Ferill 141. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 376  —  141. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gunnari I. Guðmundssyni um úthaldsdaga Landhelgisgæslunnar.


     1.      Hversu margir hafa árlegir úthaldsdagar Landhelgisgæslunnar verið frá árinu 2013, sundurliðað eftir árum og skipum, og hversu marga af þeim hefur Landhelgisgæslan verið við eftirlitsstörf?
    Á árunum 2013–2016 gerði Landhelgisgæslan alls út sex skip og báta: þrjú stór varðskip (Þór, Týr og Ægi) og þrjá minni báta (Óðin, Leiftur og sjómælingabátinn Baldur). Varðskipin þrjú gegna lykilhlutverki við löggæslu og eftirlit á Íslandsmiðum en minni bátarnir þrír hafa líka reynst mjög drjúgir við slík störf, t.d. þegar strandveiðitímabilið stendur sem hæst. Hér á eftir eru tilgreindir dagarnir sem þessi skip voru á sjó á árunum 2013–2016. Dagarnir sem varðskipin sinntu erlendum verkefnum, t.d. í Miðjarðarhafi á vegum Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu (Frontex) eru ekki meðtaldir.

Úthaldsdagar varðskipa Landhelgisgæslunnar 2013-2016.

Ár Þór Týr Ægir Baldur Leiftur/
Óðinn
Samtals
2013 107 105 36 23 30 301
2014 159 5 73 113 36 386
2015 236 0 15 41 5 297
2016 170 141 0 82 12 405

    Allar ferðir varðskipa á Íslandsmiðum eru í eðli sínu eftirlitsferðir. Þótt öðrum verkefnum, t.d. æfingum, sé sinnt meðan á ferðum varðskipanna stendur er virk vöktun og eftirlit stöðugt í gangi frá því skipin leggja úr höfn. Því er ekki tiltekið sérstaklega hve marga daga skipin voru við eftirlitsstörf.

     2.      Hversu oft hafa varðskip Landhelgisgæslunnar tekið eldsneyti, þ.m.t. á Íslandi, sundurliðað eftir dagsetningu, löndum og magni?
    Landhelgisgæslan hefur sett olíu á varðskip í 32 skipti frá 1. janúar 2013. Hluti þeirrar olíu sem keypt var í útlöndum var vegna erlendra verkefna á árunum 2013–2015, þ.m.t. hluti af olíunni sem keypt var í Færeyjum.

Olíukaup á varðskip eftir löndum frá 1. janúar 2013 – 24. febrúar 2017.

Land Færeyjar Ísland Ítalía Spánn Malta
Lítrar 5.270.288 274.606 148.834 393.855 569.654Dags. Upphæð Magn (lítrar) Land
5.1.2013 14.636.248 139.020 Færeyjar
21.2.2013 73.652.410 650.086 Færeyjar
31.7.2013 12.811.543 128.341 Spánn
31.8.2013 6.824.975 70.000 Færeyjar
30.9.2013 8.787.555 84.868 Spánn
22.1.2014 60.180.052 620.000 Færeyjar
17.3.2014 3.931.139 30.180 Ísland
2.5.2014 8.007.925 86.460 Ísland
30.7.2014 11.849.718 130.003 Færeyjar
27.11.2014 65.370.336 835.000 Færeyjar
15.12.2014 8.622.374 119.852 Malta
31.12.2014 4.566.681 69.913 Malta
28.1.2015 5.265.200 89.889 Malta
5.3.2015 7.391.427 100.000 Malta
14.4.2015 3.625.099 50.000 Ítalía
14.4.2015 4.020.401 60.000 Malta
22.4.2015 4.369.856 60.000 Malta
20.5.2015 5.355.931 70.000 Malta
26.5.2015 3.901.690 40.124 Ísland
17.6.2015 2.637.328 33.835 Ítalía
24.8.2015 50.248.546 880.000 Færeyjar
29.9.2015 5.846.450 99.876 Spánn
1.11.2015 9.190.498 117.842 Ísland
4.11.2015 4.523.535 80.770 Spánn
18.11.2015 18.435.251 371.114 Færeyjar
11.12.2015 5.003.173 100.013 Færeyjar
15.12.2015 3.962.131 64.999 Ítalía
27.4.2016 2.844.016 68.010 Færeyjar
3.6.2016 30.214.050 600.858 Færeyjar
21.7.2016 6.624.358 126.958 Færeyjar
12.12.2016 6.132.332 129.930 Færeyjar
14.1.2017 27.841.215 549.296 Færeyjar

     3.      Hversu marga daga hefur Landhelgisgæslan ekki sinnt eftirlitsstörfum vegna eldsneytistöku annars staðar en á Íslandi?
    Eins og fram kemur hér fyrr hefur Landhelgisgæslan undanfarin ár keypt olíu á skip sín á Ítalíu, Spáni, Möltu og í Færeyjum, auk Íslands. Eldsneytiskaup á Ítalíu, Spáni og Möltu tengjast landamæragæslu á vegum Frontex og hafa því ekki sem slík áhrif á eftirlit og löggæslu á Íslandsmiðum. Áhrifin af ferðum varðskipa til Færeyja á gæslustörfin eru einnig hverfandi. Skipin fara jafnan til Færeyja þegar þau eru við eftirlit í austanverðri lögsögunni. Um leið gefst færi á að sinna eftirliti á svæði innan efnahagslögsögunnar sem sjaldan er farið um, þ.e. hafsvæðinu djúpt suðaustur af landinu og á Færeyjahryggnum. Skipin staldra yfirleitt mjög stutt við í Færeyjum, eða rétt sem nemur tímanum sem olíudælingin tekur. Vera varðskipanna utan lögsögunnar er þar af leiðandi sjaldnast meiri en sólarhringur. Í þessu samhengi má líka nefna að Færeyjar eru innan alþjóðlega leitar- og björgunarsvæðisins sem Ísland er ábyrgt fyrir. Því hafa nokkrar þessara ferða verið nýttar til æfinga með dönskum eftirlitsskipum og færeyskum varðskipum.