Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 381  —  274. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjárfestingar í rannsóknum og þróun.


Flm.: Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Gunnar Hrafn Jónsson, Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leita leiða til að auka hlutfall fjárfestinga í rannsóknum og þróun á Íslandi þannig að það verði hærra en 2,8% af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2019.
    Ráðherra birti a.m.k. árlega upplýsingar um framgang mála þar til markmiðinu er náð.

Greinargerð.
    

    Sterk fylgni er milli fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpunar og hagvaxtar. Nýsköpun eykur fjölbreytni í atvinnulífinu, fjölgar störfum og hækkar meðaltekjur. Þau lönd sem hafa markað sér skýra stefnu um auknar fjárfestingar til rannsókna og þróunar hafa uppskorið mikinn vöxt. Hækkun fjárframlaga til þessa málaflokks jafnt og þétt næstu ár ætti að vera sjálfsagður hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að tryggja ágóða til framtíðar af yfirstandandi hagsveiflu.
    Hægt er að efla nýsköpun og rannsóknir með auknum fjárveitingum til rannsókna og þróunar, með auknum skattaívilnunum og bættu skipulagi rannsóknar- og þróunarstyrkja. Fjárfestingarstigið fer einnig saman við sterkt rannsóknarumhverfi háskóla og sterka hvata fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem leggja áherslu á rannsóknir og þróun í starfi sínu.
    Samkvæmt skýrslu OECD um aðalvísa í vísindum og tækni sem birtist 7. febrúar 2017 ( oe.cd/msti) námu fjárfestingar á Íslandi til rannsókna og þróunar 2,19% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Hæsta fjárfestingarstigið samkvæmt gögnum OECD er 4,25% af vergri landsframleiðslu í Ísrael, 4,23% í Kóreu, 3,49% í Japan, 3,26% í Svíþjóð, 3,07% í Austurríki, 2,96% í Danmörku, 2,90% í Finnlandi, 2,87% í Þýskalandi, 2,79% í Bandaríkjunum, 2,45% í Belgíu, 2,23% í Frakklandi og 2,21% í Slóveníu.
    Hlutfall framlaga til rannsókna og þróunar á Íslandi hefur farið hækkandi frá árinu 2013 en tölur fyrir árin 2008–12 liggja ekki fyrir. Tölur frá árinu 2000 benda til þess að árið 2001 hafi hlutfallið náð hámarki eða 2,81% en vísbendingar eru um að sú tala sé ofáætluð.
    Nú fara mælingar fram samkvæmt Frascati-handbók OECD en þar er horft til nokkurra þátta, þ.e. til rannsókna og þróunar, nýbreytni, sköpunar, kerfisbundinnar vinnu og notkunarmöguleika. Þannig er t.d. hefðbundin eða reglubundin starfsemi þar sem engin greinanleg nýjung eða lausn á vandamálum er fyrir hendi ekki talin til rannsókna eða þróunar.