræmi milli gæðavísa þeirra og gæðavísa landlæknisembættisins?
     5.      Hvaða áhrif telur ráðherra að mikil notkun umræddra lyfja hafi á íbúa og starfsfólk hjúkrunarheimila?
     6.      Hverjar eru langtímaafleiðingar af notkun fyrrgreindra geðlyfja og svefnlyfja á heilsu eldri borgara sem eru á fyrrgreindum heimilum?
     7.      Telur ráðherra að unnt sé að bæta líðan heimilismanna á heimilunum með öðrum hætti en með því að gefa þeim fyrrgreind lyf? Ef svo er, hvernig telur ráðherra að það sé hægt?
     8.      Telur ráðherra að úrbóta sé þörf við notkun lyfjanna á hjúkrunarheimilum og ef svo er, til hvaða ráðstafana hyggst hann grípa til að draga úr eða breyta notkuninni?
     9.      Hver er munurinn á ytra og innra eftirliti landlæknis með notkun fyrrgreindra lyfja?
     10.      Hverjar eru helstu niðurstöður innra og ytra eftirlits með notkun lyfjanna?
     11.      Telur ráðherra að innra og ytra eftirlit landlæknis með lyfjagjöfum aldraðra á hjúkrunarheimilum dugi til að notkun lyfja sé ekki meiri en þörf er á?
     12.      Fyrir hversu háar fjárhæðir voru keypt geðlyf og svefnlyf á hjúkrunarheimilum sl. tvö ár?


Skriflegt svar óskast.