Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 366  —  264. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins.
     2.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins (sbr. fskj. II) og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu (sbr. fskj. III).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir reglugerð (ESB) 2015/2120 var ákvörðun nr. 92/2016 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 tekur upp í samninginn. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþings fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu.
    Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 kveður á um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með lúkningarverði er átt við það gjald sem fjarskiptafyrirtæki í því landi þar sem símtal á sér stað má leggja á gjaldanda frá öðru ríki til viðbótar þeirri gjaldskrá sem þar gildir. Gjaldið er síðan innheimt af þeim sem hringir fyrir milligöngu þess fjarskiptafyrirtækis sem hann á viðskipti við í sínu heimalandi. Lúkningarverð hefur verið nefnt reikigjöld í almennu tali. Framkvæmdarreglugerðin gerir ráð fyrir lækkun reikigjalda 30. apríl 2016, en í júní 2017 falla reikigjöld niður að fullu og gildir þá gjaldskrá þess ríkis sem símtal er hafið í án nokkurra viðbótargjalda.
    Reglugerð (ESB) 2015/2120 er efnislega tvíþætt. Annars vegar fjallar hún um reglur um nethlutleysi (e. Net Neutrality) sem eiga að stuðla að vernd hins opna nets og hins vegar alþjóðlegt reiki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Frá árinu 2007 hafa verið í gildi sérstakar reglur í þeim tilgangi að stilla reikigjöldum í hóf innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með lækkun reikigjalda hafa skapast aðstæður til að afnema sérstök reikigjöld. Þannig gerir reglugerð (ESB) 2015/2120 ráð fyrir því að sérstök reikigjöld leggist af í júní 2017 og að fjarskiptanotendur greiði samkvæmt gjaldskrá þess ríkis sem símtal er hafið í án nokkurra viðbótargjalda, að því gefnu að um sanngjarna notkun sé að ræða. Þá hefur Fjarskiptaeftirlitsstofnun Evrópu verið falið að móta tillögur um hvað teljist sanngjörn notkun. Sá þáttur reglugerðar (ESB) 2015/2120 er varðar alþjóðlegt reiki kallar ekki á lagabreytingar og hefur nú þegar verið innleiddur hér á landi með reglugerð nr. 558/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Mál er varða nethlutleysi í víðum skilningi, svo sem umferðarstýringar, landfræðilegar takmarkanir á netumferð (e. Geo Blocking) og lokun fyrir efni og þjónustu á netinu hafa vakið athygli undanfarin ár. Jafnframt hafa vaknað áhyggjur af því að ýmis forgangsþjónusta á netinu á yfirgjaldsverði gæti orðið til þess að rýra gæði hins almenna og opna nets og gert það að verkum að neytendur þyrftu almennt að greiða hærra verð til að hafa afnot af nothæfu neti. Á grundvelli þessarar umræðu hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitt sér fyrir hertari reglum um nethlutleysi, sem í reglugerð (ESB) 2015/2120 kallast tæknilegt hlutleysi.
    Reglan um nethlutleysi hefur hvergi verið skilgreind lögformlega, en megininntak hennar er fólgið í því að öll umferð um netið skuli meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Þannig skulu öll rafræn samskipti á netinu vera óháð efni, hugbúnaði, notkunareiginleikum, þjónustu, búnaði, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Sem dæmi má nefna ef fjarskiptafyrirtæki mundi loka fyrir ákveðna þjónustu netnotenda sinna, t.d. Skype. Í gildandi Evrópureglum hefur hugmyndin um nethlutleysi birst í þeirri meginreglu að aðildarríki skuli stuðla að því að notendur geti sótt efni og þjónustu á netinu að eigin vali og að fjarskiptafyrirtæki skuli upplýsa viðskiptavini sína ef gerðar eru ráðstafanir til netmismununar.
    Í reglugerð (ESB) 2015/2120 er fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að virða tæknilegt hlutleysi og bannað að mismuna, nema að uppfylltum þeim kröfum að mismununin sé málefnaleg og nauðsynleg undir tilteknum kringumstæðum. Skilyrðin sem sett eru fyrir slíkri mismunun eru ströng og verður venjubundin umferðarstýring ekki sjálfgefin lengur, svo sem takmarkanir á gagnaflutningshraða og gagnamagni, sem almennt hefur verið notast við til að stjórna álagi á netinu. Þá kveður gerðin á um að einungis skuli beita umferðarstýringu í hófi og í takmarkaðan tíma.
    Í reglugerð (ESB) 2015/2120 er hugað að hag neytenda, sem og aukinni vernd þeirra. Annars vegar með því að stuðla að því að viðhalda hinu almenna, opna neti með auknum kröfum á hendur fjarskiptafyrirtækjum og hins vegar með því að minnka kostnað neytenda með afnámi sérstakra reikigjalda. Þá er gert ráð fyrir að reglum um nethlutleysi sé framfylgt með eftirliti og að viðlögðum viðurlögum, séu þær brotnar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) 2015/2120 kallar á breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Gert er ráð fyrir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á reglum um nethlutleysi.
    Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 og sá hluti reglugerðar (ESB) 2015/2120 er varðar reiki hafa nú þegar verið innleiddar í landsrétt með reglugerð nr. 558/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins.Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 frá 29. apríl 2016 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0366-f_I.pdf
Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0366-f_II.pdf
Fylgiskjal III.


Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0366-f_III.pdf