Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 354  —  256. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um framkvæmd landamæraeftirlits o.fl.

Frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur.


     1.      Hvaða íslenska stjórnvald eða stofnun bar ábyrgð á aðgerðum og annaðist framkvæmdina þegar för breska ríkisborgarans Juhels Miah til New York var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli 16. febrúar 2017?
     2.      Hvaða aðili krafðist þess að Juhel Miah yrði meinað að halda áfram för sinni?
     3.      Á grundvelli hvaða laga, alþjóðasamþykkta eða annarra réttarheimilda var Juhel Miah meinað að halda áfram för sinni?
     4.      Eftir hvaða íslensku lögum og reglum var farið við framfylgd ákvörðunarinnar og samkvæmt hvaða réttarheimildum gripu viðkomandi flugfélag og opinbera hlutafélagið sem annast öryggismál á Keflavíkurflugvelli til ráðstafana gagnvart þessum tiltekna flugfarþega?
     5.      Í hvaða tilvikum þurfa íslensk flugfélög og opinbera hlutafélagið sem annast öryggismál á Keflavíkurflugvelli að leita heimilda frá íslenskum löggæsluyfirvöldum við valdbeitingu, hindrun á ferð flugfarþega eða aukna öryggisleit?
     6.      Hvaða ábyrgð eða skyldur bera íslensk stjórnvöld gagnvart þeim sem verða strandaglópar á Íslandi vegna ákvarðana annarra ríkja um að meina þeim för með flugi?
     7.      Hver sér til þess að íslensk flugfélög og opinbera hlutafélagið sem fer með rekstur flugvallarins gæti að mannréttindum þeirra sem um flugvöllinn fara?
     8.      Tengdist ákvörðun um að hindra för Juhels Miah til New York tilskipun Bandaríkjaforseta frá 27. janúar 2017 um að meina borgurum tiltekinna ríkja landgöngu í Bandaríkjunum?
     9.      Hafa hliðstæð atvik átt sér stað áður og ef svo er, hversu oft hefur ferðafrelsi erlendra ríkisborgara verið heft á þennan hátt á millilandaflugvöllum landsins og á grundvelli hvaða laga eða alþjóðasamþykkta?
     10.      Hafa íslensk stjórnvöld farið fram á það við erlend yfirvöld að för einstaklinga á leið til Íslands verði stöðvuð með viðlíka hætti og þá hversu oft á undangengnum fimm árum?


Skriflegt svar óskast.