Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 375  —  56. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skráningu trúar- og lífsskoðana.


     1.      Telur ráðherra það samrýmast persónuverndarsjónarmiðum að hið opinbera haldi skrá um trúar- og lífsskoðanir Íslendinga?
    Nei og rétt er að taka fram að íslensk stjórnvöld halda enga slíka skrá. Hins vegar er gerð krafa um að trúfélög sem hyggjast sækja fé úr almannasjóðum séu skráð og að fjöldi meðlima liggi fyrir. Skrá um skráningu í félög kann að fara gegn persónuverndarsjónarmiðum ef málefnalegar ástæður liggja ekki til grundvallar.
    Samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar er öllum heimilt að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins, svo fremi að aðgerðir og kenningar félagsins stríði ekki gegn almennu siðferði eða allsherjarreglu. Hið sama gildir um lífsskoðunarfélög. Öllum landsmönnum er jafnframt heimilt að vera utan trúfélaga kjósi þeir það, sbr. 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar. Rétturinn til friðhelgi einkalífs er varinn af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en vernd persónuupplýsinga er hluti af þeim rétti.
    Lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, er ætlað að tryggja slíka vernd. Samkvæmt a-lið 8. tölul. 2. gr. þeirra laga eru upplýsingar um trúarskoðanir eða aðrar lífsskoðanir viðkvæmar persónuupplýsingar. Til þess að vinna megi með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju af heimildarákvæðum 8. gr. laganna. Þegar um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða þarf að auki að vera fullnægt einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. sömu laga. Eitt af þeim skilyrðum sem geta veitt heimild til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt 8. gr. er að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu ábyrgðaraðila. Samkvæmt 9. gr. getur eitt af viðbótarskilyrðunum fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga verið að sérstök heimild standi til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum.
    Við mat á því hvort vinnsluheimild samkvæmt 8. og 9. gr. laganna sé fyrir hendi getur því þurft að líta til ákvæða í öðrum lögum. Hvað varðar trúfélög og önnur sambærileg félög getur það haft vægi að vikið er að greiðslum til trúfélaga í 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar en þar er getið um gjald sem einstaklingi ber að greiða til trúfélags síns eða hvernig málum skuli háttað ef hann stendur utan trúfélaga, enda verði því ekki breytt með lögum. Um gjaldið eru ákvæði í lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, en samkvæmt 1. gr. laganna skulu þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti, álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, eftir því sem lög um sóknargjöld o.fl. ákveða. Í því sambandi verður að líta til ákvæðis 3. mgr. 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, en þar kemur fram að aðild að þjóðkirkjunni ráðist af skírn og skráningu í þjóðskrá. Þá er í 4. mgr. 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, mælt fyrir um tilkynningu til þjóðskrár um inngöngu í og úrgöngu úr trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.
    Sú tilkynning til þjóðskrár skiptir máli vegna fjárhæðar sem rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Í ljósi framangreinds verður að telja að skráning í þjóðkirkjuna, skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög í þjóðskrárkerfi Þjóðskrár Íslands eigi sér stoð í stjórnarskránni og byggist enn fremur á ákvæðum laga. Þannig uppfylli skráningin skilyrði persónuverndarlaga um vinnslu persónuupplýsinga. Við slíka vinnslu ber ávallt að fara að öllum kröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þar á meðal þeirri kröfu 2. tölul. þeirrar málsgreinar að persónuupplýsingar skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sem og kröfu 3. tölul. sömu málsgreinar um að slíkar upplýsingar skuli vera nægilegar og viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Þá ber m.a. að gæta að öryggi persónuupplýsinga þannig að þær séu varðar gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, sbr. 11. gr. laga nr. 77/2000.
    Samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, ræðst aðild að þjóðkirkjunni með skráningu í þjóðskrá. Skráning að öðru leyti í skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög þjónar þeim tilgangi að fá tölfræðilegar upplýsingar um fjölda einstaklinga í einstöku skráðu trú- eða lífsskoðunarfélagi miðað við 1. desember ár hvert, svo að unnt sé að reikna út framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í samræmi við ákvæði laga um sóknargjöld o.fl. Í framkvæmd ber hver og einn ábyrgð á því að hann sé skráður í það trúfélag eða lífsskoðunarfélag sem hann kýs að vera skráður í hjá Þjóðskrá Íslands, eða að hann standi utan trúfélaga kjósi hann það. Óski einstaklingur eftir að skrá sig í trú- eða lífsskoðunarfélag sem ekki hefur hlotið skráningu samkvæmt lögum nr. 108/1999 er hann skráður í ótilgreint trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Trúfélögum og lífsskoðunarfélögum er hins vegar í sjálfsvald sett hvort þau halda sérstakt félagatal eða ekki.
    Í 1. mgr. 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, segir að um inngöngu í félag gildi reglur félagsins og samþykktir þess. Við eftirlit sýslumanns með starfsemi skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, sem byggt er á 5. gr. laganna hefur í framkvæmd ekki verið óskað eftir upplýsingum um hverjir séu félagar í sérhverju hinna skráðu félaga, enda ekki hluti af eftirliti sýslumanns. Skráning einstaklinga í trúfélög og lífsskoðunarfélög er því í reynd aðeins hjá Þjóðskrá Íslands og hefur þá þýðingu að útdeila fjármunum í samræmi við lög um sóknargjöld o.fl. Þá er rétt að árétta að skrá Þjóðskrár byggist ekki á trúar- eða lífsskoðunum fólks heldur varðar einungis skráninguna sem slíka.

     2.      Hvers vegna er óheimilt að vera skráður í fleiri en eitt trúar- eða lífsskoðunarfélag og telur ráðherra þessa takmörkun samræmast sjónarmiðum um persónufrelsi?
    Í 5. mgr. 8. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999, með síðari breytingum, kemur fram að enginn megi samtímis heyra til þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög, kemur fram að þannig séu ekki settar skorður við því að menn tilheyri fleiri trúfélögum en einu, svo lengi sem aðeins eitt þeirra er skráð eða þau öll óskráð. Þessi skipan mála sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um trú-, skoðana- og félagafrelsi. Eina takmörkunin sem felist í greininni sé sú að maður sem sé í þjóðkirkjunni geti ekki tilheyrt öðru skráðu trúfélagi, eða eftir atvikum að ef hann er ekki í þjóðkirkjunni geti hann aðeins tilheyrt einu skráðu trúfélagi. Með fyrirkomulagi laga nr. 108/1999, með síðari breytingum, hefur löggjafinn ákveðið að einstaklingum sé aðeins heimilt að skrá sig opinberlega í eitt trúfélag eða lífsskoðunarfélag óháð því hvernig þeir raunverulega iðka trú eða skoðanir sínar. Með skráningunni er fyrst og fremst verið að binda ákveðin réttindi og skyldur skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en ekki verið að takmarka trúfrelsi einstaklinga. Ekki hefur verið talið að slík skráning sé í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar um trú-, skoðana- og félagafrelsi.
    Auk þess hefur skráningin ekki í för með sér að Þjóðskrá Íslands haldi sérstakt félagatal trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga, utan þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna. Samkvæmt lögum er félagatal haldið hjá viðkomandi trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Í skráningunni hjá Þjóðskrá Íslands felst eingöngu hvert sóknargjöld skuli renna samkvæmt ákvæðum laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, og lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999. Skráningin ætti því ekki að skerða frelsi einstaklingsins til að iðka trúarbrögð sín eða lífsskoðanir í samræmi við eigin sannfæringu. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að ganga í annað eða önnur trúfélög eða lífsskoðunarfélög sem ekki eru skráð.
    Takmörkunin um skráningu í aðeins eitt trú- eða lífsskoðunarfélag á hverjum tíma lýtur aðeins að útdeilingu almannafjár, þ.e. að fé fylgi einstaklingi til trúfélags að hans vali. Hvað varðar félagafrelsi og heimild einstaklinga til að ganga í trú- eða lífsskoðunarfélög, þá verður mat um rétt til að ganga í félag ávallt í höndum viðkomandi félags.

     3.      Hvernig er aðgengi að skrá um trúar- og lífsskoðanir háttað og hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar úr skránni verði ekki misnotaðar, t.d. til að efna til sérstakra rannsókna á einstaklingum á grundvelli yfirlýsinga þeirra um trúarhætti eða lífsskoðanir?
    Við miðlun persónuupplýsinga hjá Þjóðskrá Íslands er ávallt haft í huga að miðla ekki meiri upplýsingum um einstaklinga en tilefni er til. Við almannaskráningu er gætt fyllsta öryggis þeirra gagna sem um er að ræða og Þjóðskrá Íslands hefur fengið vottun um stjórnun upplýsingaöryggis og fylgir ströngum reglum um aðgang og meðferð þeirra gagna sem um ræðir. Upplýsingar um trúar- eða lífsskoðanir eru viðkvæmar persónuupplýsingar og er þeim ekki miðlað. Hagstofa Íslands er eina opinbera stofnunin sem Þjóðskrá Íslands miðlar upplýsingum um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög til vegna tölfræðivinnslu. Þjóðskrá Íslands afhendir einungis forstöðumönnum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga lista yfir þá einstaklinga sem tilheyra því tiltekna trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

     4.      Sér ráðherra fyrir sér leiðir til að útdeila fé til trúar- og lífsskoðunarfélaga án þess að haldin sé sérstök skrá um trúar- og lífsskoðanir allra íbúa landsins?
    Samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, skal ríkissjóður skila mánaðarlega af óskiptum tekjuskatti tiltekinni fjárhæð sem renni til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Reiknast fjárhæðin fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári, ef tilkynnt hefur verið með lögmætum hætti til þjóðskrár að hann sé í þjóðkirkjunni eða í skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Meðan fyrirkomulag þetta er óbreytt er nauðsynlegt, til að unnt sé að framfylgja ákvæðum laga um sóknargjöld o.fl., að haldið sé utan um skráningu í sérhvert félag sem á tilkall til greiðslu frá ríkissjóði.
    Rétt er að árétta að skráningin lýtur ekki að trúar- eða lífsskoðunum í sjálfu sér. Ýmsar leiðir eru færar til að deila út almannafé til tiltekinna verkefna sem menn hafa verið sammála um að reka fyrir almannafé. Til þess að tryggja að málefnaleg sjónarmið ráði för hlýtur þó umfang starfseminnar að þurfa að liggja fyrir, ásamt mörgum öðrum þáttum. Þetta á við um trúfélög sem og starfsemi á vegum hins opinbera. Félagatal veitir einhverjar vísbendingar um umfang starfsemi.