Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 370  —  268. mál.Fyrirspurn


til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum.

Frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


     1.      Hverjar eru líkur þess, miðað við núverandi stefnumótun í orkusölumálum, að stýra þurfi orkusölu með kerfisbundnum hætti á ákveðna staði þannig að jafnvel verði rafmagnslaust á einhverjum svæðum? Óskað er upplýsinga um hvaða svæði landsins ráðherra telur að verði fyrir þeim búsifjum.
     2.      Til hvaða ákvarðana hyggst ráðherra grípa til að tryggja gegnsæi á heildsölumarkaði með raforku? Svarið óskast rökstutt með tilliti til skilgreininga á gegnsæi á neytendamörkuðum.
     3.      Hver eru áform ráðherra um lagningu sæstrengs milli Íslands og annarra landa? Telur ráðherra að íslenskir aðilar ættu að vera meirihlutaeigendur að strengnum og ef svo er, hvernig hyggst ráðherra tryggja það?
     4.      Getur komið til þess að mati ráðherra að á næstu árum verði raforka til heimila og minni fyrirtækja að einhverju marki framleidd með olíu þar sem ekki verði tryggt nægilegt framboð af umhverfisvænni orku hér á landi? Svarið óskast rökstutt með vísan til fyrirliggjandi áætlana og stefnumörkunar.
     5.      Hverjar eru líkurnar á kerfishruni á heildsölumarkaði með raforku að mati ráðherra? Svarið óskast rökstutt með vísan til fyrirliggjandi áætlana og stefnumörkunar.
     6.      Er til orkustefna? Ef svo er ekki, hvenær er hennar að vænta?


Skriflegt svar óskast.